Everton – West Brom 5-2

Mynd: Everton FC.

Annar leikur tímabilsins var gegn West Brom, sem lentu í öðru sæti á síðasta tímabili í Championship deildinni og fylgdu því meisturum Leeds United upp í Úrvalsdeildina. Fyrsti leikur West Brom á tímabilinu var 3-0 tap á móti Leicester á heimavelli þannig að þeir mættu einbeittir til leiks.

Uppstilling Everton var algjörlega óbreytt frá sigrinum í upphafsleik tímabilsins, gegn Tottenham á útivelli. Aðeins ein breyting á varamannabekknum, en Iwobi kom þar inn fyrir Walcott.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Keane, Coleman (fyrirliði), Allan, Gomes, Doucoure, Rodriguez, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virgínia, Jonjoe Kenny, Gylfi, Iwobi, Bernard, Davies, Moise Kean.

Calvert-Lewin fékk dauðafæri á fyrstu mínútunum, skalli mjög nálægt marki en skallaði rétt framhjá. Hefði átt að gera betur þar.

Everton virkuðu einbeittir frá upphafi og settu góða pressu á vörn West Brom en það getur komið manni í koll líka, því West Brom menn náðu að komast í skyndisókn á 10. mínútu þar sem vinstri kantmaður þeirra, Diangana, fékk að komast nær og nær teig óáreittur (Mina stöðugt að bakka fyrir framan hann) þangað til Diangana komst í skotfæri og negldi boltanum í hornið niðri hægra megin. 0-1 fyrir West Brom.

Í kjölfarið leit þetta ekki mjög vel út til að byrja með, því sjálfstraust Everton hvarf við að lenda undir og flæðið minnkaði. West Brom menn fullir sjálfstraust hins vegar. Ekki hjálpaði til þegar sjónvarpsstöðin rifjaði upp að frá 2017 hefur Everton aðeins unnið einn leik eftir að hafa lent undir! 

Calvert-Lewin fékk óvænt færi upp við mark þegar varnarmaður West Brom einfaldlega bara gaf á hann en Dom var í erfiðri stöðu og þurfti að snúa sér í hálfhring til að ná skoti, sem hann og gerði. Boltinn hins vegar í varnarmann og þaðan í horn. Allan átti svo skot af löngu færi stuttu síðar en West Brom menn svöruðu með langskoti í næstu sókn. Niðurstaðan sú sama báðum megin: markvörður varði, en Pickford þurfti að hafa aðeins meira fyrir því en kollegi hans hinum megin.

Livermoore hjá West Brom fékk upplagt skotfæri inni í teig áður en Mina náði til hans, lagði fyrir sig boltann og skaut í utanverða stöng. Þar hefðu West Brom menn getað verið komnir tveimur mörkum yfir.

En á 30. mínútu skoraði Calvert-Lewin mark. Hár bolti kom inn fyrir vörnina inn í teig vinstra megin og Richarlison tapaði þar skallaeinvígi við varnarmann West Brom, en við það fór boltinn í hausinn á varnarmanninum og barst þaðan til Calvert-Lewin, sem kom úr rangstöðu og náði hælspyrnu inn fyrir marklínu. VAR tók sér langan tíma í að komast að réttri niðurstöðu og markið stóð, enda varnarmaður sem sendi á Calvert-Lewin en ekki Richarlison eins og virtist í fyrstu. Calvert-Lewin þar með búinn að skora í tveimur leikjum í röð og staðan orðin 1-1! VAR að virka eins og ætlast var til.

Við þurftum að bíða þangað til rétt undir lok leiks fram að næsta færi og það skapaði Richarlison fyrir James Rodriguez með því að dribbla framhjá varnarmanni og senda á James, sem var fyrir utan teig nálægt D-inu. Hann átti ágætis fyrstu snertingu, lagði boltann svo fyrir vinstri fótinn og þrumaði boltanum framhjá tveimur varnarmönnum og markverði. 2-1 fyrir Everton!

West Brom menn töpuðu kúlinu algjörlega við þetta og örskömmu síðar fékk vinstri bakvörður þeirra að fjúka út af fyrir að ganga að James Rodriguez og kýla hann!! Beint rautt spjald fyrir violent conduct — þurfti ekki einu sinni VAR til að fara yfir það. Algjörlega rétt ákvörðun.

Stuttu síðar var flautað til hálfleiks og Slaven Bilic, stjóri West Brom alveg brjálaður út í dómarann, hljóp inn á völlinn og reifst og skammaðist. Dómarinn ekki í stuði fyrir það heldur sýndi honum beint rautt spjald. Ég hefði líklega gefið honum gult frekar en rautt, en við grátum það spjaldið.

2-1 fyrir Everton í hálfleik.

West Brom menn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og fengu aukaspyrnu á hættulegum stað. Costa Pereira tók þá spyrnu fyrir West Brom og algjörlega smellhitti boltann — yfir varnarmúrinn og fór í netið alveg út við stöng hægra megin. Óverjandi fyrir Pickford. Mina hefði þó líklega getað stoppað skotið ef hann hefði hoppað.

