Southampton – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Sjötti deildarleikur Everton er gegn Southampton á útivelli nú á eftir (kl. 14:00) en með sigri getur Everton haldið þriggja stiga forskoti á toppi Úrvalsdeildarinnar!

Við fengum gleðifregnir í kjölfar leiks því James Rodriguez hefur náð að jafna sig af meiðslum sínum eftir að hafa verið sparkaður niður af van Dijk í síðasta leik og verður hann í byrjunarliðinu. Hann hefur átt þátt í svo mörgum mörkum Everton í upphafi móts að hann er að verða algjör lykilmaður í liðinu og því aldrei gott að vera án hans.

Ben Godfrey fær jafnframt sinn fyrsta leik í byrjunarliðinu eftir frábæra innkomu í derby leiknum en hann kemur inn vegna meiðsla hjá Coleman og spilar hægri bakvörð, líkt og í síðasta leik. Richarlison er í banni í þessum leik (og næstu tveimur) eftir rauða spjaldið gegn Liverpool en Alex Iwobi kemur inn fyrir hann. Gomes verður á bekknum í dag og þá skapast pláss fyrir Gylfa í byrjunarliðinu og tekur hann við fyrirliðabandinu.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Keane, Godfrey, Allan, Doucouré, Gylfi (fyrirliði), Iwobi, Calvert-Lewin.

Varamenn: Olsen, Nkounkou, Davies, Delph, Gomes, Bernard, Gordon.

Opinn og skemmtilegur leikur frá upphafi. Southampton með fyrsta færið á 12. mínútu og hefðu skorað ef sóknarmaður þeirra hefði hitt boltann almennilega.

Okkar maður, Gylfi, átti svo frábært skot rétt utan teigs á 18. mínútu, sem endaði í þverslá.

Southampton menn svöruðu aftur með tækifæri sem hefði endað með marki ef þeir hefðu bara hitt boltann. Við grátum það ekki.

En Adam var ekki lengi í Paradís, því Southampton settu tvö mörk í röð. Það fyrra flott stunga gengum vörnina og flott skot. Það seinna sókn upp vinstri kant og skot upp við fjærstöng. Ákveðinn heppnisstimpill á seinna markinu því Gylfi var næstum búinn að ná að skalla frá en tókst ekki. Fékk skotið svo í sig, sem breytti stefnu skotsins sem fór í netið. 2-0 fyrir heimamenn.

Everton átti að fá víti undir lok hálfleiks þegar varnarmaður Southampton einfaldlega hrinti James Rodriguez, sem var að komast framhjá honum inni í teig. 

Southampton menn yfir í hálfleik og það verður að viðurkenna að var verðskuldað. Everton liðið of hægt og of mikið af sendingum að fara forgörðum.

Bernard inn á fyrir Iwobi í hálfleik og meiri ákefð var í leik Everton í upphafi seinni hálfleiks. Eitthvað verið sagt inn í búningsklefa. En færin létu á sér standa og ákveðnin dvínaði eftir því sem á leið. Southampton menn klókir og drápu niður tempóið við hvert tækifæri, enda tveimur yfir.

Gordon og Delph var skipt inn á fyrir Gylfa og Doucouré á 57. mínútu. En á 71. mínútu hvarf sú litla von sem var eftir þegar Digne var rekinn af velli. Spjaldið fékk hann fyrir að stíga á hásinina á sóknarmanni Southampton þar sem hann hljóp á eftir honum. Þulurinn sannfærður um að það hafi verið óviljandi og það var það líklega, enda samræmist þetta ekki hans karakter, eins og við þekkjum hann. En rautt spjald er réttur dómur.

Stuttu síðar meiddist James Rodriguez, en ekki var hægt að skipta honum út af því Everton var búið með þrjár skiptingar. Everton þar með í raun tveimur færri það sem eftir lifði leiks. Game over. Southampton menn sigldu þessu í höfn og Everton átti engin svör í dag. Lélegasti leikur tímabilsins hjá Everton. Það eina góða við þetta að er að Everton er enn í efsta sæti eftir daginn.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Godfrey (5), Mina (6), Keane (6), Digne (4), Doucoure (5), Allan (5), Gylfi (5), Rodriguez (6), Calvert-Lewin (6), Iwobi (5). Varamenn: Delph (6), Bernard (6), Gordon (6).

7 Athugasemdir

  1. Erlingur hólm valdimarsson skrifar:

    Gylfi yfirburðarmaður þvílík yfirferð á honum

  2. Ari G skrifar:

    Hörmulegur leikur hjá Everton. Vill gleyma þessum leik sem fyrst. Enginn bestur. Eins gott að Everton sýni meira í næsta leik til að halda efsta sætinu lengur.

  3. Gunnþór skrifar:

    Ari G sammála.

  4. þorri skrifar:

    Mikið rétt ömurlegur leikur.Og er ekki sammála Erlingi Gylfi fanst mér ekki góður.Og vonandi gengur betur næst

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var hörmung á að horfa. Það var eins og menn væru í keppni um hver gæti verið lélegastur, keppni sem Iwobi sigraði með talsverðum yfirburðum. Ég vona að ég sjái hann aldrei svo mikið sem í hóp aftur, hann er hræðilegur.

  6. Eiríkur skrifar:

    Finnst frekar fúlt þegar við eigum okkar slakast leik á á tímabilinu að menn vilji koma hér og kommenta á það enn ekki þegar við höfum verið að gera góða hluti. Eins hvað menn voru hljóðir eftir derby leikinn þar sem grátkór poolara hraunaði yfir Everton og þóttust algjörir englar enn Everton væru grófustu leikmenn Englands og jafnvel víðar. Er það svo að menn bíði eftir því að liðinu gangi illa, því að menn þori ekki að hafa von um góðan árangur því að það muni klikka? Klárlega er markmið liðsins að vera á topp 6 þetta árið, allt annað er bónus.
    Áfram Everton.

  7. þorri skrifar:

    Sælir félagar ,Eiríkur flott skrifað hjá þér ,ég er sammála þér í því sem þú skifaðir.En nú kemur í ljós hvort breidinn hjá okkur sé í lagi,ég vona að menn hugsi jákvætt um liðið og standi með EVERTON.Komon við eru efstir ,Koma sv ÁFRAM EVERTON,við erum flottir og verðum flottir.Koma svo haldir félagar áfram að skrifa