Everton – Liverpool 0-0

Mynd: Everton FC.

Fyrsti leikur Everton eftir Covid19 fárið var leikinn í dag kl. 18:00. Þessi leikur var fyrsti leikurinn sem Everton leikur í Úrvalsdeildinni án áhorfenda og virkaði svolítið eins og æfingaleikur á upphitunartímabili.

Everton á enn möguleika á Evrópusæti og var fyrir leik aðeins nokkrum stigum frá því. Ljóst er að væntingar til liðsins fyrir þennan leik voru mjög litlar, enda leikið án áhorfenda sem gerir þetta pínulítið eins og að leika á hlutlausum velli en einnig hefur nokkuð hefur verið um meiðsli í herbúðum Everton í aðdragandi leiks (Mina, Delph, Walcott og Tosun).

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Holgate, Coleman, Iwobi, Davies, André Gomes, Gordon, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Martina, Gylfi, Bernard, Kean, Virginia, Branthwaite, Baningime.

Ansi margir kjúklingar á bekknum…

Ritari missti af fyrri hálfleik en ekkert mark var skorað. Þulurinn orðaði það svo að Liverpool hefði verið meira með boltann en Richarlison hefði áttt besta færi fyrri hálfleiks.

Liverpool byrjuðu seinni hálfleik af nokkrum krafti og settu pressu á Everton, án þess þó að skapa sér nein markverð færi allan hálfleikinn því Everton vörðust vel og beittu skyndisóknum.

Ancelotti skipti Gylfa inn á fyrir Anthony Gordon á 60. mínútu til að stokka þetta aðeins upp og það bar næstum árangur stax. Everton fékk nefnilega færi strax í kjölfarið þegar Gylfi gaf fram á Gómes, sem sá hlaupið hjá Richarlison og sendi í hlaupalínu hans. Richarlison komst þannig einn upp að marki í ágætis færi hægra megin en náði ekki stjórn á boltanum og setti hann yfir úr ágætis færi.

Calvert-Lewin átti svo glæsilegt hlaup upp miðjan völlinn á 78. mínútu sem miðjumaður Everton (Gylfi?) tók eftir og opnaði vörn Liverpool upp á gátt með því að senda Calvert-Lewin einan inn fyrir. Calvert-Lewin átti ekki í neinum vandræðum með að setja boltann framhjá Allison og í netið en hafði byrjað hlaupið örlítið of snemma og var því dæmdur rangstæður.

Everton fékk frábært færi eftir hornspyrnu þar sem Holgate framlengdi boltann á fjærstöng þar sem Calvert-Lewin var mættur en hann skallaði framhjá.

Ancelotti setti Bernard inn á fyrir Iwobi á 88. mínútu og Moise Kean inn á fyrir Calvert-Lewin í blálokin (á 93. mínútu).

En í millitíðinni hafði Everton fengið tvö afar góð tækifæri til að taka þrjú stig úr leiknum þegar Tom Davies átti skot í stöng á 80. mínútu. Óheppinn að skora ekki og Allison varði einnig vel skot frá Richarlison á 82. mínútu. Færi eins og þessi tvö verður einfaldlega að klára. Man eiginlega ekki eftir neinu almennilegu færi frá Liverpool í seinni hálfleik.

0-0 reyndist því niðurstaðan úr leiknum. Liverpool menn sluppu með skrekkinn í þetta sinn og voru örugglega fegnir að taka eitt stig úr þessari viðureign. Þeir voru meira með boltann en algjörlega bitlausir í seinni hálfleik og virkuðu þreyttir undir lokin. City mulningsvélin er hins vegar kominn í fullan gang eftir Covid, á meðan Liverpool vélin er, til samanburðar, ennþá hikstandi.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (8), Keane (7), Holgate (7), Digne (6), Gomes (6), Davies (7), Gordon (6), Iwobi (5), Calvert-Lewin (6), Richarlison (7). Varamenn: Gylfi (6).

Seamus Coleman var valinn maður leiksins.

6 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Startið er svona

    Pickford
    Coleman
    Keane
    Holgate
    Digne
    Gordon
    Gomes
    Davies
    Iwobi
    Richarlison
    Calver-lewin

    Ekkert pláss fyrir okkar mann nema á bekknum sem er þar ásamt 2 markmönnum sem mér finnst mjög undarlegt og einnig að það er enginn miðvörður þar

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Allt í lagi fyrri hálfleikur en Keane er ekki að fylla mann neinni öryggistilfinningu í vörninni, sérstaklega ekki þegar þeim dettur í hug að spila út úr vörninni. Iwobi sagði víst í einhverju viðtali um daginn að hann þyrfti að fara að standa undir væntingum. Ég verð að segja að hann hefur algjörlega staðist mínar væntingar síðan hann kom því þær voru engar. Skelfilega lélegur leikmaður.
    Sammála þér Halli, skrýtið að hafa tvo markmenn á bekknum.

  3. Ari S skrifar:

    Sáttur við jafnteflið á móti tilvonandi meisturum. Færin voru jafn mörg á bæði lið skilst mér. Enginn heillaði mig í okkar liði nema kannski Richarlison sem að var sprækur. Gaman að sjá Gordon eiga sinn fyrsta byrjunarleik, framtíðarleikmaður þarna á ferðinni.

    Gylfi átti ágætis sendingu stuttu eftir að hann kom inná… sendingu sem hefði getað endað með marki en sóknarmaðurinn var réttilega dæmdur rangstæður.

    Allavega þá þykir mér gott að menn hafi ákveðið að klára tímabilið.

    Kær kveðja, Ari.

  4. Ari S skrifar:

    „Calvert-Lewin átti glæsilegt hlaup upp völlinn á 78. mínútu sem miðjumaður Everton tók eftir og sendi hann einan inn fyrir og Calvert-Lewin setten Calvert-Lewin hafði byrjað hlaupið örlítið of snemma og var dæmdur rangstæður.“

    Umrædur miðjumaður, var þetta ekki Gylfi?

  5. Ari G skrifar:

    Frekar daufur leikur en Everton fékk samt miklu betri færi. Vonandi verður Gylfi í byrjunarliðinu í næsta leik. Iwobi er alveg vonlaus leikmaður mundi vilja selja hann í sumar. Efast um að Everton eyði miklu í sumar en Everton verður samt alltaf að kaupa hægri vængmann finnst það algjör forgangur. Vonandi verður M. Keane ekki seldur hef mikla trú á honum villl frekar selja Cent Tosun. Annars finnst mér allt í lagi að nota meira ungu strákanna í næstu leikjum enda hefur Everton sennilega engu að keppa efast um að Everton komist ofar en 8 sætið því miður. Gaman að heyra frá ykkur enda frekar dauflegt síðustu mánuði en gott að hafa nóg að gera að fylgjast með fótboltanum í sumar.

  6. þorri skrifar:

    Sælir félagar sammála ekki sá skemmtilegasti sem sést hefur hjá þessum liðum.En sáttur við jafntefli.Ég vona að Gylfi verði ekki seldur.En hvað haldi þið verður hann seldur í sumar.Er þetta ekki skildu sigur á morgun á móti Norwich hvað seigi þið um það.KOMA SVO ÁFRAM EVERTON