Burnley – Everton 1-0

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Keane, Coleman, Delph, Schneiderlin, Iwobi, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Lössl, Holgate, Sidibé, Bernard, Gomes, Davies, Kean.

Róleg byrjun á leiknum og lítið um færi. Gylfi átti glæsilega aukaspyrnu utan teigs á 5. mínútu, sem markvörður þurfti að hafa sig allan við að verja upp við samskeytin.

Jóhann Berg fékk ágætis skallafæri fyrir Burnley á 11. mínútu (þulurinn vildi reyndar meina að Jóhann hefði brotið á Digne) en Jóhann Berg skallaði beint á Pickford. Engin hætta.

Burnley menn voru stálheppnir að fá ekki á sig mark á 14. mínútu þegar Iwobi reyndi skot af stuttu færi, en skotið breytti um stefnu af varnarmanni og sigldi rétt framhjá stönginni. Markvörður þeirra strandaður á línu og horfði bara á boltann fara út af.

Eftir þetta róaðist leikurinn töluvert en svo lifnaði aftur yfir þessu á um 30. mínútu þegar Burnley menn náðu föstu lágu skoti á mark eftir hornspyrnu. Óvaldaður maður á fjærstöng, sem maður átti hálfpartinn ekki von á að myndi skjóta (þar sem færið var þröngt), en Pickford varði vel með fæti. Kannski frekar um fyrirgjöf að ræða, en gott að Pickford skyldi ná að blokkera, því boltinn hefði getað endað hvar sem ef hann hefði lent í löppunum á einhverjum öðrum.

Leikurinn opnaðist nokkuð við þetta og stuttu síðar átti Richarlison tilraun til að senda á Dominic Calvert-Lewin í dauðafæri fyrir opnu marki, en varnarmaður Burnley rétt náði að renna sér fyrir fyrirgjöfina og bjarga í horn.

Everton náði tvisvar í röð að skapa glundroða í vörn Burnley eftir hornspyrnu og í seinna skiptið björguðu þeir á línu, eftir að varnarmaður þeirra hafði skallað boltann niður, upp aftur í höndina á sér og næstum inn fyrir línu — ef varnarmaður hefði ekki verið mættur að hreinsa.

Burnley menn voru aftur heppnir á 39. mínútu þegar Coleman fór illa með vinstri bakvörð þeirra, komst inn í teig og sendi á Gylfa. Skotið (sending?) frá honum endaði hjá Iwobi, sem var rétt til hliðar við miðju marks. Hann var hins vegar með bakið í markið en sneri sér fljótt og skaut en varnarmaður náði að blokkera. Þulirnir á því að Everton ætti að vera komnir 1-0 yfir þar.

0-0 í hálfleik.

Restin af leikskýrslunni kemur síðar. Endilega látið í ykkur heyra í kommentakerfinu!

Richarlison átti fyrsta færi seinni hálfleiks, eftir fínan undirbúning hjá Everton. Richarlison skaut að marki, gegnum klofið á varnarmanni en beint á markvörð Burnley, sem var vel á verði og greip boltann.

Á 55. mínútu dró heldur betur til tíðinda þegar Coleman lét reka sig út af. Hann hafði fengið gult í fyrri hálfleik fyrir hættulega tæklingu og lenti svo í samstuði við miðjumann Burnley eftir skallabolta í seinni hálfleik og fékk sitt seinna gula spjald við það. Everton manni færri næsta hálftímann rúman.

Burnley fengu strax í kjölfarið færi hægra megin í teig (í holunni sem Coleman skildi eftir sig) þar sem Everton hafði ekki náð að endurskipuleggja sig með skiptingu en Barnes skaut hátt yfir. Silva skipti þá Sidibé inn á fyrir Gylfa, til að stoppa í gatið. Everton skipti þar með í 4-4-1, með Calvert-Lewin frammi.

Varnir liðanna héldu þó alveg fram á 71. mínútu þegar Burnley menn fengu horn og sóknarmaður þeirra skoraði með þrumuskoti við fjærstöng. Þulirnir höfðu skömmu áður minnst á að þetta væri, almennt séð, veikleiki á zonal vörn — að það er yfirleitt hægt að finna lausan leikmann á fjærstöng og það var raunin hér. Enginn að dekka hann og hann skoraði með viðstöðulausu skoti.

Calvert-Lewin út af í kjölfarið, Moise Kean inn á.

Tvisvar í röð fékk Everton horn, sendu miðverðina og alla stóru leikmennina inn í teig en í staðinn fyrir að senda háan bolta inn í teig, reyndu þeir stutta sendingu sem endaði svo bara í einhverju rugli. Illa farið með góð tækifæri.

Burnley fengu fínt færi á 80. mínútu þegar þeir komust í skyndisókn eftir að hafa brotið á Fabian Delph. Komnir með yfirtölu á mönnum, en skotið frá þeim glatað, beint á markvörð.

Síðasta skiptingin kom á 83. mínútu: Gomes inn á fyrir Schneiderlin á 83. mínútu og Everton sótti af nokkrum krafti síðustu mínúturnar en tókst ekki að skapa sér almennileg færi, manni færri.

1-0 sigur Burnley því niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (5), Digne (6), Keane (7), Mina (7), Schneiderlin (5), Delph (6), Gylfi (5), Iwobi (5), Richarlison (6), Calvert-Lewin (5). Varamenn: Sidibe (6), Kean (5).

