Newcastle – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Baines, Holgate, Keane, Sidibé, Richarlison, Davies, Gylfi, Walcott, Kean, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Delph, Digne, Mina, Tosun, Bernard, Coleman.

Missti af stærstum hluta fyrri hálfleiks — lenti í vandræðum með færð á leið í bústaðinn en náði að hlusta á glefsur af leiknum gegnum útvarpsþjónustuna á Everton FC síðunni ytra.

Everton mun betra liðið fram að marki en Newcastle sótti í sig veðrið eftir mark. Mark Calvert-Lewin kom á 13. mínútu en hann var vel staðsettur þegar boltinn barst óvænt til hans eftir smá darraðadans inni í teig. Calvert-Lewin fljótur að hugsa og potaði framhjá Dubravka, markverði Newcastle.

Newcastle fengu tvö færi í fyrri hálfleik. Annað var fast skot af nokkru færi innan teigs, sem Pickford þurfti að slá frá. Hitt skyndisókn upp vinstri kantinn en Holgate náði að koma kantmanni þeirra úr jafnvægi og skotið nokkuð framhjá nærstöng.

Dómarinn flautaði svo fyrri hálfleikinn af þegar Kean var búinn að setja Walcott inn fyrir með stungusendingu — en Walcott hefði verið einn á móti markverði. Undarleg ákvörðun.

0-1 í hálfleik.

Everton átti þrjú skotfæri í byrjun fyrri hálfleiks — Richarlison fyrstur en auðveldlega varið hjá Dubravka. Moise Kean með næstu tvö, óheppinn að skora ekki úr því fyrra, komst einn á móti Dubravka en glæsileg varsla kom í veg fyrir fyrsta mark Kean fyrir Everton.

En það voru Newcastle menn sem jöfnuðu á 56. mínútu eftir aukaspyrnu — sem þeir áttu ekki að fá. Gylfi settur í að dekka Andy Carroll, furðuleg ákvörðun þar og hann tapaði náttúrulega skallaeinvígi við Carroll (afar fyrirsjáanlegt). Boltinn beint á Schär sem var beint fyrir framan markið og potaði boltanum í stöng og inn.

Holgate náði að svara fyrir Everton með því að koma boltanum í netið á 60. mínútu en hann fékk boltann eftir að Dubravka varði flott skot frá Richarlison af stuttu færi. En Holgate því miður dæmdur (réttilega) rangstæður.

Everton virtist vera að tapa stjórn á leiknum í aðdraganda og kjölfar marks Newcastle og Ancelotti brást við með því að setja Delph inn á fyrir Kean. Þetta bar tilætlaðan árangur, því miðjuspil Everton batnaði töluvert. 

Og stuttu síðar komst Everton aftur yfir. Walcott setti Richarlison (á hægri kanti) á sprettinn aftur fyrir bakvörð Newcastle. Richarlison sendi frábæran bolta fyrir þar sem Calvert-Lewin potaði inn. 1-2 Everton!

Coleman kom inn á fyrir Walcott á 70. mínútu. Coleman tók sér stöðu í hægri bakverði og Sidibé var færður upp völlinn. Mina kom svo inn á fyrir Baines á 80. mínútu.

En fleiri urðu færin ekki. Dominic Calvert-Lewin með tvö mörk sem skilaði Ancelotti þremur stigum annan leikinn í röð. Ancelotti með 100% árangur eftir aðeins tvo leiki. Frábær byrjun. Newcastle voru taplausir á heimavelli á tímabilinu (fyrir utan upphafsleik sinn) alveg þangað til Everton mætti á staðinn.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Baines (6), Sidibe (6), Keane (7), Holgate (7), Davies (7), Gylfi (7), Walcott (6), Richarlison (8), Kean (7), Calvert-Lewin (9). Varamenn: Delph (7), Mina (6), Coleman (6).

Calvert-Lewin valinn maður leiksins.

10 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Finnst þessi Tómas alveg einstaklega leiðinlegur sjónvarpsmaður. Bjarni hefði átt að taka hann í smá kennslustund um sögu Everton og benda honum á að fótbolti var ekki fundinn upp 1992.
    Annars finnst mér öll umfjöllun um enska boltann vera frekar rauðleit og þátturinn Völlurinn er endalaust rauðræpurunk.

    https://www.mbl.is/sport/enski/2019/12/27/hvad_er_carlo_ancelotti_ad_gera_herna_myndskeid/

    Ég er feginn að við komumst inn í hálfleik með forustu, þetta var orðið tæpt.

    • Helgi Hlynur skrifar:

      Rauðræpurunk er svakalegt orð.;-) Fínn leikur það sem ég sá og þetta er greinilega að skána hjá okkar mönnum.

      • Orri skrifar:

        Sæll Borgfirðingur.Þetta er allt annað að sjá liðið síðustu 3 vikur heldur en 3 árin þar á undan.

    • Ari S skrifar:

      Þetta er hárrétt hjá þér Ingvar, maður reynir alltaf að komast hjá því að hlusta á Íslensku þulina og stundum eru þeir útlendu ekkert skárri. Best er að geta stundum farið á portúgalska stöð þar sem maður skilur ekkert. 😉

  2. Ari S skrifar:

    Nú er Elvar ánægður, uppáhaldið hans DCL búinn að gera tvö mörk í dag 🙂

    Til hamingju með stigin 3 í dag!

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Flott að ná sigri á erfiðum útivelli. DCL er gagnslaus, sagði ég örugglega einhvern tímann, hann er heldur betur að reka það ofan í mig aftur.
    Það virðist vera að koma í ljós að hann þurfti bara að hafa einhvern með sér í framlínunni.

  4. Finnur skrifar:

    Holgate og Calvert-Lewin í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/50940435

  5. þorri skrifar:

    sælir félagar.nú fer gamla árið að líða.Og nýtt og skemmtulegt að byrja.Eru menn ekki bara kátir og bjartsínir með nýja stjóra okkar.Svo er mjög skemmtilegur leikur á morgun.Er það ekki bara sigur.ég segi GLEÐILEGT NÝTT ÁR ÁFRAM EVERTON

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Þetta verður mikil prófraun fyrir okkar menn á morgun en vonandi mæta menn vel stemmdir í leikinn gegn City og þá getur allt gerst.
      Gleðilegt nýtt ár kæru félagar.

  6. þorri skrifar:

    sælir félagar.Bara að forvitnast æltar einhver á ölver að horfa á leikinn hjá okkar mönnum.Á móti manc city sem er í dag kl 17,30