Everton – West Ham 4-1

Mynd: Everton FC.

Everton lék í dag við West Ham í 16 liða úrslitum enska deildarbikarsins en þessi leikur reyndist 6. sigurleikur Everton í röð, af 6 mögulegum á tímabilinu!

Everton hafði tvisvar áður mætt West Ham í deildarbikarnum og farið áfram í bæði skiptin, fyrst tímabilið 1983-84 (eftir endurtekinn leik) en einnig í fjórðungsúrslitum tímabilið 2007-08.

West Ham menn báru sigurorð af Hull (5-1) í sínum fyrsta leik í þessari keppni og Charlton (3-0) í leik númer tvö. Sebastian Haller var markahæstur í deildarbikarnum fyrir þá, með fjögur mörk.

Nokkuð var um meiðsli og covid smit/sóttkví í herbúðum West Ham, en bakvörðurinn Ryan Fredericks meiddist á dögunum og Issa Diop (varnarmaður) og Josh Cullen (miðjumaður) eru báðir í sóttkví. Einnig lét David Moyes ekki sjá sig í kvöld en hann ku vera smitaður af Covid 19.

Uppstillingin: Pickford, Nkounkou, Digne (spilar sem miðvörður), Michael Keane, Kenny, Allan, Delph, Gylfi (fyrirliði), Rodriguez, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Lössl, Mina, Doucouré, Iwobi, Bernard, Coleman, Davies.

Sem sagt, nokkuð mikið af þungavigtarmönnum í liðinu — kannski meira en maður átti von á (svipað hjá West Ham). Sérstaklega átti maður kannski ekki von á að sjá James Rodriguez spila þennan leik, en við áhorfendur fengum að njóta þess.

Everton hafði ágæt tök á leiknum frá upphafi og héldu bolta vel. Virkuðu einbeittari. Eina færið til að byrja með var samt hjá West Ham, langskot eftir 6 mínútur, lágt niðri í vinstra horn, en Pickford varði vel.

En þá var komið að þætti Michael Keane sem lenti undir pressu frá sóknarmanni við miðlínu en sneri bara á hann, sá hlaup hjá Calvert-Lewin og sendi stoðsendingu fram sem gaf mark. Calvert-Lewin gerði mjög vel í að hlaupa á akkúrat réttum tíma upp völl, leggja boltann fyrir sig í fyrstu snertingu og sneiða boltann svo framhjá markverði. Það er einfaldlega allt að ganga upp hjá þessum leikmanni þessa dagana. 1-0!

Richarlison var mjög óheppinn að bæta ekki við marki á 20. mínútu eftir flott hlaup inn í teig og flott utanfótarskot sem markvörður varði glæsilega og voru West Ham menn heppnir að frákastið lenti ofan á markinu en ekki í markinu. Þar hefði staðan átt að vera 2-0.

Richarlison kom svo tuðrunni í netið á 21. mínútu eftir frábæra stoðsendingu frá Rodriguez en var réttilega dæmdur rangstæður.

West Ham menn virtust vakna aðeins við þetta og gerðu sig líklega til að ógna marki en færin létu á sér standa.

Jonjoe Kenny þurfti aðhlynningu á 41. mínútu eftir að hafa misstigið sig illa og fór að lokum út af fyrir Coleman, sem tók við fyrirliðabandinu af Gylfa. Vonandi ekkert alvarlegt.

Lanzini hjá West Ham var svo ekki langt frá því að jafna þegar hann náði að skalla fyrirgjöf rétt framhjá fjærstöng. Besta færi west ham í fyrri hálfleik og líklega eina almennilega færið þeirra.

1-0 í hálfleik.

West Ham menn nýttu sér sofandahátt Everton liðsins í blábyrjun seinni hálfleiks og settu jöfnunarmark í andlitið á okkar mönnum. Skot út við teigslínuna sem fór í sveig yfir Pickford og inn. 1-1.

