Everton vs. Fulham

Þá tekur við heimaleikur við Fulham á morgun (lau), kl. 17:30 (áður auglýst 15:00). Við misstum eins og kunnugt er Arteta í meiðsli í síðasta leik en Everton er þekkt fyrir að eflast alltaf við mótlæti þannig að vonandi verður þetta okkur til góðs. Phil Neville er líklega kominn aftur úr meiðslum og sagt að Tim Cahill eigi góðan séns líka. Fellaini er fjarverandi og óljóst með Anichebe. Hjá Fulham eru Senderos og Sidwell meiddir og ekki víst að Ethuhu verði með heldur. Bobby Zamora er sagður muni vera á bekknum.

Eins og hér hefur fram komið á Moyes nú að baki 9 ár með Everton, en fyrsti leikur hans var 2-1 sigurleikur á Fulham, sem bæði Hibbert og Saha spiluðu frá byrjun (Saha var þá í Fulham).

Fulham eru á góðum spretti þessa stundina (svipað og við) og hafa eingöngu tapað einum leik í síðustu 9 í deildinni. Þegar sagan er skoðuð, hafa þeir í 22 leikjum, hins vegar, aldrei unnið á Goodison Park (18 töp og 4 jafntefli). Árangur þeirra hefur verið svo slæmur í gegnum tíðina að það þarf að fara aftur til ársins 1959 til að finna hjá þeim stig á Goodison Park. Vonum að það haldi áfram.

Goal.com tók saman tölfræði skallabolta hjá þessum liðum og fann út að Cahill hefur skorað í 6 af sínum 8 sköllum á tímabilinu og Dempsey hjá Fulham í 5 af sínum 6 sköllum. Dempsey er jafnframt sá maður sem oftar hefur skorað síðasta markið í leiknum en nokkur annar í deildinni, alls 5 sinnum. Það þarf því að passa upp á hann sérstaklega. 🙂

Af samningamálum er það að frétta að Phil Jagielka var að skrifa undir nýjan fjögurra ára samning sem skuldbindur hann til ársins 2015. Mikið gleðiefni að hann sé kominn með langtímasamning, enda hefur hann staðið sig afskaplega vel að undanförnu og er við það að komast í enska landsliðið. Af útlánum var nýlega tilkynnt að ungliði Everton, Hope Akpan sem er 19 ára miðjumaður, hefði verið lánaður til Hull City (neyðarlán að sögn), með klausu í samningnum sem leyfir kaup á honum í lok tímabils. Jafnframt var annar 19 ára miðjumaður, James Wallace, að fá framlengt lán sitt hjá Stockport til loka tímabils.

Svo má þess einnig að lokum geta að Moyes hefur tilkynnt að ekkert sé til í þeim sögusögnum að búið sé að gera samning við Manchester United um sölu á Rodwell.

(Uppfært kl. 17:40 með fréttunum af Phil Jagielka).

 

Comments are closed.