18 Athugasemdir

  1. Erlingur skrifar:

    Gylfi yfirburðarmaður þ´vilík yfirsýn og sendingar

  2. Halldór Steinar Sigurðsson skrifar:

    Jæja….er þetta ekki bara að verða fínt með Silva og full reynt…

    • Ari S skrifar:

      Já flott, fáum lúserinn Mauricio Pochettino. Hann verður rekinn á undan Silva. eða kannski annann lúser sem heitir José Mourinho.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ein skilgreining á geðveiki er að reyna sama hlutinn aftur og aftur og búast við annari niðurstöðu. Ég held að Silva sé geðveikur.
    Það er alltaf sama taktík, með sömu leikmönnum sem eru flestir löngu búnir að sanna að þeir eru ekki nógu góðir.
    Ég vona að stjórn Everton geri Silva það ljóst að ef ekkert breytist í næstu tveimur leikjum þá verði hann rekinn.
    En hver á þá að taka við?
    Ég veit það ekki en hitt veit ég að eitthvað verður að breytast og það fljótlega ef ekki á illa að fara.

  4. Ari G skrifar:

    Everton þarf að breyta leikskipulaginu strax annars skeður ekkert. Spila 4-4-2 eða 4-5-1 með 2 sóknarsinnaða miðjumenn ekki 2 varnarsinnaða. Gylfi er þreyttur þurfum að hvíla hann meira. Veit ekki hvað á að gefa Silva langan sjens mundi segja klára október og þá má taka ákvörðun um framhaldið ekki lengur. Hef mikla trú að taka sjensa setja Davids í stöðu Gylfa prófa það og setja Gylfa inná í seinni hálfleik jafnvel prófa að setja þá saman í stöðu sóknarsinnaða miðjumanna. Davids er ekki góður að verjast. Vörnin verður ekki betri nema prófa Frakkann í stöðu Colemans sjálfskipaður fyrst Coleman fer í leikbann núna.

  5. Ari S skrifar:

    Síðastu séns er West Ham leikurinn. Annars verður haft samband við Erik ten Hag. Samkvæt enskum fjölmiðlum.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Aumingja Gylfi. Það hefur víst verið komið að honum að bulla ótrúverðuga þvælu við fjölmiðla eins þessir aumingjar gera eftir hvern einasta tapleik.
    https://www.hitc.com/en-gb/2019/10/08/everton-fans-angered-by-gylfi-sigurdssons-comments/page/1/
    Það er óhætt að segja að hann er ekki vinsælasti leikmaður Everton þessa dagana og ég segi fyrir mig að hann hefði gott af smá bekkjarsetu.

  7. Ari G skrifar:

    Jæja núna vill Moyes taka aftur við Everton. Hvað finnst mönnum um það ég er opinn að prófa hann aftur þótt Benni fyrrverandi stjóri Newcastle heilli mig meira. Silva heillar mig ekki allt of stífur á leikkerfi. Héld að Moyes sé góður stuttur kostur ef Benni fæst ekki. Er ekki fyrrverandi stjóri Juventus á lausu það væri flottur kostur? Hvað vilja menn hér gera? Hver er efstur á óskalistanum?

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Veit ekki hver er efstur á listanum hjá mér. Mér líst vel á Erik ten Hag hjá Ajax eða Laurent Blanc, veit ekki með Allegri þar sem Juventus kaupir bara titilinn á hverju ári.
      Ég mundi líka alveg sætta mig við Moyes sem „caretaker manager“ annað hvort út tímabilið eða þar til búið væri að ráða annan.

      • Ari S skrifar:

        Það er verið að tala um að ef Silva fer þá verði ekki „caretaker manager“. Sem að þýðir að hann verður áfram þangað til annar getur byrjað. En þetta er bara það sem ég hef lesið í dag. Þarf ekkert endilega að vera rétt. Kv. Ari.

  8. Ari G skrifar:

    Ég hef það á tilfinningunni að Mori sé að taka við Everton fyrst hann hafnar Lyon og vill taka við ensku liði. Sé hann ekki maðurinn til að taka við Tottenham sem eru með nískan eiganda en hjá Everton fær hann örugglega nóg af peningum og væntingar hans eru ekki eins miklar en hjá stóru klúbbunum. Finnst hann góður kostur til að byggja upp nýtt stórlið Everton en gallinn hans að hann endist ekki lengi svo 2 1/2 samningur væri góður kostur. Auðvitað er hann umdeildur en hann er sigurvegari hvort sem mönnum líkar vel við hann eða ekki. Spái ef Everton tapi næsti leik verði Silva fljótlega rekinn eftir það og kannski eru þeir að semja við Mora bak við tjöldin núna.

  9. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta sagði Silva í dag.
    „In the tough moments, you can see the strong character… the strong personality. And how we can be strong as a team.“
    Ég get ekki ímyndað mér hvaða lið hann er að tala um en það er ekki Everton. Það er enginn karakter og alls ekki sterkur karakter í Everton.

    • Finnur skrifar:

      Og nú með aðeins meira samhengi…

      “As a team we have to show more, that strong character and personality that will have us playing to our best level again – and achieving what we want in every single match.

      “There are more points to win and we have to be really strong to win the next match – then the confidence will come again.

      “In the tough moments, you can see the strong character… the strong personality. And how we can be strong as a team.”

      Á þessu sést að hann er að horfa til framtíðar en ekki til fortíðar, benda á hvaða verk sé þeim fyrir höndum og hvað þurfi til að vinna sig út úr þessu. Ég met það sem svo að orðið „see“ í síðustu málsgrein sé að villa um fyrir, enda er enska ekki hans móðurmál. Sýnist af samhenginu að hér sé hann að nota orðið „sjá“ í merkingunni „muni sjá“ en ekki „hafi séð“.

      Hvort það sé sterkur karakter í liðinu mun koma í ljós. Þeir voru í svona holu á síðasta tímabili líka, töpuðu fjórum í röð en tóku í kjölfarið mjög góðan sprett með sigrum á Chelsea, West Ham, Arsenal, United og Burnley (og voru óheppnir að vinna ekki Tottenham líka).