Wigan – Everton 1-1

Aðstæður voru ekki eins og best var á kosið vegna hagléls og rigningu og völlurinn í slæmu ásigkomulagi. Uppstillingin fyrir Wigan leikinn kom lítillega á óvart en Distin kom aftur í miðvörðinn og Hibbert því færður á hægri kantinn fyrir Neville sem fór á bekkinn (Cahill fyrirliði). Mestu athygli vakti þó að Pienaar byrjaði inn á á vinstri væng í stað Drenthe/Gueye. Uppstillingin því: Howard, Baines, Heitinga, Distin, Hibbert, Pienaar, Fellaini, Gibson, Donovan, Cahill, Stracqualursi.

Eftir frammistöðu liðsins í síðustu tveimur leikjum var tilefni til bjartsýni enda höfðum við ekki tapað fjórum leikjum í röð, komist í 16 liða úrslit í FA bikarnum og lagt liðið í efsta sæti í deildinni. Leikurinn í gær gegn Wigan olli þó nokkrum vonbrigðum en, eins og síðast þegar við lékum gegn Wigan, þá virtumst við detta niður á lægra plan og ekki ná upp sömu stemmingu í liðinu og til dæmis á móti City. Þetta var líka þriðji leikurinn á átta dögum (og lakasti andstæðingurinn), sem hefur haft sitt að segja.

Fyrir vikið var fátt um færi og fyrri hálfleikur og eiginlega stór hluti af seinni voru hálf leiðinlegir, satt best að segja. Wigan átti í mestu erfiðleikum með að koma sér í færi, sendingar að misfarast hjá þeim, bæði út af vellinum eða á okkar menn. Við mun líklegri til að skora allan leikinn og hefðum átt að nýta okkur yfirburðina.

Eina markverða sem gerðist fyrsta korterið var þegar Stracqualursi átti fyrsta færi leiksins eftir fínt samspil gegnum miðju og vörn Wigan en skotið slakt og beint á markvörðinn. Á 20. mínútu náðu Wigan færi með því að kýla boltann fram á framherja sinn, sem tók við boltanum í vítateginum, komst frá Distin, lagði boltann fyrir sig og átti skot sem fór í jörðina og Howard varði vel. Þetta reyndist eina skot Wigan sem rataði á markið í öllum leiknum. Besta færi leiksins kom svo á 40. mínútu þegar Baines stal boltanum af varnarmanni Wigan, brunaði upp kantinn upp að endalínu og gaf boltann glæsilega til baka á Gibson sem kom askvaðandi inn í teiginn en skot hans yfir. Hefði svipað til marksins á móti City ef hann hefði skorað.

Neville kom inn á fyrir Cahill í seinni hálfleik og hann átti aldeilis eftir að setja mark sitt á leikinn. Leikurinn hélt þó áfram á hægaganginum og lítið um færi. Á 60. mínútu kom Jelavic inn á fyrir Stracqualursi (fyrsti leikur Jelavic) en aðeins um korteri síðar (á 76. mínútu) gerðist smá slys þegar Wigan reyndi að senda fyrir, Neville slengir fæti í boltann sem breytir um stefnu í átt að Howard en skoppar rétt fyrir framan Howard og snúningurinn (eða ójafn völlurinn?) veldur því að hann skoppar framhjá Howard sem er að reyna að grípa boltann í markinu. Mistökin eru eignuð Howard en markið skráist sem sjálfsmark á Neville og staðan var þar með orðin 1-0 fyrir Wigan. Frekar óverðskuldað þar sem þeir áttu aðeins eitt skot sem hitti rammann allan leikinn (og ekki skoruðu þeir úr því færinu) og virtust í mestu erfiðleikum með að ná nógu mörgum sendingum til að komast í almennilega sókn. Og það versta við markið var að ef Neville hefði látið boltann fara hefðu tveir Everton leikmenn auðveldlega náð til boltans.

Það lifnaði aðeins yfir Wigan við þetta, skiljanlega, þó að ekki fengu þeir fleiri góð færi. Moses átti skot í olnbogann á Heitinga en dómarinn dæmdi ekkert; hann virtist ekki vita að hægt væri að dæma hendi í leiknum því maður missti töluna á því hvað hann sleppti mörgum slíkum tilvikum þar sem hægt hefði verið að dæma hendi.

Örvæntingin jókst með hverri mínútunni og Moyes ákvað á 81. mínútu að skipta inn Anichebe fyrir Hibbert og blása til sóknar. Og sá átti aldeilis eftir að launa Moyes þá skiptinguna því að mínútu síðar fengum við tvö horn í röð, fyrst vinstra megin en svo hægra megin. Baines tók seinna hornið, sendi fyrir en varnarmaður Wigan skallaði boltann beint til baka til hans. Önnur fyrirgjöf frá Baines, beint á skallann á Anichebe sem þurfti bara að stýra boltanum í netið, eiginlega alveg eins og mark Stracqualursi setti inn í bikarleiknum gegn Fulham á dögunum. Staðan 1-1 og, eins og yfirleitt — öll mörkin frá varamönnum sem Moyes skiptir inn á og þulirnir hér farnir að tala um Anichebe sem "super-sub". 🙂

Jöfnunarmarkið kveikti pínulítið í Wigan sem náðu að setja smá pressu á Everton í teignum hjá Howard, reyndu nokkur skot (í sömu sókninni) en komust aldrei framhjá varnarmönnum og maður andaði léttar en er hundfúll með að fá ekki öll þrjú stigin gegn slöku liði Wigan. Ekki hægt að kvarta yfir fimm leikjum í röð án taps þó.

Ef horft er á frammistöðu liðsins myndi ég segja að vörnin hafi staðið sig almennt séð vel og Baines alltaf hættulegur frammi með sendingum sínum. Pienaar gaf okkur nýja vídd frammi en með hann inn á gengur mun betur að senda boltann manna á milli og komast fram hjá mönnum. Ekki að sjá að hann hafi verið frá í nokkurn tíma en hann var einn besti maðurinn á vellinum, ásamt Baines líklega. Fellaini mjög traustur á miðjunni en Gibson hefði mátt afgreiða skotin sín betur. Donovan hefur sýnt betri leik undanfarið en í gær, þó hann hafi verið ágætur. Stracqualursi virkaði ekki nógu vel frammi í þessum leik, fannst mér, þó duglegur sé. Jelavic skapaði smá usla í vítateig Wigan en þeir ætluðu greinilega ekki að gefa honum kost á að láta ljós sitt skína og héldu oft í hann (hann á líklega eftir að fiska þó nokkrar aukaspyrnurnar í framtíðinni). Í eitt skiptið fékk hann aukaspyrnu rétt utan við teig sem Baines hefði mátt gera betur úr (líklega bara láta annan leikmann taka spyrnuna því hún var vinstra megin við markið).

Einkunnir Sky Sports: Howard 4, Baines 7, Distin 7, Heitinga 6, Hibbert 6, Pienaar 8, Fellaini 6, Gibson 5, Donovan 6, Cahill 5, Stracqualursi 6. Varamenn: Neville 6, Jelavic 6, Anichebe 7. Wigan fengu fimmur og sexur á línuna nema Beausejour sem fékk 7.

Comments are closed.