Everton – Sheffield United 0-2

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Sheffield United á heimavelli í dag, en með sigri átti liðið séns á að komast upp í Meistaradeildarsæti eftir að hafa mistekist það ætlunarverk í síðustu umferð, gegn Bournemouth.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Keane, Coleman (fyrirliði), Delph, Schneiderlin, Bernard, Gylfi, Richarlison, Kean.

Varamenn: Stekelenburg, Holgate, Davies, Walcott, Iwobi, Tosun, Calvert-Lewin.

Lífleg byrjun á leiknum frá Everton, sem höfðu fulla stjórn á leiknum frá upphafi. Everton miklu meira með boltann en ekki nógu effektívir fram á við, líkt og við höfum svo oft séð. Uppskeran því að mestu bara hvert hornið á fætur öðru.

Sheffield menn mjög þéttir fyrir og því náðugt hjá (báðum) markvörðum þangað til á 15. mínútu þegar Digne átti þrumuskot utan teigs sem markvörður varði. Ekkert að frétta hinum megin vallar, enda Sheffield lítið með boltann. 

Richarlison átti skot nálægt marki, á 30. mínútu, þegar hann reyndi skærin á fyrirgjöf frá Gylfa en hitti boltann illa. Illa gekk annars að skapa almennileg færi í fyrri hálfleik.

En á 40. mínútu fengu Sheffield United sitt fyrsta horn í leiknum (Everton þá komið með heil sjö stykki) og að sjálfsögðu skoruðu þeir úr því með ótrúlegum hætti. Endursýning sýndi klárlega að fremsti sóknarmaður Sheffield hafði það hlutverk eitt að ýta Pickford þegar hann reyndi að verja. En þeir sem horfðu á VAR upptökuna leyfðu markinu að standa, einhverra hluta vegna. Fyrir vikið fór boltinn framhjá Pickford og í öxlina á Mina og þaðan inn. Algjört skítamark og staðan orðin 0-1 fyrir Sheffield United.

Richarlison fékk fínt tækifæri til að jafna stuttu síðar — fékk frían skalla út í teig eftir fyrirgjöf frá hægri á 42. mínútu en skallaði í jörðina og varið. Ekki nógu fast — Hefði átt að gera betur þar.

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri. Everton mikið með boltann en ekkert að frétta. Sóknin algjörlega hugmyndasnauð og sendingar milli manna ekki að heppnast. Marco Silva gerði tvöfalda skiptingu á 55. mínútu: Schneiderlin út af fyrir Iwobi og Bernard út af fyrir Tosun. Marco Silva skipti þar með úr 4-2-3-1 í 4-4-2.

Skiptingin blés smá lífi í Everton sem fengu færi eftir horn, þegar Kean komst einn upp að marki hægra megin en markvörður mættur til að loka á hann og verja í horn. En þetta lífsmark varði þó afar stutt og svo var þetta með hefðbundnum hætti — Sheffield menn þéttir fyrir og lokuðu á öll tilþrif.

Þriðja skipting Everton kom á 70. mínutu þegar Marco Silva skipti Walcott inn á fyrir Coleman. Nú átti að aldeilis að henda öllu í sóknina — allt kapp lagt á að jafna. En fyrir vikið var fáliðað í vörninni og Sheffield menn nýttu sér það í skyndisókn á 79. mínútu. Löng sending fram, inn fyrir vörnina og sóknarmaður þeirra renndi boltanum framhjá Pickford. 0-2 Sheffield.

Og þannig endaði þetta, því Everton skapaði sér engin teljandi færi í seinni hálfleik, fyrir utan eitt hjá Kean. Sheffield United því ennþá ósigraðir á útivelli á tímabilinu og hoppuðu upp fyrir Everton með þessum úrslitum.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (5), Digne (6), Coleman (5), Mina (5), Keane (5), Delph (5), Schneiderlin (4), Richarlison (5), Bernard (5), Sigurdsson (3), Kean (4). Varamenn: Walcott (5), Tosun (5), Iwobi (5).

Næsti deildarleikur er gegn meisturum City á útivelli en þeir tóku Watford í kennslustund í dag, 8-0. En fyrst er deildarbikarleikur við Sheffield Wednesday.

18 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Möguleiki á að komast í meistaradeildarsæti, okkar menn munu klúðra þessu með stæl. Skorar Jags ekki bara sigurmarkið, það kæmi mér ekki á óvart.

  2. Gestur skrifar:

    Þetta er ömulegt, það er ekkert að gerast hjá Everton

  3. Einar Gunnar skrifar:

    Hvað er að gerast? Hvernig er þetta hægt? Hvers vegna springur dæmið í andlitinu á okkur? — Flott tempo frá fyrstu mínútu og bara mjög hátt, en svo lekur allt loft úr liðinu.
    Ætla samt að gefa þessu séns, vonum það besta í seinni hálfleik, eigum flotta leikmenn sem geta allt á góðum degi.
    KOMA SVO!!

    • Ari S skrifar:

      Já þetta er frear fúlt. Okkar menn að halda boltanum ágætlega en ekkert kemur út úr því.

      Enn einn furðulegur dómur á okkar menn í dag… (fannst mér) Þegar Kean plataði tvo leikmenn og fékk á sig brot… sá einhver hvað hann gerði af sér?

  4. Ari S skrifar:

    Í síðustu 20 leikjum sem Everton hefur lent undir þá hafa þeir aldrei unnið leik. Við (Everton) höfum 4 sinnum náð jafntefli og tapað 16 leikjum. Ég er ekki bjartsýnn á góð úrslit i dag en alltaf vongóður.

    Kær kveðja, Ari (neikvæði)

    • Finnur skrifar:

      Ekki síðustu 20 leikjum — líklega síðustu 20 deildarleikjum (unnu Lincoln í bikarnum nýlega eftir að hafa lent undir).

  5. Gunnþór skrifar:

    Hvað segja menn eru menn bara sáttir er langt síðan að ég sá jafn lélegt lið þvílík hörmung

    • Ari S skrifar:

      Auðvitað er enginn sáttur. Þetta er grautfúlt og við getum öll verið sammála um það. Hver er síðan ástæðan er hægt að ræða fram og til baka. Mér finnst þetta ömurlegt og sennilega finnst öllum þetta ömurlegt. Ég yrði ekki hissa ef aðð Silva yrði látinn fara á næstunni. Við þurfum striker það er nokkuð ljóst og það einn alvöru heimsklassastriker. Hvort að það síðan gerist er annað mál.

      kær kveðja, Ari

      ps. Á meðan ég skrifa þetta heldur leikurinn áfram og ég sný baki í sjónvarpið, tekur því ekki að horfa, það er ekkert að gerast og ég er ekki að missa af neinu. Mikil vonbrigði og núna verður væntingum stillt í hóf hér eftir. Forðumst fallið!

  6. Gestur skrifar:

    Silva er að fara

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja! Ég er búinn að missa trúna á Silva. Held að hann hafi ekki hugmynd um hvað hann er að gera, burt með hann.

  8. Gunnþór skrifar:

    Sammála burtu með hann þetta er rusl

  9. Halldór Steinar Sigurðsson skrifar:

    Engin framför ennþá eftir að hann tók við. Hann þarf virkilega að fara sýna eitthvað, þolinmæðin er að fjara út fyrir hann.

  10. Ari G skrifar:

    Hissa hvað sóknarleikurinn er hægur samt er Everton með nokkra hraða menn. Gylfi allt of hægur. Vill gefa Tom Davids að taka stöðu Gylfa til að hvíla hann er greinilega allt of þreyttur eða ekki kominn í gang. Það er vonlaust að velja besta mann Everton enginn mjög góður. Já SILVA þú ert kominn með gula spjaldið og færð mesta lagi einn mánuð í viðbót. Þurfum stjóra með reynslu vill gefa Mora sjens samt ekki lengur en 1 1/2 árs samning þá þurfum við ekki að borga honum morðfjár ef hann skyldi vera rekinn.

  11. Halli skrifar:

    Það hlýtur að vera einhverskonar met að vera búinn að eiga 10 skot á mark andstæðinganna og fá ekkert á sig og vera samt 0-1 undir og fá á sig 2 skot í heilum leik og tapa 0-2 þetta er hreinlega galin tölfræði.
    Mín skoðun er samt sú að leikmannahópurinn er nægilega sterkur til að sækja á 5-8 sæti og ná evrópusæti en klárlega vantar meira sjálfstraust í hópinn og leikkerfi sem hentar hópnum