Everton – Liverpool 2-2

Óvenju fjörugur derby leikur að baki, fullt af mörkum en stigin skiptust þó jafnt milli liðanna.

Ég var hundfúll með að missa Pienaar fyrir leikinn (fyrir fáránlegt seinna gult spjald) en gleðifréttir dagsins voru þær að Fellaini var orðinn góður af meiðslum sínum og gat leikið allan leikinn. Það var greinilegt að Liverpool mennirnir hræddust hann mikið því þeir voru yfirleitt komnir tveir í hann til að toga og/eða sparka og djöflast í honum en Fellaini lét það ekki á sig fá, tók háu boltana á kassann eða lágu boltana með einfaldri gabbhreyfingu og kom boltanum í leik á næsta mann. Afskaplega mikilvægt að fá hann aftur úr meiðslum enda hefur hann verið einn okkar besti leikmaður.

Liverpool fékk þó óskabyrjun strax á 14. mínútu þegar Suarez skaut á markið innan vítateigs hægra megin og boltinn endaði í innanverðu lærinu á Baines, breytti um stefnu og fór framhjá Howard. Fimmti leikurinn í röð þar sem Everton fær á sig suckerpunch grísamark á fyrstu 15 mínútunum. Suarez tók sig til (eftir að hafa smellt kossi á manninn sem hann elskar mest af öllu (sjálfan sig)) og hljóp í áttina að Moyes og dýfði sér fyrir framan hann. Þessi aumkunnarverði leikmaður er svo breyskur og vitlaus að hann stenst ekki mátið á að vekja meiri athygli á eigin brestum alltaf þegar umtalið um hann er sem mest (sbr. um daginn þegar hann rifjaði upp Evra málið sem allir héldu að væri gleymt og grafið). Alltaf þegar maður heldur að hann sé búinn að ná botninum heldur hann áfram að grafa.

Á 20. mín fengu Liverpool aukaspyrnu, Gerrard sendi fyrir og Suarez fékk frían skalla sem endaði í netinu þó Howard væri ekki langt frá því að verja með fætinum. 0-2 fyrir Liverpool og hér hélt maður að Everton væri að fara að sýna hefðbundna máttlausa frammistöðu gegn Liverpool eins og á síðasta tímabili.

En nei, ekki í þetta skiptið. Everton tók öll völd í kjölfarið og minnkaði muninn strax á 21. mínútu. Hornspyrna sem Baines tekur sem Brad Jones, markvörður Liverpool, hleypur til að slá í burtu en einhverra hluta vegna slær hann boltann beint til Osman sem er óvaldaður utan við teig og á meðan Brad Jones er að koma sér fyrir á línunni aftur þrumar Osman boltanum inn í vinstra hornið. Allt brjálað á Goodison Park.

Á 34. mínútu sendir Mirallas á Fellaini inn í teiginn vinstra megin, Fellaini tekur boltann fer upp að endamörkum og sendir fyrir markið þar sem Naismith kemur á ferðinni og setur hann auðveldlega framhjá Jones í markinu. 2-2 og allt vitlaust á pöllunum. Everton búið að jafna og Naismith setja sitt fyrsta deildarmark fyrir Everton (sjá mynd). Hann var svo næstum klipptur niður í teignum um leið og hann skoraði enda varnarmaður Liverpool með takkana á lofti.

Á einhverjum tímapunkti í fyrri hálfleik fékk Sterling gult spjald og þegar hann braut strax af sér aftur fengu bæði hann og Gerrard tiltal hjá dómara um að hann væri kominn á síðasta séns. Hann var til friðs það sem eftir lifði fyrri hálfleik en í seinni hálfleik braut hann aftur af sér… og fékk að sjálfsögðu rautt spjald fyrir. Eða hvað? Nei, hann fékk annan síðasta séns! Greinilegt að dómarinn reyndi sitt besta til að verða ekki að athlægi, eins og síðast þegar Liverpool kom í heimsókn á Goodison Park þegar Suarez fiskaði Rodwell út af.

Liverpool naut þess í tvígang því í seinni hálfleik gerðist það svo að Liverpool reynir stungusendingu á Suarez en Distin er miklu fyrri í boltann. Suarez eltir og þegar hann nálgast stígur hann ofan á löppina á Distin rétt ofan á ökkla, tæklar Distin niður aftan frá og Distin má þakka fyrir að vera með heilt beinið í fætinum á eftir. Dómarinn dæmir að sjálfsögðu rautt, eins og Suarez á vel skilið fyrir þetta fólskulega brot… já, nei — gult er það víst. Hvaða grín er þetta eiginlega?

Ég fór að hugsa um Brendan Rodgers sem fyrir leikinn var byrjaður að væla í dómaranum vel fyrir leik (eins og lagt hefur verið upp með á Anfield síðustu árin) hvað dómarar séu alltaf ósanngjarnir við greyið litla saklausa Liverpool liðið. Þetta er aumkunnarverðara en að hlusta á Arsene Wenger væla. Yfirmaður dómaramála á Englandi varaði Rodgers við, bað hann að hætta þessu því að svona lagað virki ekki. Svo fær maður æluna upp í kok þegar maður sér að þetta svínvirkar. Þetta var rautt á Suarez og ekkert annað, stórhættuleg tækling aftan frá, beint í vöðvann á Distin. Suarez átti aldrei séns í boltann. Frá mínum bæjardyrum séð var þetta ekkert annað en ásetningur. Svo er talað um að það þurfi að verja Suarez!??!

Ég rak svo upp stór augu þegar Phil Neville reyndi að fiska aukaspyrnu undir lok hálfleiksins með dýfu rétt utan við teig Liverpool. Hann fékk réttilega gult spjald fyrir og fékk aldeilis að heyra það í hálfleik hjá Moyes, enda er þetta ekki sæmandi leikmönnum Everton. Mér finnst Brendan nokkur Rodgers mætti taka þetta sér til fyrirmyndar, í stað þess að væla í dómurum yfir því að trikkið virki ekki alltaf hjá Suarez.

Mirallas fór út af í hálfleik, því miður. Hann hafði verið sparkaður niður af Suarez einu sinni en meiddist síðan á ökkla, að mér sýndist, í fyrirgjöf. Það munaði aldeilis um að hafa hvort Pienaar né Mirallas sem hafa verið mjög skapandi en Mirallas hafði verið líflegur í leiknum og oft farið illa með varnarmenn Liverpool. Bitið fór við þetta aðeins úr sóknarleik okkar manna en bæði lið áttu þó sín færi.

Jelavic átti skot á 49. mínútu frá hægri sem Jones ver til hliðar (vinstra megin við markið) þar sem Baines mætir, sendir fyrir og er klipptur niður innan teigs í kjölfarið (ekkert dæmt). Coleman tók við boltanum en fór illa með skotfærið.

Gerrard átti skot úr aukaspyrnu af löngu færi en Howard alltaf með þetta.

Bæði Jelavic og Fellaini komust í fín skallafæri en Jelavic fór illa með dauðafæri (á 66. mínútu) og skallaði vel framhjá hægra megin (Brad Jones á leið í vitlaust horn) – mjög óvenjulegt af þessum skeinuhætta sóknarmanni. Fellaini skallaði rétt framhjá vinstra megin nokkru fyrr. Sterling fékk svo dauðafæri þegar hann komst einn inn á móti Howard en lúðraði boltanum í innkast í stað þess að skjóta á markið.

Tölfræðin í leiknum á ákveðnum tímapunkti sýndi að Everton hafði átt 12 færi gegn 6 hjá Liverpool og verið með boltann 60% gegn 40% hjá Liverpool en náði ekki að nýta sér liðsmuninn. Maður var fann að mark Everton lá í loftinu eftir góða pressu á Liverpool liðið og var glaður að sjá að fjórum mínútum var bætt við.

Það munaði þó litlu að það kæmi í bakið á manni því Liverpool var næstum búið að stela sigrinum þegar Suarez skoraði mark sem var ranglega dæmt af vegna rangstöðu. Mér sýndist sem hægt hefði verið að dæma brot á þann sem sendi á Suarez fyrir að klifra upp á bakið á Jagielka til að skalla boltann en rangstæða var það allavega ekki. Þarna kom karmað í hausinn á Suarez fyrir dýfuna fyrir framan Moyes og sleppa með rauða spjaldið og kannski er rétt sem menn segja að þessi dómaramistök jafnist út þegar á heildina er litið. Eftir langa röð dómaramistaka sem hlutlausir hafa bent á að hafi kostað okkur mörk á tímabilinu (sem og rangstöðumörk sem andstæðingurinn hefur skorað gegn okkur) finnst mér löngu kominn tími til að þetta falli okkar megin. Ekki verra að það væri á móti Liverpool, sem kemur til með að virka sem aukaskammtur af bensíni á vælubílinn sem mun hafa í nógu að snúast næstu vikurnar.

Liverpool átti góða byrjun í leiknum en var lélegra liðið á heildina litið, enda er þetta slakasta lið Liverpool sem ég man eftir. Maður hefði tekið stigið fegins hendi þegar Everton var komið 0-2 undir en ég er mjög ósáttur, eftir að hafa jafnað og verið betri aðilinn í leiknum, að taka ekki öll þrjú stigin í leiknum. En, þetta eina stig var nóg til að taka fjórða sætið í deildinni aftur í bili, sem Everton missti tímabundið til Arsenal. Everton því með 6 stigum fleiri en Liverpool í deildinni.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Distin 7, Jagielka 6, Coleman 6, Mirallas 7, Osman 8, Fellaini 7, Naismith 6, Jelavic 6. Um það bil hálft lið Liverpool fékk 5 í einkunn fyrir leikinn, að nokkrum undanskildum: Skoppa og Skrýtla fengu 7 sem og Sterling og Gerrard, Allen með 8 og Suarez 9. Sky sagði jafnframt að Everton hefði verið tæplega 60% með boltann í leiknum og Territorial Advantage hafi verið rétt undir 60% einnig. Það má spyrja sig hvort liðið er að rembast við tika-taka fótboltann…

Mér fannst Mirallas og Naismith eiga sterka innkomu í leiknum og Baines var alltaf skeinuhættur. Osman og Fellaini voru mjög góðir sem og miðverðir okkar. Coleman komst ágætlega frá sínu en Jelavic fannst mér slakur í leiknum.

[Uppfært 28.10 til að lagfæra tóninn í greininni. Hann var helst til harður. Ég lét ekki nógu langt líða milli leiks og lét skapið og Suarez hlaupa með mig í gönur. Biðst afsökunar].

25 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Moyes sagði eftir leikinn að hann hefði verið ósáttur við að fara ekki í fyrri hálfleikinn með stöðuna 3-2 en að leikurinn hefði getað endað hvern á veginn sem er. Hann benti reyndar á, sem ég var búinn að gleyma, að Gerrard hefði fiskað aukaspyrnuna sem gaf þriðja mark Liverpool og því hefði í raun ekki átt að koma til þess marks, sem var svo dæmt af. Einnig sagði hann að þó mark Suarez hefði átt að standa hefði hann verið stálheppinn að fá að vera inn á vellinum eftir stórhættulega tæklingu hans á Distin. Hann sagði einnig að hann hefði ekki orðið pirraður á „fagni“ Suarez eftir fyrsta markið en benti réttilega á að Suarez þurfi líklega að fara kasta sér fyrir framan fleiri stjóra því Moyes er alls ekki sá eini sem hefur bent á þetta.
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/20116793

    Moyes bætti svo reyndar við að hann hefði gert sig tilbúinn til að gera það sama fyrir framan Suarez ef Everton hefði sett inn þriðja markið — eins og allar líkur stóðu til lengi vel. http://www.evertonfc.com/news/archive/2012/10/28/moyes-praises-recovery

  2. haffi skrifar:

    Finnst þér þú meiri maður eftir þessa mjög svo óþroskuðu umfjöllun þína á leiknum?eða ertu kanski bara 5 ára??

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hvað er RS að gera á Everton-síðu??? Sá því miður bara fyrri hálfleik en við hefðum átt að vera búnir að gera út um leikinn fyrir hlé að mínu mati.

  4. Teddi skrifar:

    Er nú bara sammála Haffa, svona uppnefningar eiga ekki heima hérna.

    Vinnum seinni leikinn!

  5. Halldór S Sig skrifar:

    Takk fyrir góðann pistil Finnur og come on Haffi þetta er everton,is og það er nú í lagi að skrifa aðeins frjálslega hérna. Það er nú ekki af ástæðu lausu sem menn eru pínu pirraðir eftir þennan leik þar sem Suarez hagar sér eins og hann sé 5 ára inni á vellinum, t.d. þetta gáfulega fagn sem honum datt allt í einu að framkvæma. Ég hef stundum pælt í því hvað er í gangi með Suarez. Drengurinn er með massa hæfileika sem fótboltamaður og gæti orðið einn sá besti. En hann virkar á mig eins og geðklofi eða eins og hann sé með svona púka og engil á öxlunum. Eins og þegar hann fór í Distin og svo líka þegar hann trampaði ofan á ristina á Mirallas, þegar hann nálgast mannin segir púkinn „settu takkana í manninn“ og svo á augnabliki kemur engillinn og segir „biddu manninn afsökunnar“. Ég held það að hann sé undir meiri pressu en hann þolir og er ekki að höndla sviðsljósið. Vonandi fyrir Liverpool og hann sjálfan, að þetta þroskist af honum fljótlega og hann fari að gera það sem hann gerir best. T.d. eins og með leikinn í dag, þá átti hann í rauninni stórleik í dag og var endalaust ógnandi, en þessi nokkru heymskulegu augnablik finnst mér skyggja algerlega á hans frammistöðu. Ég hef mikkla ánægju af því að horfa góða og heiðarlega fótboltamenn, meira að segja þó þeir spili með Liverpool. T.d. hefur Gerard alltaf verið einn af mínum uppáhalds í ensku deildinni og ég stóð upp fyrir honum þegar hann afgreiddi Everton á síðasta tímabili þar sem hann átti stórleik og var vel af því kominn 🙂

  6. Finnur skrifar:

    Nei, þetta er rétt hjá Tedda. Ég hefði mátt bíða með þessa leikskýrslu þangað til ég hefði náð að slaka betur á. Tónninn fór yfir strikið og var ekki Everton blogginu sæmandi. Ég er því búinn að lagfæra greinina (vonandi allt saman). Blóðþrýstingurinn aðeins of hár fyrir þessa leiki. 🙂

  7. Haraldur Anton skrifar:

    Ég var því miður að vinna í dag, en fékk þó leikinn beint í æð, þar sem ég er með nokkra grjótharða rauða samstarfsemenn. Leit ekki vel út í stöðunni 0-2 en þó náði ég að refresa úr stöðunni 0-2 – 1-2 – 2-2 og sáu þeir rauðklæddu í vinnunni að ég var ánægður.

    Varðandi comment hér þá held ég að Liverpool menn hafi verið að commenta í hita leiksins þar sem höfundurinn er ekki eins og 5 ára. Með gáfaðari mönnum sem ég hef kynnst, það eina sem ég sé við hann er úthaldið í fótbolta æfingar, þó svo ég viti að það sé í mikilli framför 🙂 Kannski væri það spurning að taka Íslenskan Everton vs Liverpool hehe.

    En hlakka mikið til útileiksins þar sem hann er úrslitaleikur Liverpool borgar.

  8. Finnur skrifar:

    Ég fór aðeins yfir um í greininni og tók þetta komment um barnaskap til greina (og uppfærði greinina til að minnka reiðina gagnvart Suarez). Mér finnst Everton menn betri en svo að uppnefna andstæðinginn og ég hef reynt að komast hjá því en geðshræringin fór svolítið með mig í undirbúningnum og í kjölfarið eftir leikinn. Reyni að láta það ekki gerast aftur.

  9. Halli skrifar:

    Haffi ég ætla að benda þér á að pennarnir á kop.is svo sem Ssteinn, Babú og fleiri eru ekki orðfegurstu menn sem maður les þegar kemur að umfjöllun um Everton og reyndar fleiri lið þannig að byrjið þið á að taka til í bakgarðinum heima hjá ykkur áður en þið fara að drulla út annarsstaðar kv Halli

    • haffi skrifar:

      drulla út? ertu á heróíni?var bara að benda pennanum á að vera aðeins málefnalegi,bara gott fyrir síðuna þar sem miklu fleir en everton menn lesa þessa síðu.kop.is les ég ekki nákvæmlega út af svona barnaskap í skrifum.

  10. Halli skrifar:

    Ég sá ekki leikinn en eitt er gott við erum komnir með einu stgi meira á þessari leiktíð heldur en í fyrra á móti þeim. Er rétt að 7 þeirra hafi tekið Mirallas út úr leiknum og svo reynt ad taka Distin og sloppið með þetta

  11. Finnur skrifar:

    Ég taldi nú ekki brotin á Mirallas en hann var tekinn fyrir nokkrum sinnum þangað til hann fór út af meiddur. Þeir voru greinilega mjög smeykir við hann enda snerist hann utan um varnarmenn Liverpool svo þeir enduðu á röngunni oft á tíðum. Atvikið þegar Distin var tæklaður náðist á mynd og var endursýnt. Algjör viðbjóður og ótrúlegt að Suarez hafi sloppið með gult spjald.

