Aston Villa vs. Everton

Á eftir mætum við Aston Villa á útivelli kl. 15:00. Engin tvö lið hafa mæst jafn oft í efstu deild í Englandi en Aston Villa fagnar nú 100 ára veru í efstu deild og eina liðið sem skákar því er Everton (107 ár). Þessi lið hafa samtals (í öllum leikjum) mæst 211 sinnum og skipt stigunum bróðurlega á milli sín en Everton hefur unnið 36% leikja, Aston Villa 37% og 27% leikja endað með jafntefli. Fyrri leikur liðanna á Goodison Park í september endaði 2-2 í leik sem við dómineruðum, óðum í færum og áttum að fá nokkrar vítaspyrnur. Við skoruðum tvö mörk (Osman og Baines úr víti) en Aston Villa jafnaði undir lok leiksins.

Villa Park hefur þó reynst okkur erfiður ljár í þúfu en við höfum aðeins unnið þar einu sinni í síðustu 24 leikjum og gert 9 jafntefli (tapað 14). Það gerir svo málið erfiðara að líklega eru ekki margir komnir til baka úr meiðslum en í síðasta leik voru um 6 lykilmenn frá vegna meiðsla og miðvörðurinn Distin bættist við eftir leikinn sem þýðir væntanlega að Duffy mun taka stöðu hans með Heitinga sér við hlið aftur. Moyes vildi þó meina að einhverjir af sjúkralistanum ættu séns í leikinn. Hjá Villa er Shay Given kominn aftur eftir 7 leikja meiðsli en Emile Heskey, Carlos Cuellar og Chris Herd eru fjarverandi.

Það eru þó nýju mennirnir hjá liðunum sem eiga eftir að vekja meira umtal en þeir á sjúkralistanum, en Aston Villa fékk nýlega Robbie Keane til liðsins að láni og við með Donovan (að láni) sem og Darron Gibson sem við keyptum frá Man United og er löglegur gegn Villa. Þar sem Heitinga og Neville taka líklega miðvörð og hægri bakvörð er ekki ólíklegt að Gibson fái að spreyta sig við hlið Fellaini nema einhver komi aftur úr meiðslum. Donovan líklega á hægri kanti, Drenthe á vinstri. Cahill hefur skorað fleiri mörk gegn Aston Villa (6) en gegn nokkru öðru liði (Osman sömuleiðis með 5). Kannski fær Cahill séns frammi en að öðru leyti þori ég ekki að spá framlínunni. Það þarf að prófa eitthvað nýtt – veit ekki hvað það ætti að vera, þessar mismunandi samsetningar hafa skilað litlu hingað til. Kominn tími til að framherjarnir okkar fari að taka sig á og skila sínu.

Villa menn hafa tapað síðustu fjórum heimaleikjum sínum í röð (nú síðast gegn Swansea), aðeins skorað 1 mark í þeim leikjum og ef þeir tapa í dag verður það í fyrsta sinn síðan 1963 sem það gerist. Helmingur markanna sem þeir fá á sig er úr set-pieces og það ásamt því að okkur hefur gengið betur á útivelli en á heimavelli verður vonandi eitthvað sem við náum að nýta okkur til að taka stigin þrjú sem við áttum skilið þegar við mættum þeim síðast.

Þess má svo geta að Mark Clattenburg dæmir leikinn en hann er frægur að endemum fyrir að eyðileggja derby leik milli Everton og Liverpool árið 2007. Þetta er í fyrsta skipti sem hann fær að dæma leik hjá Everton síðan þá en Moyes lét hann heyra það á göngunum eftir leikinn.

Comments are closed.