Everton – Crystal Palace 3-1

Mynd: Everton FC.

Everton tók á móti Crystal Palace í dag, kl. 12:30, á Goodison Park.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Mina, Coleman (fyrirliði), Bernard, Schneiderlin, Gylfi, Walcott, Calvert-Lewin, Richarlison.

Varamenn: Stekelenburg, Holgate, Baines, Iwobi, Sidibé, Davies, Moise Kean.

Ancelotti gerði fjórar breytingar frá byrjunarliði síðasta leik. Hefðbundin 4-4-2 (án bolta) með Dominic Calvert-Lewin og Richarlison frammi.

Everton með ágæta stjórn á leiknum og náðu að halda Zaha og félögum í sókn Crystal Palace í skefjum. Fáar tilraunir á mark hjá Palace og engin on target. Hjálpaði til líka að þeir voru að reyna að gera alla hluti í sókninni aðeins of flókna.

Everton fékk aukaspyrnu strax á 3. mínútu og Digne lét reyna á markvörðinn á löngu færi með föstu skoti á mark — tilvalið að gera það, enda markvörður með sólina í augunum en hann náði að kasta sér til hliðar og slá boltann í innkast.

Palace menn svöruðu á 13. mínútu með skoti á mark sem breytti um stefnu af Keane og fór í utanverða stöngina og út aftur. Eina almennilega færi Palace í fyrri hálfleik.

En Everton lét þetta ekki á sig fá og komst yfir á 17. mínútu með glæsilegu marki. Gylfi dansaði með boltann í gegnum þvögu af varnarmönnum við teig hægra megin og gaf út á kant á Walcott. Hann fór illa með vinstri bakvörð Palace, van Aanholt, og sendi háan bolta fyrir þar sem Bernard var á auðum sjó og þrumaði inn. 1-0 fyrir Everton.

Walcott þurfti svo að fara út af meiddur á 24. mínútu, eftir að hafa reynt að harka af sér meiðsli, en tókst ekki. Sidibé kom inn á fyrir hann, eftir að hafa hlaupið í klefann að sækja sér sokk. Grínlaust.

Everton betra liðið í fyrri hálfleik, en með vindinn og sólina í fangið í seinni hálfleik. 1-0 fyrir Everton.

Restin af leikskýrslunni kemur síðar. Endilega látið í ykkur heyra í kommentakerfinu!

Palace byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og uppskáru mark á 51. mínútu þegar Zaha setti Benteke inn fyrir hægra megin. Benteke skaut lágu föstu skoti að marki, sem Pickford hefði átt að gera betur í að verja, en missti boltann einhvern veginn undir sig og Palace menn náðu þar með að jafna (í fyrsta skoti þeirra on target náttúrulega). Staðan þá orðin 1-1. 

Ótrúlegur viðsnúningur hjá Palace, sem allt í einu fengu ofurtrú á verkefninu og allt sem þeir reyndu fór allt í einu að heppnast. Það leit út fyrir að brekkan yrði nokkur fyrir Everton, en þá tók Richarlison til sinna ráða með vel útfærðri skyndisókn. Löng og há sending fram, sem Calvert-Lewin reyndi að ná til með skalla, en náði ekki. Boltinn framhjá bæði honum og miðverðinum, sem ætlaði að reyna að stoppa Calvert-Lewin. Boltinn beint í hlaupaleiðina hjá Richarlison, sem brunaði með hann í átt að teig, fór illa með Cahill sem reyndi að verjast og Richarlison skaut áður en fleiri varnarmenn næðu til hans. Beint í hliðarnetið og inn. Staðan orðin 2-1.

Benteke fékk algjört dauðafæri á 61. mínútu þegar hann fékk frían skalla alveg upp við mark en Pickford varði meistaralega frá honum og bætti þar með fyrir mistök sín í marki Palace.

Gylfi komst í dauðafæri á 64. mínútu þegar hann dansaði einhvern veginn í gegnum vörn Palace, með þrjá varnarmenn í kringum sig. Hann náði skoti á mark, þegar hann var kominn alveg upp við markið en markvörður Palace náði með ótrúlegum hætti að slengja hendi í boltann og koma í veg fyrir mark.

