Hull – Everton 2-3 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik við Hull City í 3. umferð FA bikarsins í kvöld kl. 17:30. Hull City eru um þessar mundir í 19. sæti í ensku B deildinni, aðeins fjórum stigum frá fallsæti eftir 24 umferðir og höfðu, fyrir leikinn, ekki unnið leik í síðustu fjórum tilraunum (tapað tveimur og gert tvö jafntefli frá því þeir unnu Millwall undir lok nóvembermánaðar). Sem betur fer breyttist það ekki í kvöld.

Benitez gerði fjórar breytingar á liðinu frá síðasta leik en Begovic byrjar í marki Everton, nýi vinstri bakvörður okkar, Mykolenko, fer beint í byrjunarliðið og Rondon leiðir línuna. Annars lítur þetta svona út:

Uppstillingin: Begovic, Mykolenko, Kean, Godfrey, Kenny, Allan, Gordon, Gomes, Coleman, Gray, Rondon.

Varamenn: Pickford, Holgate, Patterson, Gbamin, Onayango, Dououré, Townsend, Dobbin, Tosun.

Byrjunin á leiknum reyndist ekki glæsileg því Hull menn fengu aukaspyrnu á fyrstu mínútu og skoruðu í kjölfarið. Hár bolti inn í teig sem Rondon leyfði að sigla framhjá sér án þess að reyna við hann og leikmaður Hull skallaði í netið. 1-0 fyrir Hull.

Hull menn efldust við markið á meðan Everton liðið komst einfaldlega ekki almennilega í gang og Hull menn fengu tvö ágætis færi í viðbót á fyrsta korterinu, þar sem í bæði skiptin reyndi á Begovic í marki Everton en hann var vandanum vaxinn.

Það tók Everton 20 mínútur að fara að gera eitthvað af viti og var það einstaklingsframtak hjá Gray sem tók á sprett með bolta meðfram teiglínu (samsíða endalínu), sendi stutt á Gordon og stakk sér inn í gegnum vörnina. Gordon sá hlaupið og sendi frábæra stungusendingu inn á hann og Gray náði þannig að koma sér í færi einn á móti markverði og leggja boltann í netið framhjá honum. 1-1! Game on!

Þremur mínútum síðar komst Gordon í skyndisókn. Var á auðum sjó á hægri kanti og komst inn í teig. Þóttist skjóta en lék þar snyrtilega á varnarmann, sem kom á mikilll siglingu, en skotið frá honum, með vinstri (veikari) fæti, í stöng og út. Gray átti svo flott skot utan teigs, sem markvörður varði í horn.

Hull menn voru stálheppnir að fá ekki víti á sig í kjölfarið þegar varnarmaður þeirra handlék boltann. Var með höndina hátt uppi þegar boltinn snerti hann og kom þar með í veg fyrir að Gordon næði að komast í dauðafæri. Dómarinn, Kevin Friend, sá ekkert athugavert við þetta og ekkert VAR var í gangi á þessum velli, sem bresku þulirnir vildu meina að hefði náð að lagfæra þessi mistök.

Keane átti góðan sprett upp völlinn stuttu síðar og áður en maður vissi af var hann mættur fremstur og búinn að fá stoðsendingu inn fyrir vörnina frá Gordon og var allt í einu kominn í dauðafæri upp við mark hægra megin. Keane, af öllum mönnum! Hann afgreiddi það færi mjög vel (sérstaklega af miðverði að vera), var næstum búinn að skora út við fjærstöng, en markvörður varði meistaralega.

Á 31. mínútu komst Everton yfir með marki frá Gomes. Gordon gerði vel að finna Jonjoe Kenny í „overlap-inu“ hægra megin inni í teig og sendi á hann. Kenny beið þangað til boltinn var kominn eiginlega alveg upp að endalínu en sendi svo háan bolta inn í teig sem Gomes gerði vel að ná að skalla, fyrst niður í jörðina en þaðan með viðkomu í markverði og upp í þaknetið! 1-2 fyrir Everton.

