Brentford – Everton 1-0

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Godfrey, Keane, Coleman (fyrirliði), Allan, Doucouré, Townsend, Iwobi, Gordon, Rondon.

Varamenn: Begovic, Kenny, Gbamin, Gray, Delph, Tosun, Branthwaite, Simms, Dobbin.

Við Halli skiptum með okkur þessari skýrslu, svona á milli fjölskyldu-veislna…

Þetta byrjaði svolítið box to box. Everton áti snemma leiks fína fyrirgjöf frá hægri en beint í lúkurnar á markmanninum. Brentford átti svo kross frá hægri sem Pickford sló í horn. Pickford greip hins vegar boltann beint úr hornspyrnu. Everton meira með boltann en lítið að frétta.

Everton átti horn á 9. mín — Gordon tók spyrnuna en ekkert kom úr því. Brentford reyndi hraða sókn en Pickford tók boltann. Lítið að gerast í kjölfarið.

Brentford menn héngu á boltanum aftast og vantaði pressu frá okkar mönnum.

Brentford menn fengu aukaspyrnu á ákjósanlegum stað, hægra megin vallar, en Rondon skallaði frá — engin hætta.

Þegar komið var fram á 19. mínútu fengu Brentford menn horn og Allan hreinsaði aftur fyrir. Seinni hornspyrnan reyndist frábær en Pickford náði að slá frá. Brentford menn heimtuðu hins vegar víti á Townsend vegna hættusparks. Að okkar mati er slíkt óbein aukaspyrna en VAR dæmir víti, sem Brentford menn skoruðu örugglega úr. Fyrst dómarinn dæmdi víti þá hefði þetta alveg getað verið rautt spjald. 1-0 fyrir Brentford.

Rondon komst svo í dauðafæri á 25. mínútu en varið.

Brentford menn áttu flottan kross frá hægri sem Pickford náði til rétt á undan sóknarmanni þeirra og stuttu síðar varði Pickford skalla frá þeim eftir horn.

30 mín á klukkunni og lítið að gerast.

Fín pressa frá Everton í kjölfarið og álitlegar sóknir en ekkert kom samt út úr því. Skyndisókn frá Brentford á 41. mínútu en Pickford varði vel skot af löngu færi.

Everton átti að fá víti á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks þegar varnarmaður Brentford bókstaflega afklæddi Salomon Rondon næstum inni í teig, þegar há fyrirgjöf var á leiðinni til hans. Ekkert dæmt. Þvílíkt rugl.

1-0 í hálfleik.

Fínn sóknarþungi frá Everton í byrjun seinni hálfleiks sem jókst eftir því sem leið á og Everton tók að lokum alla stjórn á leiknum og Brentford menn vissu varla hvað þeir áttu að gera við boltann þegar þeir unnu hann. En færin létu að mestu á sér standa.

Á 56. mínútu barst boltinn til Rondon inni í teig eftir fínt hlaup Coleman upp völlinn og hann sneri og skaut, en skotið frá honum blokkerað af varnarmanni. Iwobi fékk fínt skotfæri stuttu síðar, inni í teig en markvörður varði vel, kastaði sér á boltann.

Brentford menn voru stálheppnir að missa ekki mann af velli eftir rúman klukkutíma leik þegar bakvörður þeirra, Canós (á gulu spjaldi og búinn að brjóta af sér áður) klippti niður Digne. Þeir voru klókir og fengu mann sem var ekki á spjaldi til að skapa smá glundroða í kjölfarið og sækja sér spjald (og eitt á Rondon), svona til að draga athyglina frá því að bakvörðurinn átti að fá rautt.

Demarai Gray var svo skipt inn á á 68. mínútu fyrir Townsend og sá var líflegur það sem efitr lifði leiks. Átti geggjaða lága sendingu fyrir mark þar sem hann var hægra megin í teig en enginn mættur á réttan stað til að taka á móti og pota í netið.

Rondon fékk svo flotta sendingu inn í teig frá Coleman á 83. mínútu og náði að stýra skallaboltanum vel í áttina að marki en framhjá.

Gray átti aftur fína sendingu inn í teig á 86. mínútu en sá bolti sigldi (aftur) framhjá marki án þess að neinn væri mættur til að pota inn.

Everton leitaði allra ráða til að jafna en tókst ekki, þrátt fyrir þunga pressu og einstefnu í seinni hálfleik. Undir lokin kom há sending inn í teig sem Iwobi náði að skalla á mark, en markvörður þeirra náði að grípa.

1-0 sigur Brentford staðreynd. Sigurmark úr vafasamri vítaspyrnu. Menn mæta væntanlega brjálaðir til leiks í derby leikinn í miðri viku.

