Everton – Aston Villa 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Aston Villa í þriðja síðasta leik tímabilsins á heimavelli kl. 17:00. Villa menn eru í bullandi fallbaráttu í næst neðsta sæti og verða að vinna þennan leik til að eiga raunhæfa möguleika á að bjarga sér frá falli. Tímabili Everton er hins vegar nánast lokið og bara spurning hvort liðið geti klifrað upp eitt sæti eða svo í viðbót. Þetta verður því eitthvað…

Uppstillingin: Pickford, Digne, Michael Keane, Holgate, Coleman (fyrirliði), Bernard, Davies, Gomes, Iwobi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Virgínia, Baines, Gylfi, Walcott, Sidibé, Gordon, Moise Kean, Branthwaite.

Sem sagt, Holgate og Gomes orðnir góðir af sínum meiðslum og koma beint inn í liðið, sem þýðir að Ancelotti gerir samtals fimm breytingar, en Baines, Mina, Gylfi, Gordon og Walcott taka sér sæti á bekknum eftir síðasta leik.

Allt annað að sjá til Everton í þessum leik miðað við síðasta. Liðið byrjaði leikinn vel, héldu bolta lengi og voru sífellt að leita að færum. Fengu tvö hálffæri, eitt strax á fyrstu mínútu (hjólhestaspyrna frá Calvert-Lewin nokkuð hátt yfir) og hálfgerður skalli frá Calvet-Lewin (fór í varnarmann og þaðan í hausinn á Calvert-Lewin) en boltinn einnig yfir mark.

Á 15. mínútu var Holgate skipt út af meiddur og kjúklingurinn Branthwaite kom inn á fyrir hann. Sá hafði varla verið inni á í tvær mínútur þegar Tyrone Mings hafði náð að setjast á hausinn á honum þar sem hann lá í grasinu eftir samstuð… Hann harkaði það af sér og átti fínan leik í vörninni.

Í kjölfarið lifnaði nokkuð yfir leiknum og boltinn barst svolítið markanna á milli. Everton þó með yfirhöndina alveg þangað til undir lok fyrri hálfleiks. Iwobi komst í ágætis skotfæri utan teigs eftir um hálftíma leik en skaut yfir slána. Grealish svaraði fyrir Villa menn með skoti sem endaði einnig yfir, en hafði fyrst viðkomu í Branthwaite.

Digne kom sér í frábært færi eftir flott hlaup og samspil við Gomes en varnarmaður rétt náði að blokkera skotið á mark. Líklega besta færi fyrri hálfleiks.

0-0 í hálfleik.

Aston Villa byrjaði seinni hálfleik af nokkrum krafti en það var Everton liðið sem átti betri færi. Iwobi fór illa með vinstri bakvörð Villa og sendi geggjaðan háan bolta fyrir mark sem fann því miður ekki hausinn á Calvert-Lewin.

Tvöföld skipting á 62. mínútu: Gordon og Walcott inn á fyrir Bernard og Iwobi.

Á 72. mínútu fengu Villa menn mjög ódýra aukaspyrnu úti á kanti hægra megin, þegar sóknarmaður þeirra sparkar aftan í ökklann á Gomes. Boltinn hár á fjærstöng úr aukaspyrnunni og sóknarmaður þeirra náði að stýra boltanum á mark og skora. 0-1 fyrir Aston Villa sem tóku þar með stórt skref í að sleppa við fall. Ancelotti brást við með því að skipta inn á Gylfa og Moise Kean fyrir Richarlison og Davies.

Villa menn voru hársbreidd frá því að bæta við marki á 79. mínútu en sóknarmaður þeirra setti boltann yfir mark af point blank range eftir geggjaða fyrirgjöf frá Jack Grealish.

En Villa menn voru fyrir leik með verstu tölfræðina hvað varðar mörk á síðasta korterinu og það batnaði ekki í dag. 

Calvert-Lewin fékk algjört dauðafæri upp við mark eftir frábæran undirbúning frá Gomes, sem dansaði framhjá varnarmanni Villa, en skotið frá Calvert-Lewin rétt framhjá stönginni. Ótrúlegt að hann skyldi ekki skora.

