Viðtal við Moyes

Mynd: Everton FC.

Rakst á þetta ágætis viðtal við David Moyes á netinu. Þetta er um 30 mínútur að lengd en í fyrri hlutanum (fyrstu 13 mínúturnar) spjalla Moyes og félagar að mestu um Evrópumeistaramótið sem fram fer núna. Þeir sem hafa meiri áhuga á því sem Moyes hefur að segja um Everton geta hraðspólað yfir 12 mínútur og 55 sekúndur en þá ræðir David Moyes ensku deildina, með áherslu á Everton.

Í öðrum fréttum er það helst að klúbburinn staðfesti vináttuleik 11. ágúst (viku fyrir upphaf næsta tímabils). Leikið verður við lið Malaga á Spáni, en þeir enduðu í fjórða sæti spænsku deildarinnar á nýyfirstöðnu tímabili, á eftir Real Madrid, Barcelona og Valencia.

En þá að Evrópukeppnum. Jagielka og Baines voru, eins og kunnugt er, á bekknum í síðasta leik Englands í Evrópukeppninni gegn Úkraínu en fá vonandi tækifæri þegar England mætir Ítalíu á sunnudag. Leikurinn hefst kl. 18:45.

Einnig hafa fjórir Everton ungliðar verið kallaðir til liðs við U19 ára lið Englands sem tekur þátt í Evrópumeistaramóti U19 liða í júlí. Það eru þeir Luke Garbutt (vörn), Ross Barkley (miðju), John Lundstram (miðju) og Hallam Hope (sókn).

Comments are closed.