Everton – Preston 2-0

Mynd: Everton FC.

Síðasti leikur undirbúningstímabilsins er gegn Preston North End kl. 14:00 í dag.

Uppstillingin: Harry Tyrer, Nkounkou, Holgate, Gibson, Kenny, Gordon, Bernard, Gylfi, Walcott, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Hansen, Baningeme, Bolasie, Adeniran, John, Simms.

Ekki viss hvernig uppstilling þetta er, líklega þó ekki hin hefðbundna 4-4-2 en ég ætla að skjóta á að þetta sé 4-3-3 með Gordon, Richarlison og Calvert-Lewin í framlínunni.

Það eru ansi margir leikmenn fjarverandi vegna verkefna með landsliðum sínum eins og sést kannski glögglega á uppstillingunni en 19 ára gutti er í markinu og Holgate sá eini í vörninni sem hefur verið í aðalliðinu. Rétt svo að maður geti giskað á stöður helmings varamannanna á bekknum.

Gylfi var hársbreidd frá því að skora strax á upphafsmínútunum þegar vinstrifótar skot hans breytti um stefnu af varnarmanni og markvörður þurfti að hafa sig allan við að verja eftir að hafa verið lagður af stað í hitt hornið.

En Jonjoe Kenny náði að koma Everton yfir á 8. mínútu þegar hann hálfpartinn lenti í samstuði að mér sýndist við markvörð og varnarmann en náði að pota boltanum framhjá þeim og í netið. 

Richarlison og Bernard áttu í kjölfarið báðir skot að marki, það fyrra varið en það seinna rétt framhjá stönginni.

Besta færi Preston kom þegar nokkuð var liðið á hálfleikinn, þegar sóknarmaður þeirra komst inn fyrir bakvörðinn og inn í teig en guttinn í markinu sá við honum.

1-0 í hálfleik.

Walcott fékk upplagt tækifæri til að skora þegar hann fékk háa sendingu inn í teig og náði flottum skalla en rétt yfir slána.

Stuttu síðar átti Anthony Gordon skot innan teigs sem markvörður þurfti að verja með fætinum.

En á 65. mínútu náði Everton að bæta við marki eftir góðan undirbúning frá Bernard sem sendi flotta sendingu yfir á vinstri kant á Richarlison sem hljóp inn í teig og sendi fyrir mark á Calvert-Lewin sem þurfti bara að pota inn. 2-0 fyrir Everton.

Bolasie, sem hafði komið inn á sem varamaður fyrr í leiknum, fékk tvö góð færi á um 86. mínútu, það fyrra algjört dauðafæri upp við mark en hann náði ekki að stýra boltanum í netið. Í seinna færinu komst hann inn fyrir hægra megin en markvörðurinn náði að verja fast skot frá honum.

2-0 niðurstaðan.

Verðskuldaður sigur sem hefði getað verið stærri, þrátt fyrir að verið væri að spila með ansi marga ungliða og menn sem eru á jaðrinum. Deildin hefst svo um næstu helgi á leik við Tottenham.

Comments are closed.