Richarlison svaraði strax með skoti í stöng hinum megin en honum virtist á þeim tímapunkti einfaldlega ekki ætlað að skora í leiknum. 

Gylfi var ekki langt frá því að skora með flottu skoti innan teigs en aftur kom markvörður West Ham þeim til bjargar með frábærri vörslu.

Richarlison kom svo Everton aftur yfir á 55. mínútu þegar hann fékk boltann á vinstri kanti og fór með hann utan teigs samsíða marklínu, fann sér gott færi og þrumaði að marki. Markvörður fór í rétt horn til að verja en sem betur fer fór boltinn í bakið á Declan Rice og þaðan inn. Staðan orðin 2-1 fyrir Everton! 

Öllu verra var hins vegar að Richarlison þurfti að fara út af skömmu síðar. Tognaði líklega á ökkla en reyndi að halda áfram. Varð svo að fara út af. Vonandi bara varúðarráðstöfun. Það er einn leikur eftir fyrir landsleikjahléið.

Þriðja meiðslaskiptingin hjá Everton kom svo á 69. mínútu þegar Allan lenti í nárameiðslum. Doucouré inn á fyrir hann. Ekki heppnin með okkar mönnum sem auk þess kláruðu þar með skiptingarnar. Mjög líklegt að til dæmis Rodriguez og Calvert-Lewin áttu ekki að spila í 90 mínútur. En við vonum það besta hvað meiðslin varðar, að þetta sé allt minna en virtist.

West Ham menn gengu hins vegar á lagið og settu pressu á Everton. Það skilaði þeim þó ekki nema einu færi upp við mark sem þeir lúðruðu framhjá. 

Calvert-Lewin, hins vegar, bætti við þriðja markinu eftir skot frá Iwobi sem fór framhjá markverði og í stöng. Calvert-Lewin náði að fylgja vel á eftir skoraði í autt markið. 3-1 fyrir Everton! 

Og hann var alls ekki hættur, því hann gulltryggði sigurinn með því að klára þrennuna eftir frábæra stoðsendingu frá Gylfa gegnum vörnina. Calvert-Lewin einfaldlega getur ekki hætt að skora þessa dagana! 

West Ham menn áttu engin svör. Öruggur og sanngjarn 4-1 sigur staðreynd. Everton þar með í hattinum fyrir fjórðungsúrslit bikarsins en dregið verður á morgun (skilst mér).

Þess má líka geta að fyrr í dag náði kvennalið Everton að tryggja sér farseðilinn á Wembley til að spila til úrslita í FA bikarnum! Vel gert!

6 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Þessi lið eru eftir…

    Tottenham
    Newcastle United
    Man City
    Man Utd
    Brentford / Fulham
    Aston Villa / Stoke City
    Liverpool / Arsenal

    Einhverjir óskamótherjar að ykkar mati?

    • Ari S skrifar:

      Flottast væri að Manchester liðin myndu mætast í næstu umferð. Finnst mér. Ég væri til í að fá Brentford/Fulham… Kv. Ari

  2. Ari S skrifar:

    Frábært að ná 6. sigrinum í röð og nokkuð ljóst að Dominic Cakvert-Levein verður valinn í enska kandsliðip. Eða það vona ég allavega 🙂

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var aldrei í hættu. Vonandi eru meiðsli Allan, Kenny og Richarlison ekki alvarleg.

  4. Halli skrifar:

    Neecastle heima?

  5. Finnur skrifar:

    Mér varð ekki að ósk minni að fá leik við Liverpool — þó ekki væri nema á Anfield. En við fáum Man United í heimsókn í staðinn… Í heild sinni lítur drátturinn svona út…

    Everton – Man United
    Arsenal – Man City
    Brentford – Newcastle
    Stoke – Tottenham

    Svo er rétt að geta þess að það lítur úr fyrir að Everton sé að kaupa miðvörð… 🙂
    http://everton.is/2020/10/01/felagaskiptaglugginn-sumar-2020