En Everton komst aftur yfir á 52. mínútu eftir aukaspyrnu frá Digne, sem Richarlison náði að skalla frábærlega á mark. Markvörður þurfti að kasta sér niður til að verja og boltinn barst þá til Michael Keane sem þurfti bara að pota inn. Annar leikurinn í röð sem Keane skorar í en hann skoraði líka í deildarbikarnum á miðvikudaginn. Staðan orðin 3-2 fyrir Everton!

James Rodriguez skapaði frábært færi á 62. mínútu þegar hann sá hlaupið hjá Richarlison gegnum vörnina og vippaði yfir á hann. Richarlison náði skot að marki, framhjá markverði, og Calvert-Lewin mætti á fjærstöng og sá til þess að boltinn endaði í netinu. 4-2 fyrir Everton!

Doucoure fór út af fyrir Gylfa á 64. mínútu, akkúrat þegar Everton átti aukaspyrnu. Það hefði verið gaman að sjá Gylfa fara beint inn á og skora en Digne tók spyrnuna — frábær spyrna sem markvörður varði í slána og út af. En upp úr horninu kom þrennan hjá Calvert-Lewin þegar hann reyndi að skalla fyrirgjöfina úr horninu en fékk boltann í bakið og þaðan fór hann inn. Allt að ganga hjá honum! Ekki fallegasta markið en það telur jafn mikið. 🙂 5-2!

Iwobi var svo skipt inn á fyrir Calvert-Lewin á 70. mínútu enda dagsverki þess síðarnefnda lokið og gott betur. Iwobi þar með á vinstri kanti og Richarlison fór upp á toppinn.

Richarlison skoraði frábært mark eftir flott hlaup inn fyrir vörnina og fékk sendingu frá Gylfa. Þrumaði boltanum í samskeytin vinstra megin en því miður dæmdur rangstæður því hann hafði byrjað hlaupið örlítið of snemma.

James Rodriguez var svo skipt út af fyrir Moise Kean á 77. mínútu. Þulirnir sögðu við það tilefni: „Hver segir að Úrvalsdeildin sé erfið?! James Rodriguez lætur þetta líta út fyrir að vera auðvelt!“

Digne og Richarlison náðu vel saman rétt fyrir lok venjulegs leiktíma en Richarlison, nálægt marki, náði að skalla en ekki að stýra boltanum á mark eftir flotta sendingu fyrir mark. Þar hefði sjötta markið getað litið dagsins ljós en 5-2 lokastaðan.

Calvert-Lewin valinn maður leiksins en James Rodriguez ekki langt undan, sögðu þulirnir.

Everton þar með á toppinn á Úrvalsdeildinni en sjáum hvar það endar þegar hin liðin hafa klárað sína leiki.

6 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Eftir frammistöðu liðsins í síðasta leik þá er maður frekar bjartsýnn fyrir þennan leik. Það væri því alveg týpískt fyrir Everton að kippa manni harkalega niður á jörðina með tapi eða jafntefli í dag.

  2. Ari G skrifar:

    Góður leikur hjá Everton samt frekar óöruggir í fyrri hluta fyrri hálfleiks. Vonandi sér maður Iwobi aldrei framar í búningi Everton vonlaus leikmaður. Þurfum auðvitað alvöru varnarmann með Michael Keane og Holgate Teri Mina er frekar brothættur gaf fyrsta markið. James R er snillingur en auðvitað er Lewin maður leiksins besti sóknarmaður Englendinga í dag að mínu mati. Gylfi kom flottur inn átti fullt af flottum sendingum megum alls ekki missa hann.

  3. Eirikur Einarsson skrifar:

    Komnir á toppinn og þrír auðveldir leikir framundan, Crystal Palace, Brighton og Liverpool. Þetta lítur vel út!

  4. Gunnþór skrifar:

    Bæði mörkin hjá wba skrifast á mina og kallast lélegur varnarleikur, en flott 3 stig vorum ekki eins sannfærandi og á móti spurs sérstaklega í fyrri hálfleik.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Frábær sigur en mér fannst menn frekar værukærir svona fyrsta korterið eða svo og varnarleikurinn hjá Mina í fyrra markinu ömurlegur.
    Ég held að við verðum að fá annan miðvörð sem setur pressu á hina, ekki einhvern sem kemur bara til að vera varaskeifa. Eftir að við komumst yfir í 3-2, þá var aldrei spurning um úrslitin.

  6. Finnur skrifar:

    Mina átti sinn lélegasta leik sem ég hef séð hann spila fyrir félagið og átti fleiri (rangar) staðsetningar og ákvarðanir sem hefðu getað gefið WBA mark/mörk. En menn eiga góða og slæma tíma og ekki rétt að afskrifa hann — hann fær fleiri tækifæri á að sýna hvað í honum býr, sérstaklega þar sem Holgate er meiddur.

    Í öðrum fréttum er það annars helst að James Rodriguez og Calvert-Lewin eru í liði vikunnar að mati BBC, annan deildarleikinn í röð.
    https://www.bbc.com/sport/football/54239232

    Spurning hvort þeir séu komnir í áskrift? 🙂