En Walcott náði loks að koma boltanum yfir línu með skalla. Það leit út fyrir að varnarmaður Villa hefði bjargað á línu með hálfgerðri hjólhestaspyrnu en hann náði ekki góðri snertingu og boltinn snerist inn fyrir línu. Jafnt: 1-1.

Everton stjórnaði leiknum eftir það og komust nær því að skora sigurmarkið en það hafðist ekki. 1-1 jafntefli því niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Digne (7), Coleman (6), Holgate (6), Keane (7), Davies (5), Gomes (5), Bernard (5), Iwobi (5), Richarlison (5), Calvert-Lewin (5). Varamenn: Gylfi (6), Walcott (7), Kean (6), Branthwaite (7), Gordon (6).

14 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Uppstillingin 4 1 2. Við töpum þessu 0-1.

    • Ari S skrifar:

      Við töpum meira en 0-1 ef við spilum bara með 8 leikmenn. 4-1-2 + Pickford

      • Ingvar Bæringsson skrifar:

        Það sem ég átti við var einfaldlega að þessir fjórir á miðjunni hjá okkur eru á við einn.

        • Diddi skrifar:

          Ingvar ég fattaði það strax 😂

        • Ari S skrifar:

          Já þú ert að meina, Bernard, Davies, Gomes og Iwobi sem að byrjuðu leikinn? Haha góður að redda þér. 🙂

  2. Ari S skrifar:

    Branthwaite kemur vel út og búinn að vera í aksjóni hvað eftir annað.

  3. Finnur skrifar:

    Hananú?! Everton að spila og það er fyrrum Everton leikmaður að greina leikinn í hálfleik á stöðinni sem ég er að horfa á!!?? Ég sé lógógið hjá Sky Sports niðri í horninu en ég held að augu mín séu að svíkja mig þar… Þetta getur bara þýtt eitt: Allir fyrrum Liverpool leikmennirnir sem vinna fyrir Sky Sports eru með flensu.

    • Finnur skrifar:

      Svo fatta ég náttúrulega þegar ég hugsa um það að það er fyrrum Liverpool leikmaður að lýsa Everton leiknum. En, allavega framför að þeir eru ekki í báðum hlutverkum…

  4. Gestur skrifar:

    Þetta er alveg bitlaust hjá Everton, 60 mínútur búnar gegn næst neðsta liðinu og þeir hafa ekki á skot á markið. Til hvers er maður að eyða tíma í að horfa?

  5. Ari S skrifar:

    Vel gert Theo Walcott. 1-1.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Aumingja Carlo. Ég vorkenni honum meir og meir með hverjum leiknum sem líður. Kæmi mér ekki á óvart ef hann segði upp.

    • Ari S skrifar:

      Engar áhyggjur Ingvar minn, Carlo Ancelotti kom til Everton 21. desember 2019. Á sama tíma er Coronavírusinn byrjaður að grassera í Kína. Ancelotti hefur verið hjá okkur í tæpa 8 mánuði og fyrsti alvöru „glugginn“ hans með Everton er framundan. Byrjar eftir nokkra daga. Enginn séns að hann sé að hætta segi ég. Láttu það ekki koma þér á óvart þó hann verði ennþá með okkur eftir 3 ár, jafnvel 5 ár. Kær kveðja, Ari.

  7. Ari G skrifar:

    Finnst Everton áfram mjög bitlausir. Þessi frammistaða er varla boðleg þótt hún hafi verið betri en leiknum á móti Wolves. Eini munurinn í þessum 2 leikjum er mun betri varnarvinna. En miðjan guð hjálpi okkur algjörlega vitlaus og ég skil ekki af hverju Ancelotte setur Tom Davids og Iwobi báða á bekkinn leigja út Davids og selja Iwobi. Finnst gagnrýni á Gylfa frekar ósanngjörn liðið mun betra þegar hann kom inná mun betra flæði en hann er því miður frekar hægur en duglegur. Já nýi 18 ára guttinn er greinilega mikið efni vel hann mann leiksins reynslulaus og gera varla mistök í leiknum og endalaus bárátta í honum. Vill að Gordon, Gylfi og Kean byrji næsta leik. Henda Davids, Bennard og Iwobi á bekkinn í staðinn.

    • Diddi skrifar:

      „betri varnarvinna“ gæti verið að sé vegna þess að vörnin virki betri á móti fallliði Aston Villa en á móti flottu liði Úlfanna?