Everton – Rotherham 2-1

Mynd: Everton FC.

Fyrsti leikur Everton í FA bikarkeppninni er á heimavelli í dag kl. 12:00 á hádegi en leikið er gegn Rotherham í þriðju umferð keppninnar. Rotherham eru sem stendur í næstneðsta sæti ensku B deildarinnar, einu stigi frá botninum og hafa unnið einn leik í síðustu 5 tilraunum í deild.

Everton hefur einu sinni mætt Rotherham á síðari árum en liðin mættust í deildarbikarnum í upphafi tímabils 2018/19 og fór Everton þá með sigur af hólmi, 3-1 með tveimur mörkum frá Calvert-Lewin eftir að Gylfi hafði komið Everton yfir í fyrri hálfleik.

Uppstillingin: Olsen, Digne, Godfrey, Keane, Coleman (fyrirliði), Gomes, Gordon, Iwobi, Davies, Rodriguez, Tosun.

Varamenn: Lössl, Branthwaite, Doucouré, Bernard, Holgate, Mina, Nkounkou, Gylfi, Simms.

Sem sagt, sæmilega sterkt lið með nokkra þungavigtarmenn á bekknum, tilbúna að koma inn. Stóru fréttirnar hins vegar þær að Digne er í byrjunarliðinu í fyrsta skipti eftir nokkra fjarveru. Richarlison, Calvert-Lewin og Pickford fá hins vegar hvíld frá þessum leik.

Anthony Gordon skapaði fyrsta færi Everton strax á upphafsmínútunum. Hann gerði mjög vel í að snúa á varnarmann Rotherham nálægt miðsvæðinu og í kjölfarið þræða sig í gegnum vörn Rotherham. Hann náði svo að skapa sér frábært skotfæri á hægri fótinn rétt utan við vitapunkt og þrumaði að marki en varnarmaður náði að blokkera. Boltinn barst þó aftur til Gordon sem reyndi skot með vinstri fæti en skotið máttlaust. Gomes átti örskömmu síðar flott skot utan teigs sem fór rétt framhjá stöng.

Gordon var aftur að verki á 9. mínútu þegar hann tók aftur snúning á varnarmann og skildi hann eftir í rykinu. Sendi geggjaða stungusendingu fram á Tosun sem þurfti bara að sneiða boltann framhjá markverði í fyrstu snertingu. 1-0 fyrir Everton. Frábært að sjá Tosun ná að skora eftir að hafa jafnað sig af löngum og erfiðum hnémeiðslum.

Engin ógnun frá Rotherham lengi vel, enda reyndu þeir alltaf skot um leið og þeir komust inn fyrir teiglínu og öll þau skot enduðu hátt upp í stúku. En það breyttist á 24. mínútu, þegar þeir náðu betri tökum á leiknum og fyrir vikið hættulegri sóknum. 

Sóknarmaður þeirra komst inn fyrir hægra megin og skaut lágum bolta að marki en Olsen kastaði sér niður og varði. Frákastið barst til annars Rotherham manns sem reyndi skot sem var blokkerað af Coleman. Boltinn barst þá út úr teig þar sem einn þeirra reyndi langskot sem Olsen varði í horn. Ekkert kom hins vegar úr horninu.

Rotherham menn voru hinsvegar ekki langt frá því að koma boltanum á rammann eftir hornspyrnu örskömmu síðar en skölluðu rétt yfir.

Coleman og Iwobi náðu vel saman á hægri kantinum með flottu þríhyrningaspili á 38. mínútu sem kom Coleman inn fyrir vörnina hægra megin. Coleman náði að koma boltanum á Tosun, sem hafði lítinn tíma til að athafna sig en náði að snúa boltanum að marki en framhjá fjærstöng.
1-0 í hálfleik.

Iwobi með fyrsta færi seinni hálfleiks — skot utarlega í teignum hægra megin en rétt framhjá fjærstöng.

En Rotherham menn höfðu mætt til seinni hálfleiks með skottið uppi og þeir uppskáru jöfnunarmark á 59. mínútu þegar Davies reyndi með skalla að koma í veg fyrir háa sendingu inn í teig. Sóknarmaður þeirra þó enn næstur boltanum og náði að snúa og skjóta í fyrstu atrennu og boltinn endaði á fjærstöng og þaðan fór hann inn. 1-1.

Ancelotti brást við með tvöfaldri skiptingu á 61. mínútu: Bernard og Doucouré inn á fyrir Iwobi og Gordon. Digne og Davies var svo skipt út fyrir Mina og Gylfa á 65. mínútu.

