Everton – Salford City 3-0

Mynd: Everton FC.

Everton á leik í annarri umferð enska deildarbikarsins á heimavelli í dag klukkan 19:15. Leikið verður gegn Salford City, sem stofnað var árið 1940 (og hét þá Salford Central) en það er einna frægast fyrir tengingu sína við United mennina Giggs, Scholes, Butt, Beckham og Neville bræðurna, sem eignuðust meirihluta í félaginu fyrir nokkrum árum síðan. Salford City eru sem stendur í ensku D deildinni og voru um miðja deild (11. sæti) þegar fótboltinn var flautaður af í Bretlandi vegna Covid. Fyrsti leikur þeirra á þessu tímabili endaði með 2-2 jafntefli á heimavelli við Exeter.

Carlo Ancelotti gerir 10 breytingar á byrjunarliði sínu frá sigurleiknum gegn Tottenham en aðeins Michael Keane heldur stöðu sinni. Stórskotalið á bekknum.

Uppstillingin: Virginía, Nkounkou, Branthwaite, Michael Keane, Kenny, Gordon, Davies, Gylfi, Walcott, Bernard, Moise Kean.

Varamenn: Pickford, Digne, Coleman, Allan, Doucoure, Richarlison, Calvert-Lewin.

Everton stjórnaði þessum leik frá upphafi, eins og við var að búast. Náðu að setja fljótt ágætis pressu á Salford og skora strax á 8. mínútu. Markið kom eftir frábæra hornspyrnu frá Gylfa, beint á pönnuna á Michael Keane sem stökk hæst með tvo í sér og skallaði inn.

Markið drap svolítið leikinn og pressan farin af (og hjá) Everton og lítið að gerast á meðan hjá Salford. Virkuðu nokkrum númerum of litlir fyrir þennan leik, sem þulurinn sagði að væri líklega stærsti leikur sem þeir hefðu spilað. 

Það helsta markverða framan af eftir þetta var þegar ungliðinn Branthwaite þurfti svo að fara út af vegna meiðsla á 23. mínútu og Digne tók þar með við miðvarðarstöðunni af Branthwaite.
Keane fékk annað skallafæri eftir horn á 39. mínútu en í þetta skiptið var hann í górillugripi varnarmanns allan tímann – líka í miðjum skalla en dómarinn lét það óátalið. Allan tímann víti en dómarinn verið linur í upplagi sínu á leiknum frá upphafi (og hallaði þar á bæði lið). 

Bernard var hársbreidd frá því að skora á 42. mínútu þegar hann átti flott skot utan teigs sem markvörður rétt náði að slengja fingri í og verja. 

1-0 í hálfleik.

Moise Kean fékk dauðafæri upp við mark á 49. mínútu eftir frábæra háa sendingu frá Gylfa. Fékk frían skalla af stuttu færi við fjærstöng en setti boltann í slána og út. Mjög óheppinn að skora ekki.

Bernard sömuleiðis þegar hann fékk boltann óvænt inni í teig en utanfótar skot frá honum fór rétt framhjá nærstöng vinstra megin.

Gylfi skipti um stöðu við Davies, sem hafði verið fremri í miðri miðju Everton fram að því, og hann (Gylfi) beið ekki boðanna heldur var næstum búinn að setja Moise Kean í færi strax og skoraði svo sjálfur flott mark skömmu síðar eftir flottan undirbúning frá Gordon. 2-0 fyrir Everton. Gylfi þar með kominn með stoðsendingu og mark.

Walcott átti svo fast skot af stuttu færi en markvörður varði glæsilega í horn.

Gylfi náði á 84. mínútu að klobba Darron Gibson í skoti utan teigs en skotið endaði í utanverðri stönginni.

Gordon fékk svo vítaspyrnu á 86. mínútu, stuttu eftir að hafa sjálfur skotið í stöng. Gylfi leyfði Moise Kean að taka vítið og sá skoraði örugglega. 3-0 fyrir Everton!

Tvisvar í kjölfarið bjargaði tréverkið Salford mönnum – ótrúlegt að staðan hafi verið bara 3-0 á þeim tímapunkti. En þannig endaði þetta víst. Salford aðeins með eitt skot á rammann í öllum leiknum, skot utan teigs í fyrri en auðveldlega varið. Everton óð í færum og hefði getað unnið mjög stórt.

Gylfi var valin maður leiksins í útsendingunni í lok leiks og var það verðskuldað. Fín frammistaða hjá öllu liðinu í raun.

Búið að draga í næstu umferð og Everton mætir Fleetwood Mac.

3 Athugasemdir

  1. þorri skrifar:

    Góður sigur hjá okkar mönnum,og bara með b lið en góður leikur og örugur allan tíman og svo er hágegis leikur á laugardaginn og taka hann líka .KOMA SVO ÁFRAM EVERTON

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Mér fannst okkar menn langt frá því að vera sannfærandi í kvöld á meðan staðan var bara 1-0. Eftir annað markið fannst mér koma meira öryggi yfir liðið, spilið gekk mun betur og aldrei spurning um úrslitin.
    Mér fannst Gordon virkilega góður í leiknum og Gylfi líka, sérstaklega síðasta hálftímann eða svo. Nkounkou var líka mjög góður og virðist vera mjög góð kaup.
    Ég held samt að enginn nema Keane og kannski Gylfi geti búist við að vera í byrjunarliði á laugardaginn.

    • Ari S skrifar:

      Everton átti 32 skot í þessum leik. Byrjuðu leikin afar vel, skoruðu fyrsta markið á 8. mínútu og höfðu á 20. mínútu þegar átt 8 skot.

      Hinsvegar sofnuðu þeir á verðinum og áttu aðeins 7 skot þangað til á 70. mínútu.

      Síðustu 20 mínúturnar vöknuðu þeir til lífsins, skoruðu 2 mörk á áttu 17 skot.

      Þessi tölfræði sem ég rakst á, á netinu stemmir alveg við það sem þú segir Ingvar. Liðið var gott fyrstu 20 og síðustu 20 en þar á milli virkukðu þeir hálfsofandi.

      Kær kveðja, Ari