QPR – Everton 1-1

Uppstillingin gegn QPR var svipuð og búist var við — að því gefnu að Moyes mat Osman og Rodwell ekki nógu góða til að byrja leikinn og því byrjaði Neville á miðjunni fyrir Gibson, sem er meiddur á hné eins og kunnugt er. Uppstillingin var því 4-2-3-1: Howard, Baines, Heitinga, Distin og Hibbert í vörninni. Á miðjunni voru þeir Neville og Fellaini. Pienaar á vinstri kanti, Drenthe á þeim hægri og Cahill fyrir aftan Stracqualursi frammi. Á bekknum: Mucha, Jagielka, Jelavic, Gueye, Barkley, Osman og Coleman en það var gaman að sjá Jagielka og Osman á bekknum eftir meiðsli en hléið um síðustu helgi létti nokkuð á meiðslalistanum hjá okkur.

Fyrri hálfleikur var fjörugur og skemmtilegur en liðin skiptust á að hafa yfirhöndina og skapa sér færi; við þó heldur meira með boltann. Við áttum auk þess besta færið í upphafi þar sem QPR voru stálheppnir að fá ekki á sig mark þegar boltinn barst til Cahill sem átti flott skot á 4. mínútu innan teigs QPR en boltinn fór í slána og út aftur. QPR efldust við þetta og átti miðvörðurinn þeirra, Clint Hill, tvö tækifæri í röð, skot framhjá og síðar skalla en hvorugt hitti markið. Stuttu síðar átti Heitinga að skora þegar hann fékk boltann við fjærstöng QPR vinstra megin hann náði ekki að átta sig nógu fljótt og boltinn fór eiginlega bara í hann og markvörðurinn varði vel og þar með varð ekkert úr því. QPR fékk síðar færi úr aukaspyrnu rétt utan við teiglínuna (við D-ið á vítateignum) en skot Bzeki úr aukaspyrnunni var vel varið af Howard.

Á 31stu mínútu vann Fellaini boltann vel á miðjunni af Taarabt, sendi á Pienaar sem geystist upp völlinn og setti boltann til Drenthe sem átti skot að marki, langt utan við teig, og boltinn söng í netinu. 0-1 fyrir Everton. Drenthe hafði upp að því átt eitt eða tvö skot að marki, en annað var of langt frá marki til að valda markverðinum vandamálum og hitt rataði ekki á markið. Í þetta skiptið, hins vegar, gerði hann engin mistök og skoraði sitt annað mark í tveimur leikjum og fjórða markið sitt á tímabilinu.

Stuttu síðar fengu QPR aukaspyrnu sem lenti í veggnum hjá Everton og breytti um stefnu og fór hárfínt framhjá markinu. Hurðin skall fullnærri hælnum þar. Og forskotið entist ekki lengi því fimm mínútum síðar lét Neville sóla sig upp við hornfána okkar vinstra megin og aðeins Drenthe kom í veg fyrir að leikmaður QPR geystist upp að marki (einn á móti markverði) með því að fella leikmann QPR (utan við teig) og gefa þar með aukaspyrnu og fá á sig gult spjald í leiðinni. [leiðrétting 5.3.2012: Myndir af þessu atviki eftir leikinn sýndu að Hibbert var tilbúinn í vörninni þannig að bæði aukaspyrnan og spjaldið var sennilega óþarfi hjá Drenthe]. Úr aukaspyrnunni kom svo jöfnunarmark QPR en þeir sendu fyrir og Bobby Zamora átti fínt skallamark sem fór í Howard og inn. Staðan 1-1 og aðeins 9 mínútur til loka fyrri hálfleiks.

QPR hefði svo getað komist yfir fyrir lok fyrri hálfleiks en þeir áttu skot utarlega í teignum sem lenti í stönginni innanverðri og skoppaði fyrir framan markið og stuttu síðar (í sömu sókn) átti Buzsaky skot í stöng fyrir opnu mark — í raun kómískt að boltinn skyldi rata í stöngina en ekki í opið markið og leit út á þeim tímapunkti eins og QPR væri ætlað að tapa leiknum — eða allavega ekki vinna leikinn. Enn kómískara var þó þegar íkorni gerði sig heimakominn á vellinum.

Leikurinn datt töluvert niður í seinni hálfleik og Moyes skipti Osman og Jelavic inn á fyrir Drenthe og Cahill og skipti yfir í 4-4-2. Þetta virtist breyta leiknum strax því Jelavic tók sig til eftir að hafa verið inn á í minna en mínútu og afgreiddi boltann snyrtilega í netið hjá QPR, en dómarinn því miður búinn að flauta vegna rangstöðu.

Það er þó eiginlega lítið um seinni hálfleikinn að segja, því hann var mun bragðdaufri en sá fyrri og minna um spennandi atvik. Coleman kom inn á fyrir Stracqualursi (aftur komnir í 4-2-3-1) rétt undir lok leiks en það hafði ekki mikið að segja. QPR léku betur þó við værum enn töluvert með boltann en við náðum ekki að skapa okkur almennileg færi fyrr en rétt undir lokin þegar leit út fyrir að við værum að fara að stela sigrinum. Það varð þó ekkert úr því og leikar enduðu 1-1. Ekki ósanngjant svo sem þó maður hélt eftir fyrri hálfleikinn að við myndum hafa þetta en eftir markið okkar voru QPR menn hungraðari og áttu stigið skilið.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Heitinga 6, Distin 6, Hibbert 7, Pienaar 6, Fellaini 6, Neville 5, Drenthe 7, Cahill 6, Stracqualursi 4. Varamenn: Coleman 6, Osman 6, Jelavic 6. Svipaðar einkunnir og QPR, mest sexur og sjöur en Zamora og Traore fengu 8.

Comments are closed.