Á 34. mínútu komst Gordon í gott skotfæri hægra megin í teig. Hikaði aðeins í skotinu en setti svo boltann yfir markið. Var svo tæklaður af varnarmanni sem var að reyna að stoppa skotið. Bresku þulirnir sögðu að alls staðar annars staðar á velli væri þetta aukaspyrna og ætti að vera víti. Ekkert dæmt.

Staðan því 1-2 í háfleik.

Gordon komst í fínt skotfæri á 56. mínútu, hægra megin í teig, sem markvörður varði með því að slá út í teig og ekkert kom úr því. 

Andros Townsend kom svo inn á fyrir Anthony Gordon á 65. mínútu.

Hull City menn náðu að jafna á 71. mínútu. Everton liðið leit út fyrir að vera að komast í skyndisókn, en 50/50 bolti tapaðist á miðjunni. Skyndisóknin breyttist þar með í vörn og þeim tókst að jafna með þrumuskoti utan teigs upp í samskeytin. 2-2.

Síðar kom í ljós í endursýningu að Hull menn höfðu aftur sloppið með skrekkinn þegar skot á mark (frá Gray?) var varið með hendi inni í teig. Aftur: ekkert VAR til staðar til að laga það. 

Gray átti skot rétt framhjá á 74. mínútu og Benitez skipti þá Doucouré inn á fyrir Kenny á 74. mínútu. Gbamin kom svo inn á fyrir Gomes á 87. mínútu.

Þulirnir voru enn á ný ósáttir við dómarann, Kevin Friend, í uppbótartíma þegar bakvörður Hull braut á Rondon sem var að reyna að komast framhjá honum inni í teig. Vildu meina að Kevin Friend hafi gert mistök þar með því að dæma ekkert.

2-2 eftir venjulegan leiktíma og því framlengt.

Everton komst yfir í framlengingu (á 99. mínútu) með einstaklings-framtaki frá Andros Townsend, varamanninum. Hann hlóð í skot utan teigs og smellhitti boltann. Markvörður Hull kannski ekki vel staðsettur en náði hönd á bolta en samt fór hann inn. 2-3 fyrir Everton.

2-3 eftir fyrri hálfleik framlengingar. Dobbin kom svo inn á fyrir Gray í seinni hálfleik.

Begovic kom okkar mönnum aldeilis til bjargar á 109. mínútu með tvöfaldri point-blank-range vörslu í sömu sókn.

Ég verð svo að viðurkenna að ég missti alveg af seinni hálfleik framlengingar þar sem ég þurfti að fara í matarboð, en mér sýnist af því sem ég hef lesið (af seinni hálfleik framlengingar) að lítið markvert hafi gerst.

Aðalatriðið er að Everton komst áfram í næstu umferð FA bikarsins með 3-2 sigri á útivelli gegn Hull í kvöld.

Hlakka til að sjá næstu mótherja. Dregið á sunnudaginn í 32ja liða úrslitum.

4 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Vel gert hjá liðinu að komast áfram, eftir svo sannarlega hræðilega byrjun þar sem að föst leikatriði fella okkur enn og aftur. Að mínu mati eru mestu vandamálin í vörninni. Við urfum að bæta okkur þar. Með nýjum leikmönnum eða „whatever“.

  Demaray Gray bestur að mínu mati. Þvílíkt mark sem hann gerði og „sendingin“ á sjálfan sig með hælnum var geggjuð. Aðeins super leilkmenn gera svona en hann er sannarlega einn slíkur.

  Mér fannst Gomez vera betri an við höfum áður séð til hans. Eins fannst mér Rondon betri en hann hefur áður verið. Nokkuð góður/duglegur í skallaboltum og spilaði rúmlega 100 mínútur í kvöld.

  Erfiður leikur hjá Mykolenko en þetta er greinilega fínn leikmaður.

  Aðalatriðið er að við unnum 2-3 á útivelli og erum enn í pottinum.