Tom Davies kom inn á fyrir Bernard á 65. mínútu og Holgate inn á fyrir Gylfa á 86. mínútu. Stuttu síðar tókst Calvert-Lewin að gulltryggja sigurinn eftir hornspyrnu frá Digne. Há fyrirgjöf frá honum inn í teig, sem Richarlison skallaði í slána og niður beint fyrir framan mark. Þar lúrði Calvert-Lewin og potaði inn framhjá markverði sem lá í grasinu eftir að hafa reynt að verja. 

Calvert-Lewin fékk svo eiginlega nákvæmlega eins færi á 92. mínútu þegar Richarlison skaut föstu skoti á mark sem markvörður varði en boltinn barst til Calvert-Lewin sem þurfti bara að hitta á markið… en skaut yfir. Þar hefði staðan átt að vera 4-1.

En 3-1 sigur Everton staðreynd. 

Þegar er undarlegt að hugsa til þess að þegar Silva var rekinn var Everton í þriðja neðsta sæti deildarinnar. Nú, aðeins átta deildarleikjum síðar, undir stjórn Ferguson og Ancelotti er Everton á höttunum eftir Evrópusæti og er aðeins fimm stigum frá Meistaradeildarsæti. Fimm sigrar í síðustu átta leikjum og aðeins eitt tap, gegn Englandsmeisturum City.

Everton: Pickford (6), Coleman (7), Keane (6), Mina (6), Digne (6), Schneiderlin (6), Walcott (6), Gylfi (6), Bernard (7), Richarlison (8), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Sidibe (6), Davies (5).

Maður leiksins: Richarlison.

10 Athugasemdir

 1. Einar Gunnar skrifar:

  Flott þrjú stig; flott þrjú mörk! Hvað þetta er mikið skemmtilegra þegar vel gengur 😉 Áfram Everton!!

 2. Ari S skrifar:

  Frábær stig í dag. Við erum komnir í 7. sæti!. Til hamingju Everton félagar!

 3. Ari G skrifar:

  Flottur sigur í dag. Sóknin er orðinn miklu betri en áður og Everton nýtir færin sín betur. Richarlison maður leiksins mín skoðun. Klaufalegt mark hja Pickford en allir gera mistök. Vörnin fannst mér frekar óörugg stundum en sóknin bætir það upp. Flott fyrstu 2 mörkin. Gylfi svona ok duglegur en þarf að skapa meira.

 4. Finnur skrifar:

  Calvert-Lewin mjög góður í dag — skoraði eitt og átti nokkuð stóran þátt í hinum tveimur. Í bæði skiptin dró hann til sín miðvörð sem gerði það að verkum að Bernard og Richarlison komust í upplögð færi.

  • Finnur skrifar:

   Fengið að láni:

   Dominic Calvert-Lewin – Premier League goals by permanent Everton managers:

   1 in 20 apps (Koeman)
   3 in 18 apps (Allardyce)
   9 in 48 apps (Silva)
   6 in 8 apps (Ancelotti)

 5. Gunnþór skrifar:

  Allt annar bragur á spilamennsku liðsins geggjuð úrslit.

 6. þorri skrifar:

  sælir.og góðan daginn þetta var flottur leikur hjá okkar mönnum.Hvernig finst ykkur þessar breitingar á deildinni með vetrar frí.á milli leikja.Mér finst liði bara milku betra eftir að anciloti tók við liðinu.Það er allt annar bragur á liðinu.ÞAÐ er eitt sem mér finst að mætti laga.Vörninn mætti þétta sig aðeins meira.Annars er liði vera milku betra KOMA SVO ÁFRAM EVEERTON

 7. Finnur skrifar:

  Everton á flesta leikmenn í liði vikunnar hjá BBC (heila þrjá: Bernard, Calvert-Lewin og Richarlison):
  https://www.bbc.com/sport/football/51536447

%d bloggers like this: