West Brom vs. Everton

Nú mætum við West Brom á heimavelli þeirra á morgun (lau) kl. 11:45. Í fyrri leik tímabilsins (á Goodison Park) misstum við Arteta út af í leik sem endaði 1-4, þannig að við eigum harma að hefna.

Bæði lið eru á ágætri siglingu, við í fimmta sæti formtöflunnar (11 stig af 18) en West Brom í því sjöunda, stiginu færri. Liðin hafa aðeins þrisvar att kappi við hvort annað í Úrvalsdeildinni, Everton unnið tvo leiki og West Brom einn. Síðustu rúm 20 árin hafa liðin aðeins spilað 9 leiki, Everton unnið 5, West Brom 3 og einu sinni hafa liðin gert jafntefli.

Aðeins Saha og Fellaini eru meiddir hjá okkur (fyrir utan Cahill sem er tæpur en hefur spilað undanfarið). Dorrans hjá West Brom er meiddur og spurningamerki við Brunt og Reid (allir þrír miðjumenn). 


Það má vissulega kvarta yfir of mörgum leikjum þar sem við fáum á okkur mark en West Brom, aftur á móti, hafa ekki haldið hreinu i síðustu 34 leikjum. Á hinn bóginn má nefna að Odemwingi hefur skorað í síðustu 5 leikjum fyrir West Brom og því rétt að hafa sérstaklega auga með honum. 

Sigur á laugardaginn tryggir okkur 7. sætið, sem flestir Everton stuðningsmenn hefðu líklega tekið fegins hendi fyrri hluta tímabilsins. Hæsta mögulega sætið í deildinni er 6. sætið, ef við vinnum báða og Tottenham tapar báðum. Mjög ólíklegt, en aldrei að vita.

Í öðrum fréttum er það helst að enska U17 landsliðið tapaði 1-0 fyrir Hollandi í undanúrslitum um Evrópumeistaratitilinn. Leikurinn gerir það að verkum að Hallam ‘Rooney’ Hope og John Lundstram verða því miður ekki með Everton U18 sem leika til úrslita um Englandsmeistaratitilinn síðar í dag.

En líður nú að lokum tímabilsins og því eru gróusögurnar að aukast. Hér er yfirlit yfir helstu leikmenn sem hafa verið orðaðir við Everton: 

Keiren Westwood (25 ára markvörður), leikmaður Coventry og írska landsliðsins er með lausan samning í sumar. Jan Mucha, núverandi varamakvörður Everton er sagður vera óánægður með fá tækifæri og vilja burtu.

Jonathan Soriano (25 ára sóknarmaður) sem leikur með B liði Barcelona og hefur skorað 24 mörk í 29 leikjum í spænsku 2. deildinni. 

Bradley Johnson (24 ára miðjumaður Leeds) er með lausan samning í sumar. 

Chris Humphrey, kantmaður hjá Motherwell (með lausan samning í sumar)

Nolan Rux, sóknarmaður Brest.

Mathias Jorgensen, 21 árs varnarmaður FC Kaupmannahöfn, sem sagður er einn af efnilegustu varnarmönnum Evrópu, var orðaður við Everton á dögunum (og fleiri klúbba). 

Sol Bamba, 26 ára varnarmaður Leicester, var orðaður við Everton, Aston Villa og Birmingham.

Danny Welbeck, 20 ára sóknarmaður Man Utd.

Alex McCarthy, 21 árs markvörður Reading, og einnig Shane Long (aftur).

Og að lokum var Craig Bellamy aftur orðaður við Everton sem og Chris Eagles.



Comments are closed.