 2. Finnur skrifar:

  Everton dróst á móti Úrvalsdeildarliðinu Brentford á heimavelli í 32ja liða úrslitum.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Léttir, var sú tilfinning sem ég fann helst fyrir eftir þennan leik og kvíði fyrir næsta leik fylgdi svo fljótlega á eftir.
  Mikið óskaplega erum við Evertonmenn heppnir að hafa þennan taktíska snilling við stjórnvölinn hjá liðinu okkar.
  Everton hlýtur bara að vinna bikarinn í ár með þennan frábæra og útsjónarsama stjóra. NOT!!!!
  Fimm manna vörn gegn Hull City??? Er það eitthvað grín?? Og enn einu sinni bara tveir menn inni á miðjunni. Það eru allir búnir að fatta að það virkar ekki, nema Benitez auðvitað. Annars getur vel verið að hann sé búinn að fatta það en er bara of þrjóskur til að viðurkenna mistök sín og breyta því.
  Everton voru hreinlega ekki með fyrstu 20 mínúturnar í leiknum og það var Begovič að þakka að þetta var ekki game over á fyrstu fimm mínútum leiksins.
  Svo kom jöfnunarmarkið svolítið upp úr engu og eftir það var eins og Evertonliðið væri vaknað og þegar Gomes kom Everton yfir þá hélt maður, í bjartsýniskasti, að þetta yrði bara þægilegt. Svo var bara eins og menn héldu að þetta væri komið í hús og liðið tók fótinn af bensíngjöfinni.
  Það voru auðvitað mistök.
  Benitez þurfti svo endilega að sýna hvað hann er snjall og útsjónarsamur og tók Gordon út af fyrir Townsend, sem er rétt að stíga upp úr meiðslum. Mér fannst þetta fáránleg skipting þar sem Gordon var einn af okkar bestu mönnum og úrslitin alls ekki ráðin. Ég hefði viljað sjá Doucoure eða Gbamin koma inn fyrir Kenny eða Coleman og ná þannig tökum á miðjunni enda var þessi fimm manna vörn alls ekki að virka.
  En það þurfti auðvitað jöfnunarmark til þess að hann áttaði sig á því.
  Mér fannst líka undarlegt þegar Gbamin kom inn á að hann skyldi ekki taka stöðu Allan sem varnarsinnaður miðjumaður, því það er hans staða. Allan er ekki varnarsinnaður miðjumaður, heldur vill hann þvælast um og reyna að vinna boltann og sækja fram með hann.
  Hvers vegna Rondon hékk inni á í 115 mínútur, skil ég ekki, hann gerði ekkert. Hann gerði sitt besta auðvitað en því miður er það bara langt frá því að vera nóg, Tosun gerði meira á þessum 5 mínútum sem hann var inni á heldur en Rondon á 115 mínútum.
  Dobbin fannst mér líflegur og ógnandi og ég vona bara að hann fari að fá fleiri tækifæri.
  Mér fannst eiginlega eins og Benitez gerði liðinu erfiðara fyrir með þessari uppstillingu, taktík og skiptingum.
  Ég fæ ekki fyrir mitt litla líf skilið hvers vegna hann stillti upp í fimm manna vörn, það virkar aldrei, það virðist enginn vita hvar hann á að vera eða hvað hann á að gera, síst af öllu í föstum leikatriðum. Maður fær fyrir hjartað og gerir nánast í brækurnar af hræðslu í hvert sinn sem andstæðingar Everton fá fast leikatriði, þó ekki sé nema innkast.
  Mér fannst Mykolenko komast þokkalega frá þessum fyrsta leik sínum og vonandi reynist hann góð kaup. Hann verður bara að vera það, hann er eini vinstri bakvörðurinn sem Everton hefur.

 4. Diddi skrifar:

  Hef það frá góðum vini mínum í liverpoolborg að þjálfunaraðferðir beneathus séu 2klst þrekæfingar og svo sé farið og horft á gamla leiki með Wimbledon

%d bloggers like this: