Sitt lítið af hverju

Mynd: Everton FC.

U19 ára lið Englands er að gera það gott með Everton ungliðana Barkley, Garbutt, Lundstram og Hope innanborðs en þeir sigruðu Frakkland 2-1 í síðasta leiknum í riðlakeppninni en okkar maður Lundstram skoraði fyrsta markið í leiknum. Sigurinn þýðir að England vinnur riðilinn með 7 stig og mætir Grikklandi (U19) í 4ra liða úrslitum á fimmtudaginn. Frakkarnir, sem enduðu í öðru sæti, mæta því Spánverjum um sæti í úrslitunum.

Ungliðinn Joao Da Silva var seldur á dögunum til búlgarska liðsins Levski Sofia eftir tveggja ára veru með Everton. Joao hefur leikið með varaliðinu en fékk aldrei tækifæri með aðalliði Everton og hefur undanfarið verið að láni hjá Uniao Desportiva de Leiria og Vitoria FC. Söluverðið var ekki gefið upp.

Nokkuð hefur verið rætt um það að félagaskipti Steven Naismith hafi ekki enn verið samþykkt af skoska knattspyrnusambandinu, sem var eiginlega viðbúið þar sem gamla og nýja Rangers lögðust gegn félagaskiptunum. Forsvarsmenn Everton eru þó fullvissir um að félagaskiptin munu ganga í gegn þar sem fordæmi eru fyrir því að leikmenn segi upp samningi sínum þegar lið verða gjaldþrota.

Það er minna en mánuður í að Tony Hibbert fái Testimonial leikinn sinn fyrir 10 ára dygga þjónustu hjá félaginu en leikurinn er þann 8. ágúst gegn AEK (sjá viðtal). Persónulega ætla ég ekki að missa af þeim leik (og ætla að reyna að ná allavega flestum leikjunum á undirbúningstímabilinu) — en það verður spennandi sjá hvort Hibbo skori í leiknum og ekki síður hvaða „fagn“ verður fyrir valinu! 😉

Í öðrum fréttum er það helst að nýi heimabúningur Everton verður kynntur á fimmtudaginn, 12. júlí og Gueye ætlar að taka þátt í Ólympíuleikunum sem leikmaður Senegal en hann gat valið milli Frakklands og Senegal og valdi lið foreldra sinna en þeir fæddust í Senegal.

Í slúðurdeildinni er mikið rætt um framherjann Hugo Rodallega sem er með lausan samning hjá Wigan. Þeir hjá Executioner’s Bong tóku saman smá pistil um hann, fyrir þá sem hafa áhuga.

Comments are closed.