Newcastle – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Byrjunarlið Everton á móti Newcastle lítur ansi breytt út eftir fyrsta tapleik tímabilsins gegn Southampton í síðasta leik. Að hluta til vegna meiðsla og leikbanna en stóru fréttirnar þó þær að Pickford hefur misst sæti sitt í byrjunarliðinu og fáum við að sjá landsliðsmarkvörð Svía, Robin Olsen, í hans stað.

Í vörninni standa pligtina Nkounkou og Kenny fyrir Digne og Coleman. Iwobi er ekki heldur í byrjunarliðinu eftir startið í síðasta leik og Richarlison er í leikbanni. Í staðinn koma því Delph og Gylfi inn. Athygli vekur einnig að Tosun er orðinn nógu heill af sínum meiðslum til að taka stöðu á bekknum. Eitt stærsta skarðið er þó James Rodriguez, sem meiddist í síðasta leik en Gomes kemur inn í staðinn.

Það munar um minna að bæði Digne og Rodriguez eru frá, því þeir hafa undanfarið verið þeir sem skapa einna flest færi fyrir Everton, þannig að það er eins gott að nýta þau færi sem menn fá í þessum leik vel.

Uppstillingin: Olsen, Nkounkou, Keane, Mina, Kenny, Allan, Delph, Doucouré, Gomes, Gylfi (fyrirliði), Calvert-Lewin.

Varamenn: Pickford, Branthwaite, Iwobi, Bernard, Gordon, Simms, Tosun.

Everton mun meira með boltann í fyrri hálfleik (66%), en mjög lítið að gerast á heildina litið (hjá báðum liðum).

Það þurfti um hálftíma leik þangað til reyndi á markvörð og það var Everton megin þegar Olsen varði vel skot inni í teig eftir skyndisókn Newcastle. Besta og líklega eina almennilega færið í fyrri hálfleik.

Ekki mikið markvert sem gerðist þess utan. Everton aðallega í hálffærum en þetta var ekki að smella hjá þeim. Eitt skot frá Calvert-Lewin innan teigs en það var blokkerað.

Jafnteflislykt af þessu, allavega eftir fyrri hálfleik.

Sama uppi á teningnum í seinni hálfleik — lítið að gerast þangað til á 52. mínútu þegar Gomes gaf Newcastle víti. Ætlaði að hreinsa en sóknarmaður Newcastle kom aftan að honum og náði að planta sér á milli Gomes og bolta og Gomes sparkaði því aftan í hann. Alveg óvart en þeir skoruðu örugglega úr vítinu. 1-0.

Örskömmu síðar sýndi Olsen hvað hann getur þegar hann varði glæsilega af stuttu færi skot innan teigs.

Bernard kom svo inn á fyrir Gomes á 59. mínútu.

Gylfi skapaði fínt færi fyrir Calvert-Lewin með hárri aukaspyrnu inn í teig en skallinn frá Calvert-Lewin beint á markvörð Newcastle.

Ancelotti gerði tvær sóknarskiptingar í kjölfarið: Tosun inn á fyrir Nkounkou á 67. mínútu og Iwobi inn á fyrir Kenny stuttu síðar.

Gylfi átti skot utan teigs á 82. mínútu en markvörður varði. Newcastle menn svöruðu með hraðri sókn þar sem sóknarmaður þeirra komst inn fyrir Mina og inn í teig. Sendingin fyrir mark fór í lappirnar á Mina og þaðan í sveig yfir markvörð þar sem sóknarmaður lúrði á fjærstöng og potaði inn. 2-0. Smá heppnisstimpill á þessu, líkt og vítinu.

Gylfi átti skot utan teigs á 89. mínútu, en nokkuð yfir markið.

Calvert-Lewin náði að minnka muninn á 91. mínútu eftir sendingu utan af kanti frá Iwobi. Boltinn breytti stefnu af varnarmanni og Calvert-Lewin gerði vel að stýra boltanum í netið. Staðan orðin 2-1 en lítið eftir.

6 mínútum bætt við og Everton sótti án afláts í lokin. Skelltu meira að segja Olsen inn í teig Newcastle í hornspyrnu undir lok leiks, en allt kom fyrir ekki. Newcastle menn mörðu nauman sigur í dag.

Einkunnir Sky Sports: Olsen (7), Kenny (5), Mina (5), Keane (6), Nkounkou (5), Delph (5), Doucoure (6), Allan (7), Gomes (3), Gylfi (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Bernard (6), Tosun (5).

4 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var skárra en síðast en samt ömurlegt.
    Það er skelfilegt að sjá hvað liðið er bitlaust án Richarlison, James, Coleman og Digne.
    Tímabilið sem Gomes var á láni hjá okkur var hann frábær, hvað varð eiginlega um hann? Þessi Gomes er bara ekki sami leikmaður og það er óþolandi hvað hann er gjarn á að brjóta af sér á hættulegum stöðum.
    Pickford bara bekkjaður sem kom mér mjög á óvart en Olsen stóð sig mjög vel og ekki hægt að kenna honum um mörkin. Hann varði reyndar frábærlega tvisvar í leiknum og bjargaði okkur frá stærra tapi. Ég ætla að velja hann mann leiksins.

  2. Ari G skrifar:

    Aftur lélegur leikur hjá Everton. Sóknin var alveg bitlaus og furðulegt að enginn af alvöru vængmönnunumi væru í byrjunarliðinu. Hvar er Anthony Gordon örugglega besti kosturinn sem var ekkert notaður. Markvörðurinn var fínn miklu betri en Pickford furðulegt að hann sé orðinn strax þreyttur var sagt en er örugglega lýgi hann hefur verið mjög mistækur svo hann má vera á bekknum sem lengst mín vegna og vonandi verður hann seldur í janúar og Romero kemur í staðinn þá..

  3. Gestur skrifar:

    Gamla Everton liðið mætt aftur, maður veit ekki hvernig leikirnir enda. Þegar maður á von á sigri tapa þeir. Ég held að þetta sé ekkert að breytast, ef Gylfi er í liðinu eru 70% líkur á þeir tapi, er það í lagi?

  4. Eirikur skrifar:

    Verð að taka undir það sem Ingvar segir og eins Ari G nema að ég tel að aðalástæða markmanns skipta hafi verið það áreiti sem hefur verið á Pickford frá leiknum við LPool. Klárlega hefur það heldur ekki verið að vinna með honum framistaðan á köflum í haust.
    Enn mér fannst uppstillinginn á liðinu og uppleggið eins og það birtist mér í leiknum rangt. 3-5-2 hefði verið mun líklegra til árangurs og spila oftar löngum boltum staðinn fyrir að spila hægt á milli varnarmann hjá okkur og reyna að troða inn á miðjumenn með lítið sem ekkert pláss.
    Enn áfram gakk og vonandi fáum við þessa leikmenn inn sem fyrst sem að við söknuðum um helgina.