Man United – Everton 1-1

Leikmenn Everton fagna marki gegn Man United

Mynd: Everton FC.

Everton mætti til leiks á Old Trafford með nokkuð laskað lið vegna veikinda og meiðsla, sérstaklega á miðsvæðinu en aðeins þrír miðjumenn voru klárir í leikinn. Ferguson stillti upp í leikaðferð sem við fyrstu sýn virtist vera 5-3-2 (eða 3-5-2 með bakverðina sem wingbacks) en um leið og flautað var til leiks færði Holgate sig í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns og því spilað 4-4-2. Fín frammistaða hjá Holgate, sem var að spila þessa stöðu í fyrsta sinn á ferlinum. Enginn Gylfi var með í dag vegna flensu og sama að segja um Sidibé. Aðrir miðjumenn, sem ekki voru valdir í byrjunarliðið, voru allir meiddir (Gomes, Schneiderlin, Delph, Gbamin). Frammistaðan þrátt fyrir þetta mjög fín og úrslitin ágæt á velli sem hefur reynst Everton erfiður í gegnum tíðina. Duncan Ferguson kominn með fjögur stig úr tveimur erfiðum leikjum í röð. Fín byrjun.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Mina, Holgate, Coleman (fyrirliði), Iwobi, Davies, Bernard, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Martina, Kean, Tosun, Niasse, Gordon.

United fengu dauðafæri á fyrstu sekúndunum þegar boltinn barst óvænt til Lingard alveg upp við mark. Honum brást þó bogalistin þegar hann skaut viðstöðulaust framhjá.

Holgate svaraði strax á 2. mínútu með skoti að marki sem De Gea sló yfir mark. Holgate reyndi aftur skot af löngu færi á 6. mínútu en beint á De Gea. Engin hætta þar.

Tvisvar komust United í upplagt færi eftir langa sendingu fram en í bæði skiptin skutu þeir framhjá.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta og ekki mörg færi. En á 25. mínútu þurfti Digne að fara út af. Kenndi sér greinilega meins í nára og kom Baines því inn á.

Rashford átti svo þrumuskot úr aukaspyrnu sem Pickford varði vel.

United höfðu byrjað leikinn af nokkru sjálfstrausti en það rjátlaði af þeim eftir því sem leið á eftir nokkrar feilsendingar í hreinsunum. Og að lokum skoraði Everton mark úr horni. Boltinn fyrir mark og De Gea og Calvert-Lewin börðust um boltann en boltinn framhjá þeim báðum og í lappirnar á Lindelof og þaðan í netið. 0-1 Everton. Duncan Ferguson á skyrtunni í hellirigningu að fagna. Solskjaar í svefnpokanum sínum í skjólinu með fýlusvip á andlitinu allan hálfleikinn.

0-1 fyrir Everton í hálfleik.

United fengu aukaspyrnu (sem þeir áttu ekki að fá á 52. mínútu) þegar Martial henti sér á bakið á Baines og þeir voru næstum búnir að skora úr því. Maguire upp við mark en náði ekki að skalla.

United fengu flott færi á 61. mínútu þegar þeir náðu föstu skoti á mark sem Pickford þurfti að kasta sér á og slá til hliðar. Frákastið beint á sóknarmann United sem þrumaði boltanum beint í andlitið á Lingard.

Sókn United þyngdist eftir því sem á leið en þeir höfðu ekki erindi sem erfiði. Moise Kean inn á fyrir Bernard á 70. mínútu.

En stíflan brast loks á 77. mínútu þegar Greenwood fékk boltann utarlega í teig hægra megin og smellhitti boltann niðri við stöng, í gegnum þvögu af leikmönnum. 1-1.

Iwobi átti flott skot á mark á 83. mínútu sem De Gea varði í horn, en ekkert kom úr því.

Moise Kean var svo skipt út af fyrir Niasse á 88. mínútu, 18 mínútum eftir að hann kom inn á. Svolítið spes.

En þannig endaði þetta. Ole Gunnar aldrei náð að sigra Everton og aðeins kominn með 1 stig úr tveimur tilraunum (með markatöluna 1-5).

Einkunnir Sky Sports: Pickford (5), Coleman (7), Keane (7), Holgate (8), Mina (7), Digne (N/A), Davies (6), Iwobi (6), Bernard (5), Calvert-Lewin (9), Richarlison (8). Varamenn: Baines (7).

Maður leiksins: Dominic Calvert-Lewin.

12 Athugasemdir

  1. þorri skrifar:

    hefur einhver heirt um Gylfa afhveju hann sé í hópnum

  2. þorri skrifar:

    sælir félagar það 1-0 í hálfleik.Svo sem ekki mikið að gerast en er mjög sáttur sækja bara meira vörninn virðist ekki vera neitt svo örug hjá man

  3. Halldór Sigurðsson skrifar:

    Af hverju var Moise Kean tekinn útaf???

  4. Ari G skrifar:

    Flott að ná stig á móti Utd. Hvað bull er þetta að taka Kean útaf vill Ferguson losna við hann. Fannst hann ekki það slæmur að hann verðskuldi vera tekinn útaf. Finnst Pickford alltof seinn að skulta sér að verja hann er greinilega ekki nógu góður markvörður í svona en mjög góður maður á móti manni.

  5. Elvar Örn Birgisson skrifar:

    Fínustu úrslit fyrir Everton. Ferguson að gera fína hluti ennþá. Mér fannst samt þessi skipting að henda Kean útaf eftir 19 mín leik alveg fyrir neðan allar hellur. Þess heldur að Ferguson leit ekki við Kean þegar hann fór útaf.
    Ancelotti má bara fara að koma og bjarga þessu fyrir okkur, held að Ferguson sé ekki lausn til framtíðar.
    Vona bara að Kean byrji inná í leiknum gegn Leicester eftir þetta rugl hjá Ferguson.

    Holgate að koma ansi mikið á óvart sem defensive midfielder.
    Þrír heimaleikir framundan, tveir í deild og einn í bikar, vona að við fáum eitthvað út úr þeim leikjum enda bara með 18 stig í deild sem er bara með öllu óásættanlegt.

    • Finnur skrifar:

      Ég las eitt sinn um fyrrum stjóra Everton — finnst líklegt að það hafi verið Howard Kendall en náði ekki að staðfesta þrátt fyrir leit. Hann gaf varamanni sínum mjög skýr fyrirmæli um hvað sá ætti að gera þegar hann kæmi inn á (minnir að þetta hafi verið í FA cup leik). En þegar að því kom gerði leikmaðurinn bara eitthvað allt annað og var því snarlega kippt út af fyrir leikmann sem gat fylgt fyrirmælum. Velti fyrir mér hvort eitthvað svoleiðis hafi verið í gangi.

      • Diddi skrifar:

        1986 í leik um góðgerðarskjöldinn, Kendall stjóri og Neil Adams leikmaðurinn sem fékk að kenna á þessu og ég hef fyrir satt að Dunc hafi verið að kenna þessum óþekktaranga lexíu með þessu og sýna með því dirfsku sem ekki allir stjórar hafa. Hvort þetta dugar á drenginn verður að koma í ljós en ég hef minar efasemdir 😪😪

        • Finnur skrifar:

          Takk fyrir að staðfesta það. Alltaf erfitt að vita hvort maður geti treyst eigin minni. 🙂

          Rakst annars á þessa greiningu á frammistöðu Moise Kean í leiknum. Sýnist hún renna stoðum undir það sem ég benti á (Kean var einfaldlega ekki að fylgja þeim fyrirmælum sem hann fékk)…
          https://twitter.com/Carra23/status/1206655720013336576

  6. Finnur skrifar:

    Yerri Mina í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/50803679

  7. Einar G skrifar:

    Mjög góð úrslit og aðallega gaman að sjá baráttu okkar manna. Eitthvað sem hefur vantað á tímabilinu. Menn ekkert að ræða meint brot á De Gær? Í mínum bókum klárt brot en loksins féll vafaatriði með okkur.