Einkunnir Sky Sport: Pickford (6), Coleman (5), Godfrey (6), Keane (6), Digne (6), Gordon (6), Doucoure (6), Allan (6), Iwobi (6), Townsend (5), Rondon (5). Varamenn: Gray (6).

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Nú þurfa okkar menn að girða sig í brók og sýna karakter og baráttuvilja til að taka öll stigin þrjú og miðað við spilamennsku liðsins undanfarið hef ég fulla trú á að það gerist ekki. Ég spái 3-0 fyrir Brentford.

  2. Gestur skrifar:

    Er ekki hægt að taka þenna Rondon útaf og henda honum burt, alvegv glataður fótbolta maður. Everton á flott unga framherja og á að mota þá.

  3. Gestur skrifar:

    Nú má Benítez fara fyrir mér, fær ekkert úr mannskapnum sem er kannski ekkert betri en þetta.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Það er nú einmitt vandamálið Gestur, hópurinn er ekki betri en þetta
      Benitez verður þó að taka hluta af sökinni á sig fyrir að þrjóskast við að spila með Rondon og Iwobi, ekki bara í dag heldur í mörgum undangengnum leikjum og fyrir að þrjóskast við að spila svæðisvörn í föstum leikatriðum en það er búið að kosta okkur nokkur stig á tímabilinu.
      Ég sagði eftir æfingaleikinn gegn united í ágúst að Benitez ætti engu eftir að breyta hvað varðar hugarfar leikmanna og því miður þá reyndist það rétt. Við erum enn að horfa upp á menn sem eru ekki að nenna þessu, virka gjörsamlega ráðalausir í sóknarleiknum og stundum í varnarleiknum líka og hreinlega bara hræddir og huglausir.
      Maður hélt í byrjun tímabils að það væri komið annað og betra hugarfar í liðið en um leið og illa fór að ganga þá voru menn fljótir að detta í sama farið og síðustu tvö til þrjú tímabil.
      Ég er virkilega áhyggjufullur yfir gengi liðsins undanfarið. Liðið er að sogast niður í fallbaráttuna og það er barátta sem þessi leikmannahópur ræður ekki við. Ég er þess vegna skíthræddur um að þetta verði síðasta tímabil Everton í efstu deild, því ég get engan veginn séð hvaðan næstu stig koma. Kannski náum við stigi gegn Palace 12. desember eða gegn Newcastle 28., en það er ekki gefið og ég verð hissa ef Everton verður með fleiri en 15 stig á nýársdag.
      Örugglega munum við öll hvernig var að vera stuðningsmaður Everton á síðasta áratug síðustu aldar og þar til Moyes tók við liðinu 2001. Það var ansi oft sem Everton daðraði við falldrauginn en einhvern veginn hafði maður ekki áhyggjur, því það voru alltaf sterkir karakterar og leiðtogar í liðinu sem toguðu liðið upp. Leikmannahópur dagsins í dag er ekki þannig. Það eru engir karakterar eða leiðtogar að öskra menn áfram í leikjum, enginn sem gerir neitt til að kveikja einhvern neista í liðinu td með hörkutæklingu eða bara einhverju og það er þess vegna sem maður hefur áhyggjur núna. Everton þarf á kraftaverki að halda ef ekki á illa að fara en því miður er tími kraftaverkanna löngu liðinn. Ég læt mig heldur ekki dreyma um að það birtist einhverjir bjargvættir í janúar og reddi málunum því fjárhagsstaða félagsins er ekkert betri en í sumar.
      Jæja!!
      Derbyslagurinn á miðvikudaginn. Á maður að voga sér að horfa á hann og vonast eftir minna en fimm marka tapi? Held að allt undir því væri nánast ásættanlegt miðað við spilamennsku liðanna síðustu mánuði.

  4. Eirikur skrifar:

    Ég verð bara að vera algjörlega sammála Ingvari.
    Það er eitthvað hrikalega mikið að hugarfarinu í klúbbnum.
    Eins þá er heldur ekki einn skapandi leikmaður í hópnum.
    Veit ekki með ungu mennina sem hefðu átt að koma inná í dag, hvort að þeir hefðu sínt baráttu enn þetta hefði ekki geta verið verra enn Iwobi og Rondo (reyndar skásti leikur Rondo, enn mótherjarnir voru líka ekki merkilegir). Reyndar hefur Gordon valdið mér vonbrigðum með sínum leikrænu tilburðum og á stundum leti.
    Allt minna enn 5-0 á móti Lpool verður vel sloppið.