full screen background image

Kariobangi Sharks – Everton 1-1 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Ari S var fyrstur með byrjunarliðið í þessum fyrsta æfingaleik sumarsins:

Uppstillingin: Stekelenburg, Connolly, Holgate, Gibson, Baines, Gomes, Davies, Schneiderlin, Niasse, Lookman, Walcott.

Varamenn: Lossl, Astley, Feeney, Robinson, Markelo, Broadhead, Bowler, Williams, Adeniran, Baningime, Hornby.

Everton mætti spræku og skemmtilegu liði Kariobangi Sharks í dag kl. 13:00. Það var nokkuð unglegt um að litast í uppstillingu Everton, enda stóru kanonurnar sumar ennþá í sumarfríi eftir landsliðsverkefni sín.

Holgate fékk dauðafæri eftir aukaspyrnu frá Lookman af hægri kanti en Holgate, upp við mark, setti boltann rétt framhjá stönginni. Stuttu síðar fór Lookman út af meiddur. Virtist vera minniháttar meiðsli — vonum það besta.

Það voru hins vegar Kariobangi sem komust yfir með marki frá Duke Abuya á 25. mínútu. Hann fékk sendingu inn fyrir vörnina og virkaði bullandi rangstæður. Hann komst hins vegar inn í teig en varnarmenn Everton náðu að komast á milli. Maður hélt að þetta væri runnið út í sandinn hjá þeim en þá tók hann skot og náði einhvern veginn að smeygja boltanum framhjá varnarmanni og markverði. 1-0.

Þeir hefðu getað bætt við marki á 30. mínútu þegar kantmaður þeirra komst inn fyrir Baines í vinstri bakverði og einn upp að marki, Skotið hins vegar fór rétt framhjá fjærstöng.

Nathan Broadhead hefði átt að jafna leikinn á 40. mínutu þegar Walcott komst einn upp að endamörkum og sá Broadhead koma á hlaupinu. Sendi á hann en Broadhead hittti ekki markið. Upplagt færi.

1-0 í hálfleik.

Fjölmargar skiptingar (átta samtals) hjá Everton í hálfleik, líkt og oft í fyrstu æfingaleikjunum — út af fóru Stekelenburg, Baines, Connolly, Davies, Gomes, Schneiderlin, Walcott, Niasse. Inn á komu Lössl, Astley, Robinson, Adeniran, Baningime, Williams, Bowler, Hornby.

Það var allt annað að sjá til Everton í seinni hálfleik. Meiri ákefð, betri uppbygging færa og þeir náðu loks að setja almennilega pressu á andstæðinginn. Everton beittara liðið í seinni hálfleik og markið lá í loftinu strax frá upphafsmínútum seinni hálfleiks. Markið kom loks frá Joe Williams, beint úr glæsilegri aukaspyrnu á 54. mínútu. Ysti maðurinn í varnarveggnum hoppaði upp og Joe Williams skaut undir hann og niðri í fjærhornið alveg upp við stöng.

Leikmenn Kariobangi virtust taugaóstyrkir við að fá á sig jöfnunarmark og fóru að gerast mistækir í varnarlínunni og Everton var oft hársbreidd frá því að komast inn í sendingar og refsa þeim. Broadhead var einnig ekki langt frá því að skora á 65. mínútu þegar hann átti flottan skalla eftir fyrirgjöf en markvörður Kariobangi rétt náði að slengja fingri í boltann og setja hann rétt framhjá stöng.

Morgan Feeney kom inn á fyrir Holgate á 73. mínútu en ekki tókst liðunum að bæta við marki þannig að grípa þurfti til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Joe Williams, markaskorari Everton, tók fyrstu spyrnuna fyrir Everton, lágt niðri í hornið vinstra megin en markvörður sá við honum. 0-0. Markaskorari Kariobangi fór þá á punktinn en skaut boltanum hátt yfir og staðan því 0-0 eftir fyrstu spyrnu hvors liðs.

Nathan Broadhead sendi markvörðinn í vitlaust horn og skoraði örugglega 1-0 fyrir Everton. Það gerði þeir hins vegar líka. 1-1.

Josh Bowler sendi markvörðinn annað í hornið og skoraði auðveldlega beint á markið. 2-1 fyrir Everton. Þeir skoruðu hins vegar jafn harðan, stöngin inn. Spurning reyndar hvort spyrnan hafi verið lögleg þar sem spyrnumaðurinn stoppaði alveg í aðhlaupinu. 2-2.

Fraser Hornby fór að dæmi Josh Bowler og setti boltann beint á markið eftir að hafa sent markvörð í vitlaust horn. 3-2 fyrir Everton. Þeir svöruðu með fínni spyrnu niðri í vinstra hornið. 3-3.

Adeniran setti boltann á sama stað en markvörður var mættur í hornið og varði. Staðan 3-3 og Kariobangi Sharks gátu þar með unnið með því að skora úr síðustu spyrnunni. Markvörður þeirra steig á vítapunktinn og hann þrumaði boltanum upp í samskeytin vinstra megin. Algjörlega óverjandi vítaspyrna.

Kariobangi Sharks því sigurvegarar í þessum fyrsta vináttuleik Everton í sumar.

1 athugasemd

  1. Gestur skrifar:

    Svakalega er þetta dapurt

%d bloggers like this: