Newcastle – Everton 3-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti á heimavöll Newcastle í eins konar 6 stiga leik því Newcastle menn eru í bullandi fallhættu og nauðsynlegt að Everton myndi helst vinna til að sogast ekki í þá sömu baráttu. Þetta var annar leikur liðsins undir stjórn Franks Lampard og maður vonaði að sigrarnir héldu áfram (sem lengst náttúrulega), en svo reyndist þó ekki.

Búist var við að Calvert-Lewin myndi missa af leiknum vegna minniháttar meiðsla en hann er á bekknum í dag. Annars er liðið að mestu óbreytt frá (þeim sem spiluðu megnið af) bikarleiknum við Brentford á dögunum, sem Everton vann 4-1.

Uppstillingin: Pickford, Holgate, Mina, Keane, Coleman (fyrirliði), Allan, Gomes, Townsend, Gordon, Gray, Richarlison.

Varamenn: Begovic, Branthwaite, Kenny, Patterson, Van de Beek, El Ghazi, Iwobi, Dele Alli, Calvert-Lewin.

Það fyrsta sem maður rak augun í var að nýju mennirnir, Van de Beek og Dele Alli, voru ekki í byrjunarliðinu, enda kannski ekki sanngjarnt að þeir detti beint í liðið eftir sigurleik. Annars voru þetta þrír miðverðir plús Coleman í vörninni, þannig að þetta var 3-4-1-1 eða eitthvað álíka, með Coleman og Townsend sem wingbacks. Enginn náttúrulegur vinstri bakvörður í hóp (Mykolenko með covid) en þrír hægri bakverðir hins vegar í hóp (tveir á bekknum og einn í byrjunarliðinu). En þá að leiknum…

Lítið um færi framan af, svona að heita má. Allavega engin almennileg færi, þó liðin hefðu náð að koma bolta á rammann öðru hverju. 

Svo skall ógæfan á okkar lið. Gray meiddist á 25. mínútu og þá kom Dele Alli inn á fyrir hann. Stuttu síðar meiddist Yerry Mina og þá kom Branthwaite inn á. Aðeins ein skipting þar með eftir en heill klukkutími af spilatíma. Alls ekki eins og best yrði á kosið.

Everton fékk aukaspyrnu strax í kjölfarið, eftir fólskulega appelsínugula tæklingu frá Jonjoe Shelvey utarlega vinstra megin á velli. Sendu háan bolta fyrir mark. Boltinn barst til Holgate upp við vinstri stöng og hann skaut á mark en varið… í Lacelles, varnarmann Newcastle, og þaðan í netið. 0-1 fyrir Everton! 

En strax í næstu sókn jöfnuðu Newcastle menn. Áðurnefndur Lacelles skallaði að marki eftir hornspyrnu og boltinn fór í neðanverða slána og þaðan í Holgate og inn. Tvö sjálfsmörk á mjög stuttum tíma. 1-1.

Og þannig var það í hálfleik. 

Everton náði aldrei almennilega undirtökunum í leiknum, andstætt því sem þeir gerðu gegn Brentford og Newcastle menn komust yfir tiltölulega snemma í seinni hálfleik. Dele Alli missti boltann ekki langt frá vítateig og Newcastle menn voru fljótir að hugsa og komust inn í teig vinstra megin. Maximin komst upp að endalínu og sendi stuttan háan bolta fyrir og einhvern veginn náðu þeir að böðla boltanum inn fyrir marklínu. 2-1 fyrir Newcastle.

Van de Beek kom inn á í kjölfarið fyrir Gomes, sem var á gulu spjaldi. En Trippier kláraði svo leikinn með frábærri aukaspyrnu – setti boltann alveg út við stöng. 3-1. Game over.

Lampard var á þeim tímapunkti búinn með allar sínar skiptingar í leiknum og gat því lítið haft meiri áhrif á hann. Newcastle menn nær því að bæta við en Everton að jafna, það verður bara að viðurkennast.

Ekki góður leikur hjá okkar mönnum. Gordon var sá eini sem vann fyrir kaupinu sínu, restin varla svipur hjá sjón. Það hjálpaði náttúrulega ekki að okkar menn léku bikarleik um helgina á meðan Newcastle menn hvíldu, en samt.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Holgate (6), Keane (6), Mina (6), Coleman (7), Allan (7), Gomes (6), Gordon (7), Gray (6), Townsend (5), Richarlison (5). Varamenn: Alli (5), Branthwaite (7), Van de Beek (5).

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það kemur ekkert annað en sigur til greina í kvöld…..en þessar fyrstu fimm mínútur eru ekki að lofa góðu.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Algjörlega hræðilegur fyrri hálfleikur og þá er ég ekki bara að tala um meiðslin hjá Gray og Mina. Það er baráttuhugur í Newcastle en það sama er því miður ekki hægt að segja um Everton. Sem betur fer náðu okkar menn að halda jöfnu fram að hléi, þó það væri synd að segja að það væri frábærum varnarleik að þakka. Nú er bara að vona að seinni hálfleikur verði betri af hálfu Everton.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Bölvaðir trúðar eru þessir menn.

  4. Finnur skrifar:

    Lengi getur vont versnað, segi ég nú bara.

    Nú er bara að horfa til næsta leiks, gegn Leeds á heimavelli. Það er annar svona 6 stiga leikur…

  5. AriG skrifar:

    Ég var miklum vonbrigðum með Everton í þessum leik. Mjög slæmt að missa 2 í meiðsli í þessum leik. Þetta voru lykilmenn. Búnir að missa 3 lykilmenn í 2 leikjum hvernig endar þetta. Vonandi fer lampard að spila 4-4-2 eða 4-5-1 lýst ekki á þessa liðsuppstillingu. Hræðilegt að missa Lucas Digne verstu mistök Everton síðustu ár. Lengi getur vont versnað en vonandi rís Everton upp aftur og vinni Leeds í næsta leik annars er ég hræddur um að Everton falli með svona spilamennsku 1 sigur í síðustu 15 leikjum minnir er ekki boðlegt í deildinni. Vill ekki dæma varamenn í þessum leik en Dele Alli er greinilega ekki tilbúinn en Van De Beek ok.