Everton gerði atlögu að marki Rotherham á 83. mínútu þegar Godfrey náði að framlengja skalla á Tosun sem var alveg upp við mark en markvörður náði til boltans rétt áður en Tosun náði skalla að marki.

En Tosun náði loks að koma boltanum í netið á 86. mínútu eftir aukaspyrnu frá Rodriguez af vinstri kanti. Hár bolti fyrir mark sem Tosun stýrði í netið en markið var síðan dæmt af vegna rangstöðu. Mjög tæpt en líklega réttur dómur.

Everton fékk eitt ágætt færi í blálokin eftir fína skyndisókn. Tosun reyndi langa sendingu af vinstri kanti yfir á Coleman sem var kominn inn í teig en það endaði með hornspyrnu sem reyndist það síðasta sem gerðist áður en flautað var til loka venjulegs leiktíma. 

1-1 staðan og grípa þurfti til framlengingar.

Það tók Everton aðeins tvær mínútur af framlengingunni að komast yfir aftur og í þetta skiptið án afskipta VAR. James Rodriguez sá hlaup hjá Doucouré inn fyrir hjarta varnar og sendi stungusendingu á hann sem Doucouré lagði boltann framhjá markverði í fyrstu snertingu. Staðan orðin 2-1 fyrir Everton. Þetta var ein síðasta snerting Rodriguez í leiknum því stuttu síðar (á 4. mínútu framlengingar) kom Nkounkou inn á fyrir Rodriguez. 

Nkounkou skapaði strax dauðafæri fyrir Bernard inni í teig eftir fyrirgjöf frá þeim fyrrnefnda af vinstri kanti. Bernard hins vegar óheppinn að skora ekki, því boltinn endaði í stöng og út. Í næstu sókn reyndi Tosun skot utan teigs, en boltinn rétt framhjá stöng. Coleman var næstur til að reyna langskot en markvörður varði og varnarmaður hreinsaði í horn.
2-1 eftir fyrri hálfleik framlengingar.

Tosun fékk færi undir lok seinni hálfleiks framlengingar en varnarmaður, sem hrasaði þegar Tosun sólaði hann, náði að slengja fæti í boltann og hreinsa — á leiðinni í grasið rétt áður en Tosun náði skoti. 

En markið frá Doucouré nægði til að tryggja Everton 2-1 sigur og þar með farseðil í 4. umferð.

Sky Sports gefur ekki út einkunnir fyrir bikarleiki. Hvað fannst ykkur um frammistöðu einstakra leikmanna og hvern mynduð þið velja mann leiksins?

6 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Er mættur á sjónvarpsrásina V sport premium í Svíþjóð og bíð spenntur. Hlakka til og það verður fínt að fá að sjá Godfrey í miðvarðarstöðunni. Og spurning hvort að Tosun takist að skora í dag… ?

    Ég spái Everton 2 Rotherham 0, Tosun með bæði.

    • Ari S skrifar:

      Ingvar, þsð væri fínt að fá eina spá frá þér til gamans 🙂

      Og gleðilegt nýtt ár.

  2. Eirikur skrifar:

    Afhverju er ekki hægt að spila á fullu og klára þetta í fyrri hálfleik.
    Staðin fyrir að komast í 1-0 og slaka á og hleypa þeim inn í leikinn 🙁

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Náði því miður ekki að sjá allan leikinn eða bara fyrsta og síðasta korterið í venjulegum leiktíma og framlenginguna.
    Og það sem ég sá heillaði mig alls ekki. Það skiptir auðvitað ekki máli hvort lið vinna með einu marki eða tíu í þessari keppni en Everton á að vera betra en það að þurfa framlengingu gegn liði úr B-deild eða neðar, sama þó það vanti fastamenn í liðið.
    Mér fannst liðið ömurlegt um daginn gegn West Ham og það var ekkert betra í dag og finnst mér eins og þessi neisti, sem liðið virtist hafa fundið í desember sé slokknaður. Vonandi finnur liðið annan neista sem lifir út maí en ég held að til þess þurfi tvö eða þrjá nýja leikmenn.

    • Ari S skrifar:

      Flott samt og jákvætt að sjá Rodriguez spila rúmlega 90 mínútur. Og var síðan tekinn útaf þegar hann hafði gefið stoðsendinguna í sigurmarkinu.

  4. þorri skrifar:

    sælir félagar er einhver stemmíng fyrir leiknum í kvöld ég bíð alla vega spentur