full screen background image

Lincoln – Everton 2-4 (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Everton lék við Lincoln í kvöld, kl. 18:45, en þetta var önnur umferð keppninnar og fyrsti leikur Everton í henni.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Holgate, Keane, Sidibé, Delph, Schneiderlin, Iwobi, Gylfi, Richarlison, Kean.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Mina, Gomes, Walcott, Calvert-Lewin, Tosun.

Ég missti af fyrstu tuttugu mínútunum og kannski var það fyrir bestu því Lincoln skoruðu eftir aðeins 20 sekúndur.

Skv. þeim sem horfðu á frá byrjun áttu Lincoln að auki eina hættulega sendingu fyrir mark en annars var þetta einstefna, nokkurn veginn. Everton með einhver 6-7 skot, þar af þrjú á rammann, tvö mjög vel varin – eitt frá Gylfa og eitt frá Iwobi.

Og þannig stóð þetta fram á 35. mínútu þegar Gylfi sótti vel aukaspyrnu nokkuð utan teigs og Digne hamraði boltann í netið, alveg upp í samskeytin. Maður ver ekki svona bolta. Staðan orðin 1-1.

Moise Kean fékk upplagt tækifæri sem hann skapaði sjálfur en var óheppinn og setti boltann í stöngina ofarlega. Í kjölfarið fékk Richarlison tvö færi í röð – ákjósanleg skotfæri en lúðraði boltanum upp í stúku.

1-1 í hálfleik. Engin breyting á liðsskipan.

Það dró aldeilis til tíðinda á 57. mínútu þegar Schneiderlin lenti í samloku við tvo leikmenn Lincoln inni í teig og féll við. Dómarinn í engum vafa, viti. Gylfi afgreiddi það náttúrulega af stakri snilld. Hátt (rétt undir slá) og óverjandi fyrir markvörð. 1-2 fyrir Everton.

En Lincoln svöruðu með marki af dýrari gerðinni. Hreinsun frá Michael Kean innan teigs var tekin í fyrstu snertingu og hamrað í netið af nokkru færi. Lincoln búnir að jafna metin, 2-2.

Silva svaraði með tvöfaldri skiptingu og breytingu á liðsuppstillingu, setti tvo í framlínuna: Calvert-Lewin og Tosun inn á fyrir Moise Kean og Delph.

Gylfi tók svo til sinna ráða og skapaði dauðafæri með flottu hlaupi upp hægri kant, með varnarmann að djöflast í sér. Gylfi náði hárri sendingu á fjærstöng sem Tosun skallaði fyrir aftur og Iwobi kláraði það færi með skalla í netið. Staðan orðin 2-3 fyrir Everton.

Digne sá þetta framlag Gylfa og bað liðsfélaga sína að halda aðeins á bjórnum sínum, fór illa með hægri bakvörð Lincoln og sendi háan bolta fyrir frá vinstri, beint á kollinn á Richarlison, sem hamraði boltann í netið. Staðan orðin 2-4 fyrir Everton.

Og fleiri urðu færin ekki. Everton þar með komið áfram í 3. umferð deildabikarsins og nokkrir leikmenn búnir að opna markareikninginn á tímabilinu: Gylfi, Iwobi, Digne og Richarlison.

Áfram veginn!

Digne maður leiksins með stoðsendingu og mark og heilt yfir frábæra frammistöðu.

Dregið var í deildarbikarnum eftir leik og mótherjar Everton verða Sheffield Wednesday á heimavelli þeirra síðarnefndu.

16 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Við Halli mætum galvaskir á Ölver að horfa á leikinn, en náum samt ekki alveg blábyrjuninni. Vonandi sjáum við ykkur sem flest.

 2. Þorri skrifar:

  Sælir félagar er staddur í noregi kemst ekki í kvöld skemmtið ykkur i kvöld Áfram EVERTON

 3. Ari S skrifar:

  Lincoln búið að skora… 1-0 eftir mínútu leik.

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta er tap. Dettum út í vító.

  • Ari S skrifar:

   Enn og aftur hefur Ingvar rangt fyrir sér. alltaf gaman þegar Ingvar hefur rangt fyrir sér 🙂

  • Elvar Birgisson skrifar:

   Ingvar, svartsýni er böl.

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þegar maður er Evertonmaður þá er svartsýni eðlileg þegar kemur að þessari keppni. En mikið varð ég glaður að hafa rangt fyrir mér.

 5. Elvar Birgisson skrifar:

  Þeir nýttu sín 2 færi agalega vel en ég verð að hæla Everton fyrir sinn leik því að skora 4 mörk á útivelli með svona mótlæti er bara ansi gott.
  Ánægður að sjá Iwobi, Keane, Sidibé og Delph byrja en ég var ósáttur við að hafa Holgate í stað Mina í miðverði en skil stöðu Silva að hlífa Mina aðeins.
  Gula spjaldið á Gylfa algert grín en góður sigur og flott að fá mörk frá Iwobi og Richarlison, ego boost Þar. Tosun flottur með stoðsendingu og truflaði vék í likamarki Richarlison.
  Digne stórbrotinn að mínu mati.
  Næsta umferð og sigur takk.
  Wolves heima næstu helgi er öruggur sigur 🙂

  • Ari S skrifar:

   Ég spái 4-1 sigur fyrir Everton gegn Wolves.

   • Elvar Örn Birgisson skrifar:

    Nei Everton fer varla að fá á sig mark eftir að halda hreinu heima í seinustu 6 leikjum og þar á meðal Liverpool, Chelsea, Man Utd og Arsenal.
    2-0 fyrir Everton og málið dautt.

 6. Finnur skrifar:

  Everton fær Sheffield Wednesday á útivelli í næstu umferð.

 7. Þorri skrifar:

  Sælir félaga.er staddur í Noregi.sá leikinn.En ekki þegar markið kom.En mörkin hjá okkar mönnum voru ekki af verri endanum. Nú er bara næsti leikur sem er á sunnudaginn og ekkert nema sigur kemur þar.Everton voru,góðir í öllum leiknum OG KOMA SVO EVERTON

 8. Ari S skrifar:

  U 23 liðið okkar í banastuði í kvöld. 8-2 gegn Southampton

%d bloggers like this: