QPR – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti QPR á útivelli í dag og maður var, eins og fram hefur komið, hálf smeykur við þá því það hlýtur að koma að sigurleik hjá þeim. Þetta QPR lið er alls ekki lélegt og getur spilað flottan fótbolta þegar vel liggur á þeim. Af þessum leik að dæma myndi maður halda að þeir ættu að geta að haldið sér uppi, þó þeir hafi ekki náð að vinna Everton í þessum leik, manni fleiri.

Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Jagielka og Coleman. Pienaar á vinstri kanti, Anichebe á hægri, Osman og Neville á miðjunni. Mirallas fékk nokkuð frjálst hlutverk fyrir aftan Jelavic sem var frammi. Mirallas byrjaði reyndar vinstra megin með Pienaar meira á miðjunni en þeir skiptu síðar. Enginn Fellaini eða Gibson, sem maður var að vonast til að sjá (sérstaklega Gibson) að fengju nokkrar mínútur og nýi maðurinn Hitzelsperger fékk ekki að koma inn á, enda bauð framgangur leiksins ekki upp á það.

Þeir fengu óskabyrjun þegar Everton var í ágætri sókn strax á 2. mínútu en Phil Neville tapaði einvígi við Junior Hoilett sem brunar í átt að marki Everton, hleypur upp nánast allan völlinn með einn samherja sér við hlið og þrjá varnarmenn Everton reiðubúna. Hann ákveður að fara sjálfur að marki og taka skotið langt utan við teig. Howard átti þann bolta alltaf þangað til boltinn fór, því miður, í fæturna á Baines, breytti um stefnu og skoppaði upp á við og endaði í netinu því Howard var á leið í hitt hornið (þangað sem boltinn stefndi upphaflega). Fjórði leikurinn í röð þar sem Everton fær á sig suckerpunch mark á fyrstu 10 mínútunum. Frekar þreytandi að byrja alltaf leikina á að lenda undir gegn gangi leiksins.

Það fór um mann í kjölfarið því QPR efldust við markið og héldu að þeirra tími væri loksins kominn, sérstaklega þegar Howard hrasaði í blautu grasinu þegar QPR sóknarmaður nálgaðist og Howard rétt náði að ná jafnvægi og hreinsa, en ekki lengra en beint á annan QPR mann sem náði boltanum og eftir smá samspil var komin stórhættuleg fyrirgjöf fyrir markið sem enginn QPR maður náði að nýta sér. Sama með skalla sem þeir fengu upp úr aukaspyrnu sem endaði rétt utan markrammans hjá Everton.

En Everton er ekki lið sem gefst upp við mótlæti, það hefur margoft sýnt sig. Á 33. mínútu fékk Everton aukaspyrnu langt utan við teig hægra megin, Pienaar sendi boltann inn í teig þar sem Distin stökk upp óvaldaður og stangaði boltann í stöngina innanverða, í bakið á markverðinum og inn. Sjálfsmark, þó Distin og Pienaar eigi allan heiðurinn af því marki.

Stuttu síðar komst Everton í skyndisókn, Mirallas með boltann og gaf stungusendingu á Jelavic sem tekur við boltanum inni í teig, stoppar en QPR leikmaðurinn á ferðinni stígur á ristina á honum þannig að Jelavic dettur við en ekkert víti dæmt og QPR bjarga í horn. Sjálfstraust QPR var nánast horfið hér og Everton náði nokkrum hættulegum færum.

Jagielka, til dæmis, ætlaði sér ekki að vera minni maður en Distin og upp úr horni var hann næstum því búinn að skora þegar hann átti skalla í slána og út aftur. Hér hélt maður að þetta væri að snúast okkar mönnum í vil en staðan þó 1-1 í hálfleik.

Á 61. mínútu tók dómarinn (Jon Moss) málin í sínar hendur þegar hann veitti Pienaar sitt annað gula spjald og þar með rauða fyrir ja… nákvæmlega ekki neitt. Pienaar verðskuldaði fyrsta gula spjaldið sitt, það verður ekki tekið af honum, en það seinna fékk hann fyrir það eitt að hlaupa fyrir aftan sóknarmann QPR og láta sparka í sig. Ég veit ekki hvernig á að lýsa þessu öðruvísi og verð eiginlega meira og meira hissa eftir því sem ég horfi á upptökuna oftar. Mér finnst algjörlega óþarfi að gefa gult spjald fyrir þetta, sérstaklega sem annað gult spjald. Þetta er algjörlega óviljandi og í raun voða lítið sem Pienaar getur gert til að koma í veg fyrir þetta. Moyes var mjög ósáttur við seinna spjaldið, skiljanlega, og til dæmis BBC og Sky Sports sagði að þetta væri mjög umdeilanlegt (svo maður verði ekki ásakaður um að horfa á atvikið með eigin-liðs-gleraugu, eins og Liverpool stuðningsmenn eru oft sakaðir um).

Þetta er sami dómari og sleppti augljósri vítaspyrnu þegar Jelavic var sparkaður niður gegn West Brom innan teigs en það þýðir víst ekki að deila við dómarann. Sagt er að þetta jafnist út og maður lifandi hvað Liverpool hlýtur því að fá að kenna á því í næsta leik. Pienaar, hins vegar missir líklega af þeim leik, ef ég skil reglurnar rétt. Ætli hægt sé að áfrýja spjaldinu?

Maður var orðinn vongóður að þar sem Everton náði að jafna að okkar menn myndu nú klára þetta en nú fór þetta að snúast um að halda stigi á útivelli manni færri. QPR menn efldust nokkuð við þetta og héldu (aftur) að hér væri loksins komið tækifæri á að vinna sinn fyrsta sigurleik en því má ekki gleyma að þetta er Everton lið sem hefur aðeins tapað tveimur deildarleikjum síðan í mars (!) þannig að það var á brattann að sækja, þó Everton væri manni færri.

Jagielka átti tvo sénsa af stuttu færi en QPR náði að bjarga. En QPR átti einnig sénsa og Howard þurfti að taka á honum stóra sínu til að bjarga. QPR hefði einnig getað fengið víti þegar Coleman felldi leikmann QPR en dómarinn dæmdi ekkert, frekar en þegar brotið var á Jelavic. Kannski var réttlætinu fullnægt þegar kemur að vítaspyrnum í þessum leik (ekki hvað spjöldin varðar).

Síðustu 20 mínúturnar dró svolítið af okkar mönnum sem náðu þó að halda út og taka stigið, sem er ágætt þar sem Everton liðið var ekki að spila neitt svakalega vel á köflum. Eftir á að hyggja, eftir það sem á undan var gengið, er maður ekkert svakalega ósáttur við stig á útivelli en hefði viljað þrjú stig úr þessum leik. Allavega eitt stig og sleppa þessu kjánalega rauðu spjaldi á Pienaar.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Distin 8, Jagielka 8, Coleman 6, Pienaar 6, Osman 6, Neville 7, Anichebe 6, Mirallas 7, Jelavic 6. Varamenn: Heitinga 5, Naismith 6. Hjá QPR voru menn með sexur og sjöur nema Hoilett sem fékk 8.

Liverpool á sunnudaginn næsta. Skyldusigur.

9 Athugasemdir

  1. Teddi skrifar:

    Jafntefli kannski sanngjörn úrslit eeeeeeeeeeeen, glatað að svona flautuleikari skuli getað eyðilagt fallegan sunnudag fyrir manni !

    Það hlýtur að verða xmas-veisla eftir tvo mánuði þegar andstæðingar okkar fá allar stóru ákvarðaninar dæmdar sér í óhag….
    Ekki læt ég mig dreyma um að seinna gula á SP verði fellt niður, til þess þarf hann að fá enskan ríkisborgararétt á morgun. 😀

  2. Elvar Örn skrifar:

    Seinna gula var bull en þegar Pienaar fékk aðvörun skömmu áður átti Moyse að skipta honum útaf ASAP. Erfið vallarskilyrði í dag dómarinn var alltaf að trufla leikinn, jeminn hvað það var pirrandi.
    Þá er bara að tap ekki gegn Liverpool og vona að Fellaini og/eða Gibson verði klárir, þá vantaði sárlega í dag fannst mér.

  3. Halldór S Sig skrifar:

    Það var frekar lítið um skapandi miðjumenn í dag, já og þegar Fellaini og Gipson eru ekki, þá vantar of mikið í liðið. P.Neville var mistækur og lítið að hjálpa sóknarlega, Osman var samt ágætur en ekkert meira en það og Pienaar hefur átt betri leiki. Við vorum líka heppnir að fá ekki á okkur víti þegar Coleman braut af sér, en á móti hefði verið hægt að dæma víti þegar það var stigið ofan á ristina á Jelavic og hann datt. En Jagielka var svakalega nálægt því að skora tvisvar, hefði verið frábært ef hann hefði skorað og unnið leikinn fyrir okkur.

  4. Finnur skrifar:

    Það voru skiptar skoðanir á Ölveri um hvort ætti að skipta Pienaar út af. Ég var á þeirri skoðun að hann væri svo mikilvægur að hann gæti haldið áfram ef hann bara róaði sig aðeins (hann er jú enginn Balotelli) en þetta endaði illa. Moyes hefði líklega átt að skipta honum út af en það er auðvelt að vera vitur eftir á. Hundfúll út í dómarann… :/

  5. Elvar Örn skrifar:

    Með hliðsjón af vallaraðstæðum og það að 30 mín voru eftir þá fannst mér ekki spurning að taka hann útaf enda var hann ekki heldur að spila vel. En svo fór sem fór og vinnum bara næsta leik.

  6. Halli skrifar:

    Það er eitthvað í uppstillingu liðsins sem truflar mig þegar ég sá leikmannalistann hélt ég að kallinn ætlaði í 442 kerfi en hvað gerir hann heldur 451 tekur Anichebe út á hægri er ekki kantari að mínu mati Mirallas á vinstri og pienaar í holuna og eyðileggur besta vinstra kantcombóið í evrópu gott og vel Osmann Neville virkar ekki sem miðju par í EPL það þarf meiri gæði í sendingar og hraða til að það virki. En þrátt fyrir ákveðin meiðsli í liðinu þá er Everton liðið nógu sterkt til að fara til London og vinna QPR og það vantaði ekki mikið uppá. Maður leiksins Jagielka átti tvö bestu færin okkar fyrir utan markið og varðist rosalega næstur Distin.

  7. Halli skrifar:

    Pienaar verður í banni á móti rs það er ekki hægt að áfrýja þegar um er að ræða 2 gul spjöld

  8. Ari skrifar:

    Ég er algerlega sammála Elvari þá átti að taka Pienaar útaf strax eftir aðvörunina… sem kom rétt áður en að seinna spjaldið (sem var ekki spjald) kom. Það voru pínu mistök (vitur eftirá) hjá Moyes að gera það ekki. Mér fannst eiginlega Pienaar hafa veriðað biðja um að vera rekinn útaf og hann var ekki með hugan við leikinn heldur eitthvað allt annað. Spurning hvort að málið með bolina fyrir leikinn hafi truflað hann eitthvað? En frábær þegar hann tekur sig til, „we need you Pienaar“

    Í sambandi við leikinn þá var náttúrulega Jagielka frábær en Osman var að mínu mati sá leikmaður sem að sá um að við áttum séns alveg þó að vera manni færri í nokkrar mínútur.

    Osman í landsliðið…!!!

  9. Georg skrifar:

    Ég er sammála þér Ari, mér finnst Osman hafa vaxið gríðarlega í þessari stöðu á miðjunni og ótrúlegt hvað kallinn er búinn að bæta sig varnalega og er miklu meiri töggur í honum. Hann var margoft að hirða boltann af QPR leikmönnum og snúa vörn í sókn og hann er fínn í að dreifa spilinu áfram.

    Þó finnst mér Neville hreinlega ekki vera með getuna í að vera í þessari miðju stöðu og fyrir mér finnst mér hann eiga að vera á bekknum og gera Jagielka að fyrirliða. Frammistaða Neville í haust hefur ekki verið á sama caliber og hjá öðrum í liðinu. Hann er svo klárlega kominn yfir sitt besta en hefur reynst okkur mjög vel síðan hann kom. Reyndar hafa meiðsli Gibson opnað þennan möguleika fyrir Neville, en ég hefði t.d. frekar vilja sjá Barkley eða jafnvel prufað Heitinga þarna, Heitinga var frábær í holunni fyrir framan vörnina á sínu fyrsta tímabili fyrir Everton eftir að Fellaini meiddist og held ég að Moyes sé hreinlega búinn að gleyma því að hann notaði hann fyrsta sem DM.

    Einnig hefði verið skynsamlegt að taka Pienaar út af um leið og hann fé „lokaviðvörun“ frá dómaranum, þar sem rúmar 30 mín voru eftir af leiknum. Þetta var samt alveg ótrúlleg óheppni að hann fór út af því að Bosingwa sveiflaði löppinni afturábak til að senda fyrir og sparkar í Pienaar en úr fjarlægð var eins og Pienaar hefði brotið af sér en sást mjög greinileg að svo var ekki í endursýningu. Vont að ná bara 2 stigum af Wigan og QPR, hefði kosið að fá allavega 4. Þessi úrslit verða gleymd og garfin ef við vinnum næsta leik.

    Var btw. að lesa að Hibbert, Fellaini og Gibson væru byrjaðir að æfa og ættu allir að vera mjög líklega klárir fyrir Liverpool leikinn, þó er spurning með leikæfingu, þá sérstaklega hjá Gibson. Hibbert spilaði 90 mín með U-21 liðinu sem er flott og Fellaini hefur ekki verið lengi frá og ætti að geta spilað stóran part leiks, en þó líklega ekki klár í 90 mín.