Everton – West Brom 2-1

Leikurinn var ekki sýndur í beinni þannig að maður lét sér nægja að lesa textalýsinguna á netinu. 

Moyes valdi að spila með Mucha inn á fyrir Howard, Heitinga kom inn fyrir Distin, Stracqualursi fékk sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliðinu í sókninni í stað Cahill, með Barkley fyrir aftan sig, og Drenthe var á vinstri kantinum fyrir Bily. Nokkuð hefðbundið, 4-5-1 með svipuðu byrjunarliði og venjulega að öðru leyti.

Fyrri hálfleikurinn var markalaus en dró svo til tíðinda í seinni hálfleik þegar Odemwingie komst inn fyrir vörnina og ætlaði fram hjá Mucha en Mucha felldi hann. Víti. Brunt skorar á 57. mínútu. 0-1 fyrir West Brom. Þessi úrslit hefðu verið mjög sár því West Brom parkeruðu rútu og restinni af liði sínu fyrir framan eigið mark og áttu aðeins 1 skot sem rataði á markið fyrstu 90 mínúturnar skv. BBC. Og þó að við værum ekki að spila neitt sérstaklega vel þá áttum við ca. 8 eða 9 skot á markið þannig að manni fannst við eiga meira skilið en 0-1 tap. 

Það voru taugatrekkjandi og frústrerandi mínútur sem liðu þangað rétt undir lok leiks að Fellaini jafnar leikinn (á 89. mínútu) og þar með þungu fargi létt af stuðningsmönnum Everton. Vonin kviknar aftur þegar við vorum ekki nema um einni mínútu frá því að detta út úr bikarnum (plús viðbótartíma). Vantaði bara að setja inn eitt í viðbót.

Og það var eins og við manninn mælt, í framlengingu skorar Phil Neville með þrumuskoti á 102. mínútu eftir sendingu frá Drenthe (myndin sýnir þá fagna markinu). Markinu var líkt við mark hans á móti Wolves á síðasta tímabili en það fylgdi sögunni að allir bak við markið hefðu beygt sig niður til að forðast að fá boltann í sig því enginn átti von á að þetta skot myndi enda í netinu! 🙂

Seinni hálfleikur framlengingar leið svo bara án teljandi atvika, nema hvað Fellaini var sagður hafa haldið um lærið undir lok leiksins en ekki ljóst hvort það sé alvarlegt. Vonandi er það ekki, enda mjög mikilvægur hlekkur á miðjunni.

Sky Sports gefur ekki einkunnir fyrir bikarleikinn, en goal.com mat þetta svo: Mucha 5, Heitinga 6, Jagielka 6, Baines 6.5, Coleman 7.5 (maður leiks), Neville 6.5, Barkley 7, Fellaini 7, Rodwell 6.5, Drenthe 5.5, Stracqualursi 6.5. Varamenn: Cahill 5.5, Gueye 6, Vellios 6.5. Hæsta einkunn leikmanns West Brom var 7 (Odemwingie og Dorrans).

Hægt er að sjá mörkin á þessari síðu (allavega um sinn).

Í öðrum fréttum er það helst að samningaviðræður fara að hefjast við Moyes um framlengingu á samningi hans við félagið, skv. Daily Mail.

Comments are closed.