full screen background image

Everton – Man City 0-2

Mynd: Everton FC.

Það fer að síga ansi hratt á seinni hlutann á þessu tímabili og það er mjög athyglisvert að sjá að Everton hefur tækifæri til að hafa mjög svo afgerandi áhrif á — ekki bara stöðu liða í toppbaráttunni — heldur mögulega fallbaráttuna alveg í blálokin því síðustu leikir Everton á heimavelli á tímabilinu eru gegn Man City (núna í kvöld), Liverpool, Chelsea, Arsenal, Man United og svo lokaleikur tímabilsins gegn Burnley, sem eru í botnbaráttunni. Rétt að taka fram að engum heimaleik var sleppt í þessari upptalningu! En þá á eftir að nefna útileiki við botnliðin Cardiff, Newcastle, Fulham, Crystal Palace og Tottenham (OK, Tottenham reyndar í toppbaráttunni). 🙂

Þetta verður því afar strembin dagskrá í lokin, því nánast öll liðin sem Everton mætir hafa ástæðu til að gefa 150% í sína leiki og það er stórleikur strax á eftir — við Manchester City kl. 19:45. Blendnar tilfinningar þar, geri ég ráð fyrir, eða hvað? Leikurinn er í beinni á Ölveri! Sjáumst!

Uppstillingin: Pickford, Digne, Zouma, Keane, Kenny, Davies, Gueye, Gomes, Bernard, Calvert-Lewin, Walcott.

Varamenn: Stekelenburg, Gylfi, Tosun, McCarthy, Schneiderlin, Coleman, Richarlison.

Athyglisvert að sjá bæði Gylfa og Richarlison á bekknum…

En að leiknum… Lítið að frétta framan af, City mikið meira með boltann og nær stöðugt í sókn án þess þó að skapa mikið. Þangað til á 15. mínútu að Otamendi hjá City fékk dauðafæri upp við mark eftir hornspyrnu. Skallaði hins vegar framhjá.

Þeir komust nær, hins vegar, fjórum mínútum seinna, þegar þeir náðu skoti í slá af stuttu færi.

Everton fékk ágætis færi á 28. mínútu, skallafæri – sem minnsti maður vallarins (Bernard) náði að skalla að marki en boltinn í varnarmann og þaðan rétt framhjá stöng og í horn.

En svo hélt leikur City kattarins að músinni áfram. Vörn Everton hélt þó alveg fram að blálokum fyrri hálfleiks þegar City menn komust yfir. Og að sjálfsögðu kom markið úr föstu leikatriði eftir óþarfa brot, eins og óþarflega mörg mörk á tímabilinu. 0-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur fór sæmilega rólega af stað, en City menn settu þunga pressu á vörn Everton á 60. mínútu og náðu næstum því að skora. Pickford varði skalla alveg upp við mark en frákastið fór til Aguero sem reyndi hjólhestaspyrnu sem fór rétt framhjá markinu.

Gomes var svo skipt út af á 63. mínútu fyrir Gylfa og kom smá líf í leik Everton með innkomu Gylfa, allavega til að byrja með.

En City menn voru ekki langt frá því að bæta við marki þegar Sterling fékk boltann óvænt inni í teig en skot hans í varnarmann, niður og rétt yfir slána.

Richarlison kom svo inn á fyrir Bernard stuttu síðar og á 80. mínútu kom Tosun inn á fyrir Walcott. Calvert-Lewin færður yfir á kantinn við það.

Tosun fékk ágætis færi stuttu síðar, þar sem hann komst einn inn fyrir hægra megin, en markvörður rétt á undan í boltann.

De Bruyne var skipt inn á rétt undir lok leiks. Ekki amalegt að hafa svoleiðis mann á bekknum, og hann náði stoðsendingu í marki þegar sjö mínútur af uppbótartíma voru að klárast. Setti Jesus inn fyrir og þrátt fyrir að Pickford næði að verja náði Jesus að skalla frákastið inn.

0-2 lokastaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Kenny (7), Zouma (7), Keane (6), Digne (7), Gueye (6), Davies (7), Gomes (5), Walcott (5), Calvert-Lewin (6), Bernard (6). Varamenn: Gylfi (5), Richarlison (6), Tosun (5).

6 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Everton sýna hvað þeir geta á 28. mínútu og pressa síðan stíft eftir það og city sparka botlann útaf … Vildi óska að svona hlutir myndu halda út lengur… áfram Everton….!

 2. Gunni D skrifar:

  Sorglegur endir á fínum fyrri hálfleik.

 3. Elvar Örn skrifar:

  Þrátt fyrir tap þá var allt annað að sjá Everton spila í dag samanborið við seinustu leiki. Menn hætti aldrei og vori ansi grimmir heilt yfir. Kom ekki á óvart að fá á sig mark úr föstu leikatriði en ansi slæm tímasetning í lok fyrri hálfleiks þó svo það sé aldrei góður tími að fá á sig mark.
  City bara númeri of stórir en Everton gaf þessu séns amk.
  Innkoma Gylfa og Richarlison skilaði litlu en þeir hafa skorað samanlagt rúmlega helming marka Everton sem er á sinn hátt áhyggjuefni.
  Er ekki skrifað í skýin að Everton vinni Liverpool á Goodison í byrjun mars? Ég held það.

  • Diddi skrifar:

   það er lítið hægt að kvarta þegar maður sér liðið sitt leggja sig fram og það gerðu þeir í kvöld. Mætti byrja með sama lið í næsta leik mín vegna

 4. Ari G skrifar:

  Var eiginlega feginn að Everton tapaði í kvöld. Vill ekki að Everton hjálpi Liverpool að vinna titilinn eftir grátlegt tap á móti þeim í fyrra. Þokkalegur leikur hjá Everton barátta en þeir sköpuðu sér ekki eitt einasta alvöru færi í leiknum. Tom Davies er að vakna flottur leikur hjá honum. Annars fannst mér enginn annar sérstakur nema vörnin ágæt fyrir utan mörkin auðvitað. Allavega voru Everton klassa betri en í leiknum á móti Wolves.

 5. Teddi skrifar:

  Sjaldan sem Everton á svipað marga stuðningsmenn og andstæðingurinn á Ölveri…

  Bjartsýnn fyrir Watford vs Everton, spái 1-2 og Richarlison skorar öll mörkin.

  #takkGylfi

%d bloggers like this: