Everton vs. Chelsea

Næsti leikur er við Chelsea heima í deildinni á morgun (lau) kl. 15:00. Þetta verður 7. leikurinn sem við spilum við þá á síðustu tveimur tímabilum, en að leik loknum höfum við leikið gegn þeim fjórum sinnum í deild, tvisvar í FA bikar og einu sinni í deildarbikarnum. Í þessum síðustu sex leikjum höfum við unnið Chelsea tvisvar (deild og FA bikar), Chelsea unnið okkur tvisvar (deild og deildarbikar) og tvisvar gert jafntefli (FA og í deildinni). Í deildinni á Goodison höfum við unnið síðustu tvo leiki við Chelsea og gert tvö jafntefli (síðasta tap í deildinni heima fyrir Chelsea var í apríl 2008). Við þurfum þó að hefna fyrir tapið í deildarbikarnum heima fyrr á tímabilinu þegar við misstum Drenthe út af með rautt.

Villa-Boas er nýlega búinn að segja að Chelsea séu búnir að gefa meistaratitilinn í ensku deildinni upp á bátinn en þeir hafa ekki unnið í deildinni í síðustu fjórum leikjum, gert jafntefli við Swansea og Norwich í deildinni og misst þriggja marka forskot gegn Man United niður í jafntefli. Chelsea er mikið í mun að vinna leikinn enda eru þeir með Newcastle á hælunum á sér (einu stigi neðar) en þeir hafa saxað vel á forskot Chelsea með fjórum sigrum í fimm leikjum.

Það ríkir bjartsýni í herbúðum okkar enda Everton menn nýlega búnir að leggja Man City í deildinni, kominn liðsauki á völlinn, stemming á pallana og við taplausir í fimm leikjum í röð (þó nokkuð hafi verið um jafntefli). Ef við hefðum ekki fengið á okkur hið undarlegasta slysamark gegn Wigan í síðustu umferð værum við komnir með þrjá sigurleiki í röð. Það er svo bara til að bæta stemminguna enn frekar að eitthvað virðist vera að fækka á sjúkralistanum hjá okkur en Distin og Hibbert eru orðnir góðir, eins og fram hefur komið, og í fréttum var sagt að Rodwell og Coleman væru farnir að æfa á fullu aftur. Þá ættu bara Jagielka og Osman að vera frá, nema kannski Cahill sem var skipt út af í hálfleik í síðasta leik en á líklega möguleika á að spila. Drogba er frá vegna afríkukeppninnar hjá Chelsea og John Terry og Ramires eru meiddir, en Lampard og Obi Mikel líklega orðnir góðir af meiðslum sínum (og Ashley Cole kominn aftur úr banni). Obi Mikel lét reyndar hafa það eftir sér að ef Chelsea ætlaði sér að sigra Everton þyrftu þeir að "temja skrýmslið", eins og hann orðaði það og vísaði þar til Anichebes (sjá mynd). 🙂

Fastlega má gera ráð fyrir því að liðið verði svipað og í síðasta leik: Howard, Hibbo, Distin, Heitinga, Baines, Pienaar á vinstri væng, Fellaini og Gibson á miðjunni, Donovan á hægri væng, Anichebe frammi og Cahill í holunni fyrir aftan hann. Mér finnst líklegra að Anichebe fái að spreyta sig (þar sem hann er skyndilega orðinn markahæstur í liðinu ásamt Baines) en að króatíska leynivopnið (Jelavic) fái að byrja. Held hann komi inn á í seinni. Svo er spurning hvað gerist ef Cahill er meiddur: Donovan í holuna og Drenthe á kantinn? Gibson í holuna og Rodwell/Neville í hans stöðu? Þetta kemur allt saman í ljós með tíð og tíma.

Í öðrum fréttum er það helst að þrír af okkar mönnum, Barkley, Bidwell og Garbutt eru allir í U19 hóp Englands sem mætir Tékkum en aðeins Chelsea er með jafn marga leikmenn og Everton í hópnum.

Comments are closed.