Everton – Man United 1-1

Mynd: Everton FC.

Manchester United mættu í heimsókn á Goodison Park í dag kl. 14:00.

Uppstillingin: Pickford, Baines, Holgate, Keane, Coleman (fyrirliði), Gylfi, Gomes, Davies, Walcott, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Mina, Sidibé, Delph, Bernard, Iwobi, Moise Kean.

Sem sagt, áfram 4-4-2 en fimm breytingar á byrjunarliði frá síðasta leik. Michael Keane kemur inn fyrir Mina, Coleman fyrir Sidibé, Davies fyrir Schneiderlin (sem meiddist), Gomes fyrir Delph og Walcott snýr aftur úr meiðslum og kemur inn fyrir Iwobi. Framlínan óbreytt enda hafa þeir verið að raða inn mörkum undanfarið.

De Gea var gjafmildur í upphafi leiks, tók sér allt of langan tíma í að sparka út og Calvert-Lewin náði að setja fótinn fyrir útsparkið og boltinn í netið — strax á 3. mínútu. Örskömmu síðar komst hann svo aftur í dauðafæri en De Gea náði að slengja fingri í boltann, sem fór fyrir vikið rétt framhjá fjærstöng. Þar hefði staðan átt að vera orðin 2-0.

Matic átti skot í slá á 5. mínútu en svo róaðist leikurinn aðeins og færunum fækkaði. En á 30. mínútu skoruðu United mark, eiginlega upp úr engu. Bruno Fernandes fékk að rekja boltann óáreittur óþægilega nálægt teig og skjóta. Pickford hefði líklega átt að verja þann bolta en inn fór hann við nærstöng. 1-1.

Richarlison var óheppinn að skora ekki rétt fyrir lok hálfleiks þegar hann fékk háa fyrirgjöf frá Baines af vinstri kanti. Fékk þar með frían skalla upp við mark en Shaw ýtti snyrtilega aftan í bakið á honum sem truflaði hann nægilega í skallanum.

1-1 í hálfleik.

Gylfi átti flotta aukaspyrnu á 56. mínútu sem fór í stöngina og út. Frákastið barst til Richarlison sem var ekki viðbúinn og ekki í jafnvægi. Náði samt að slengja fæti í boltann sem skoppaði framhjá stönginni utanverðri.

Önnur skipting Everton kom á 62. mínútu þegar Walcott fór út af fyrir Bernard. Fyrri skiptingin var í fyrri hálfleik þegar Coleman fór út af meiddur og Sidibé kom inn á.

Calvert-Lewin komst í dauðafæri á 68. mínútu þegar Everton komst í skyndisókn. Náði alveg upp að stöng vinstra megin og skaut en De Gea varði í horn með fætinum.

Gomes út af fyrir Moise Kean á 80. mínútu.

United fengu algjört dauðafæri upp við mark, rétt fyrir lok venjulegs leiktíma, en Pickford varði glæsilega tvisvar af point blank range. Fyrst með hendi en svo fæti.

Everton kom svo boltanum í netið á 92. mínútu, þegar boltinn breytti um stefnu af Maguire og rúllaði framhjá Gylfa sem sat rangstæður í grasinu við markið og kippti fótunum að sér til að fá ekki boltann í sig. VAR skoðaði atvikið og dæmdi markið af vegna rangstöðu. Líklega rétt en verður fróðlegt að sjá umræðuna í kjölfarið. Klárlega rangur dómur.

Lokastaðan 1-1 og Ancelotti fékk rautt í lokin fyrir að mótmæla rangstöðunni.

United mennirnir sem ég sat með á Ölveri voru á því að þeirra menn hefðu verið heppnir að fara með stig í farteskinu. Er ekki frá því að það sé hárrétt.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (5), Coleman (5), Holgate (7), Keane (6), Baines (7), Davies (6), Gomes (7), Gylfi (7), Walcott (6), Richarlison (6), Calvert-Lewin (8). Varamenn: Sidibe (6), Bernard (6).

10 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gylfi á vinstri kantinum??? Það er skrýtið og Davies í byrjunarliðinu…. hvað var Carlo að drekka í morgun??
    Töpum þessu 1-3.

  2. Þór skrifar:

    Rændir. Enski boltinn er spilltur. Það eru greinilega peningar í þvi að koma United í meistaradeildina.

    • Diddi skrifar:

      sammála, DeGea var á leiðinni í hitt hornið til að verja og hefði aldrei haft neitt í þennan bolta að gera en þegar maður heyrði að vinur okkar Moss var í Var herberginu þá varð maður ekkert hissa 🙂 Hann dæmdi líka vítið á Keane í leiknum gegn Brighton úr varherberginu ef ég man rétt og er yfirleitt aldrei mjög upptekinn af því að dæma með okkur 🙂

  3. Einar Gunnar skrifar:

    Þetta var klárlega rán um hábjartan dag. Ég get með engu móti talið þetta sanngjörn úrsliti.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Grautfúlt að vinna þetta ekki. Gylfi átti bara að drullast á lappir í staðinn fyrir að sitja á rassgatinu í rangstöðunni.

    • Gunni D skrifar:

      Sammála

      • Gunni D skrifar:

        En markið átti að standa.

        • Ingvar Bæringsson skrifar:

          Klárlega. Við nánari umhugsun þá gat Gylfi sennilega ekki gert annað en að reyna bara að fá ekki boltann í sig því þá hefði hann engin áhrif á leikinn. Og það var augljóst að hann skyggði ekki á útsýni De Gea því hann er lagður af stað í hitt hornið því þangað stefndi boltinn áður en hann fór af unitedmanninum í netið. Þetta helvítis VAR er bara til vandræða og í staðinn fyrir að fækka umdeildum dómum þá hefur það bara fjölgað þeim.

  5. Finnur skrifar:

    Þegar ég sá þetta í sjónvarpinu átti ég von á að dæmd yrði rangstaða og fannst við ekki getað kvartað mikið yfir því. En eftir að hafa lesið reglurnar um rangstöðu (http://theifab.com/laws/chapter/31/section/87/) er mér það ljóst að Jon Moss VAR-dómari gerði alvarleg mistök í túlkun sinni á reglunum, sem segja:

    A player in an offside position at the moment the ball is played or touched by a team-mate is only penalised [sic] on becoming involved in active play by:

    1) interfering with play by playing or touching a ball passed or touched by a team-mate or
    2) interfering with an opponent by:
    a) preventing an opponent from playing or being able to play the ball by clearly obstructing the opponent’s line of vision or
    b) challenging an opponent for the ball or
    c) clearly attempting to play a ball which is close when this action impacts on an opponent or
    d) making an obvious action which clearly impacts on the ability of an opponent to play the ball
    3) gaining an advantage by playing the ball or interfering with an opponent when it has:
    a) rebounded or been deflected off the goalpost, crossbar, match official or an opponent
    b) been deliberately saved by any opponent

    Ekkert af þessu á við um Gylfa og því hefði ekki átt að dæma hann rangstæðan. Það sem Jon Moss notar sem réttlætingu á rangstöðunni er partur af lið 2 a) hér að ofan: „clearly obstructing the opponents line of vision“.

    Það er hins vegar alfarið rangur dómur, eins og augljóst er af þessari mynd:

    https://twitter.com/morts1980/status/1234185304829022210
    (mikilvægt að smella á myndina til að sjá hana alla, ef De Gea sést ekki á myndinni)

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    VAR = Legalised match fixing, segja einhverjir skoðanabræður og systur okkar í útlöndum og kannski ekki skrýtið miðað við sumt af því sem sést hefur í vetur.