  12. Fannst Mirallas vera mjög góður og ótrúlegt hvað þeir Rauðu komust upp með að brjóta oft ílla og komust upp með það. Dómarinn var versti maðurinn á vellinum!

  13. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Uppnefnin voru kannski of mikið, en það er nóg fyrir mig að heyra minnst á Sewerass til að það fari gjörsamlega að sjóða á mér. Þannig að ég get alveg skilið þetta. Skoppa og Skrýtla fannst mér sérlega fyndið, geri ráð fyrir að það eigi að vera Skrtl og Agger.

  14. Finnur skrifar:

    > Uppnefnin voru kannski of mikið

    Bara svo það sé á hreinu þá var bara um að ræða eitt uppnefni. Ég kallaði Suarez ógeð en tók það svo til baka og baðst afsökunar.

    Ég er með mjög sterka réttlætiskennd og leikmenn sem reyna ítrekað að svindla með því t.d. að kasta sér í jörðina við minnstu snertingu misbjóða þeirri réttlætiskennd minni. Suarez er þar allra fremstur í flokki á Englandi og mér finnst með ólíkindum að leikmenn og þjálfari Liverpool láti þetta viðgangast (hvar er Gerrard — sem á að vera leiðtoginn?) og að stuðningsmenn Liverpool verji hann. Suarez er góður fótboltamaður og stórhættulegur framherji en er félagi sínu til háborinnar skammar þegar hann lætur svona.

    Ég verð reyndar að hrósa honum líka fyrir síðasta leik því hann stóð í lappirnar allan leikinn — ótrúlegt en satt, eftir því sem ég best sé, þannig að kannski hann hafi loksins verið tekinn til hliðar og sagt að þetta líðist ekki lengur. En þá náttúrulega tekur hann upp á því í staðinn að reyna að fótbrjóta Distin.

    > Skoppa og Skrýtla fannst mér sérlega fyndið, geri ráð fyrir
    > að það eigi að vera Skrtl og Agger.

    Jú, það munu vera Agger og Skrtl, mikið rétt. 🙂

  15. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gerrard er, og hefur aldrei verið neitt skárri en Suarez. Gaman að kíkja inn á kop.is og lesa commentin þar, og já þar í leikskýrslu er talað um „helvítið hann Fellaini“. En þar er endalaust vælt um ranglæti,einelti og að öll vafaatriði falli á móti Liverpoo. Það getur vel verið að það sé eitthvað til í því, en ég held að í gegnum tíðina hafi poolarar ekkert þurft að kvarta yfir dómgæslu sérstaklega ekki í leikjum gegn Everton. Man ekki betur en þeir hafi verið eina liðið í deildinni þar sem varnarmenn máttu líka verja með höndum (Henchoz).

  16. Einar G skrifar:

    Þetta var hörkuleikur og ég hef ekki skemmt mér svona vel yfir leik í langan tíma. Það er náttúrulega ekki hægt að tala um sanngirni í fótbolta, en miðað við hvernig leikurinn spilaðist og dómarinn tók nokkrar stórar rangar ákvarðanir þá var þetta nokkuð „sanngjarnt“ Það er hægt að segja svo mörg EF í fótbolta. En það sem stakk mig mest í leiknum var að það var eins og það væri fyrirskipun á leikmenn Liverpool að fara fast inn í Miralas og eins Distin, það voru nokkur mjög ljót brot á þeim og þegar að Suarez sparkaði Miralas niður undir lok fyrri hálfleiks var það klárlega spjald. Dómarinn ekki góður nema að einu leiti hann leyfði leiknum að fljóta nokkuð vel. Þetta var ágætt og gaman að vera með svona mörgum á Ölver. Sjáumst fljótt 🙂

  17. Elvar Örn skrifar:

    Magnaður leikur strákar og í heild var Everton betra liðið. Held þegar uppi er staðið sé þó jafntefli sanngjarnt.
    Gerrard átti nú aldrei að fá þessa aukaspyrnu né Suarez að vera inná vellinum.
    Ég hélt fyrst að markið hefði verið dæmt af vegna brots þar sem Liverpoolmaður lyftir sér á axlir Everton manns þegar sent er á Suarez en þá er bara flagg í gangi, snilld.

