Everton vs Wolves

Við mætum Úlfunum á heimavelli á morgun kl. 15:00 og ljóst að við þurfum að bíta í skjaldarrendurnar og ná stigum úr næstu leikjum til að klifra upp töfluna en ég geri fastlega ráð fyrir því að okkar menn mæti hungraðir til leiks eftir landsleikjahlé síðustu helgar.

Hjá okkur er Fellaini kominn aftur úr banni en Moyes sagði að við værum með einn eða tvo sem væru fjarverandi, án þess að fara nánar út í það. Ljóst er að Anichebe er meiddur og Jagielka hefur verið að spila undanfarið með brákaða litlu tá, þó það virðist ekki há honum mikið þar sem hann spilaði með landsliðinu um helgina síðustu. Úlfarnir eru með nær fullskipað lið, ef frá er kannski talinn Kevin Foley sem er meiddur á ökkla.

Við vinnum yfirleitt 61% af heimaleikjum gegn Úlfunum en við höfum aðeins tapað einu sinni fyrir þeim í úrvalsdeildinni á undanförnum árum (tímabilið 03/04 á útivelli), sigrað tvisvar og gert þrjú jafntefli. Moyes hefur jafnframt aldrei tapað gegn liði sem McCarthy, stjóri Úlfanna, hefur stýrt. Úlfarnir hafa ekki riðið feitum hesti frá síðustu viðureignum, tapað 7 af sínum síðustu 9 leikjum og hafa ekki unnið á útivelli síðan þeir unnu Blackburn í fyrsta leik tímabilsins. Síðasti leikur okkar gegn þeim endaði 0-3 á útivelli þar sem Bily skoraði mark sem kemur til greina sem mark síðasta tímabils í ensku úrvalsdeildinni.

Af stóru fréttum liðinnar viku má telja frábæra frammistöðu Jack Rodwell með aðal-landsliði Englands en hann gaf Fabio Capello nóg að hugsa með frammistöðu sinni í sigurleikjum gegn annars vegar heimsmeisturum Spánar og hins vegar gegn Svíum þar sem Rodwell var mjög nálægt því að skora skallamark. Jack var jafnframt valin Everton leikmaður októbermánaðar. Jagielka sýndi einnig fantagóða frammistöðu á móti Spáni en hann og Lescott, fyrrum Everton leikmaður sem Moyes uppgötvaði, náðu fantavel saman í hjarta ensku varnarinnar. 

Af öðru má nefna að Fellaini skrifaði undir 5 ára samning eins og áður hefur verið rætt.

Comments are closed.