    Gerrard er nú „dettinn“ svo maður fari nú pent í hlutina og Suarez er með svona óþokkagen. Samt var dýfan hjá honum fyrir framan Moyse fyndin, verð bara að segja það.
    Mirallas var algerlega magnaður í þessum leik og spurning hvort hann sé betri á vinstri kanti en þeim hægri.

    Ég var óvægur í umfjöllun minni yfir frammistöðu Everton gegn Leeds þar sem ég tók svo til orða að tveir leikmenn væru viðbjóður við litlar vinsældir hjá Finni svo það var gaman að sjá hann ganga hér enn lengra, hehe. Eigum nú eftir að fara yfir þetta betur í Apríl.

    Þrír jafnteflisleikir í röð er ekki alveg nógu gott en 5 sætið sleppur. Nú er bara að vinna næstu leiki og tryggja stöðuna í topp 4 eða topp 5.

    Hvað voruð þið margir á Ölveri?

  18. Finnur skrifar:

    > Samt var dýfan hjá honum fyrir framan Moyse fyndin,
    > verð bara að segja það.

    Já, ætli ég verði ekki að viðurkenna það líka. Það má hafa gaman að þessu. Meira að segja Moyes sagði að honum hefði fundið það sniðugt uppátæki. 🙂

    > Mirallas var algerlega magnaður í þessum leik og
    > spurning hvort hann sé betri á vinstri kanti en þeim hægri.

    Hvað, ætlarðu að setja Pienaar á hægri? 😉

    > þar sem ég tók svo til orða að tveir leikmenn væru
    > viðbjóður við litlar vinsældir hjá Finni svo það var
    > gaman að sjá hann ganga hér enn lengra, hehe

    Já, ég missti mig svolítið í hita leiksins og baðst afsökunar og dró þetta til baka í gær (eins og sjá má hér að ofan). Hefði kannski mátt draga meira úr tóninum, ef eitthvað er.

    Ég eyddi bara of miklum tíma að lesa kop.is undanfarna daga þannig að ég var orðinn samdauna og farinn að apa full mikið eftir tóninum í þeim. Hefði mátt vita betur. Ætla að að taka mig á.

    > Hvað voruð þið margir á Ölveri?

    Það var bara fín mæting. Við vorum í salnum fyrir framan aðalbarinn og vorum um 10-12 úr kjarnanum á fremsta bekk (þessi hefðbundnu). Svo var nokkuð af fólki fyrir aftan okkur (skýt á það hafi verið samtals 30 manns í salnum) sem voru að fylgjast með en ég horfði lítið aftur í sal til að sjá hverja þau voru að styðja. Þeir voru annaðhvort Everton aðdáendur eða hlutlausir, því Liverpool fólkið var í hinum stóra salnum á Ölveri.

  19. Finnur skrifar:

    Takk fyrir þetta Elvar. Athyglisvert að sjá að þetta á Liverpool bloggi. Mér finnst mikilvægasti punkturinn í þessari grein ekki snúa að Suarez og rauða spjaldinu sem hann hefði vissulega átt að fá heldur punkturinn um victim complex, sem ég hefði viljað sjá Rodgers taka á. Og áður en einhver sleppir því að lesa greinina og ásakar mig um að vera að vísa í einhverjar Hillsborough hörmungar, þá tek ég það fram að ég á alls ekki við það heldur gagnvart dómurum.

  20. Finnur skrifar:

    Þeir hjá Executioner’s Bong eru búnir að gefa út greiningu sína á leiknum. Alltaf athyglisverð lesning:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2012/10/29/5-point-tactical-deconstruction-everton-2-2-liverpool/

  21. haffi skrifar:

    vill bara taka það fram hér að ritstjóri þessarar síðu sýnir þó meiri þroska en margir liverpool og þá sérstakalega manutd pennar og sér af sér eftir einhver reiðiskrif,alltaf gaman að lesa málefnalegar íslenskar stuðningsmanna síður þó þær séu ansi fáar í dag sem eru lausar við sandkassaleik.

  22. Finnur skrifar:

    Takk fyrir það, Haffi.