full screen background image

Everton – Lincoln City 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton bókaði sér miða í fjórðu umferð FA bikarsins í dag, með 2-1 sigri á Lincoln City á Goodison Park. Mörk Everton skoruðu Lookman og Bernard.

Uppstillingin: Pickford, Baines (fyrirliði), Mina, Zouma, Kenny, Davies, Gueye, Bernard, Gylfi, Lookman, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Jagielka, Gomes, Tosun, McCarthy, Coleman, Richarlison.

Sæmilega sterk uppstilling en eitthvað um breytingar. Baines kom inn fyrir Digne, Mina fyrir Keane og Kenny byrjaði aftur í hægri bakverði. Davies og Lookman komu inn og sáu til þess að Gomes og Walcott fengu nauðsynlega hvíld, en þeir hafa verið daprir í undanförnum tveimur leikjum. Calvert-Lewin inn fyrir Richarlison, en sá síðarnefndi var á bekknum og lét sjá sig í lokin.

Everton byrjaði leikinn af krafti og Lookman átti skot rétt yfir slána strax á 2. mínútu. Honum brást þó ekki bogalistin þegar hann fékk frían skalla fyrir framan mark, eftir fyrirgjöf frá Baines. 1-0 eftir 11 mínútur.

Og örfáum mínútum síðar var staðan orðin 2-0 þegar Gylfi, Calvert-Lewin og Bernard tóku nettan þríhyrning gegnum vörn Lincoln og Bernard kláraði færið með marki. 2-0.
Lookman átti svo fína tilraun að marki á 19. mínútu, skot utan teigs frá vinstri sem fór rétt framhjá fjærstönginni.
Calvert-Lewin náði að stela boltanum af varnarmanni Lincoln á 21. mínútu og komst í dauðafæri einn á móti markverði en markvörður sá við honum og varði í horn.
Þarna hefði staðan auðveldlega getað verið 4-0 en Lincoln komust loks í færi eftir aukaspyrnu á 28. mínútu. Hár bolti inn á sóknarmann Lincoln, sem náði skalla alveg upp við mark sem Pickford varði vel. En frákastið fór beint á annan Lincoln mann sem potaði inn. 2-1.
Everton höfðu algjörlega átt fyrri hálfleik fram að því, verið með boltann vel yfir 80% og átt öll færin en nú náðu Lincoln að sækja í sig veðrið og settu pressu á Everton. Þeir höfðu þó ekki erindi sem erfiði og fyrri hálfleikur endaði 2-1.

Gomes og Tosun komu inn á í hálfleik fyrir Davies og Calvert-Lewin.

Róleg byrjun annars á seinni hálfleik og lítið að gerast þangað til á 57. mínútu þegar Gylfi náði föstu skoti á mark. Gylfi staðsettur rétt utan teigs hlóð í skotið og boltinn fór nánast milli hreðja varnarmanns og næstum inn alveg út við stöng, en markvörður Lincoln varði frábærlega.

Richarlison inn á fyrir Gylfa á 79. mínútu.

Einstefna á mark Lincoln eftir þetta en færin létu svolítið á sér standa. Richarlison reyndi skot utan teigs en rétt framhjá hægra megin og Tosun náði lausu skoti á mark eftir lága fyrirgjöf frá vinstri. Markvörður ekki í vandræðum með það.

Richarlison komst svo einn upp kantinn alveg í blálokin en missti boltann of langt frá sér í aðhlaupinu að marki. Stuttu síðar flautaði dómarinn leikinn af. Everton er í hattinum í fjórðu umferð.

35 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Lookman með mark á 11. mín. Liðið búið að vera frískt í byrjun.

 2. Ari S skrifar:

  Everton Lincoln 2-1 eftir 30 mín.

  Athyglisvert, ég tók eftir því að Zouma og Mina voru á sama staðnum í markinu hjá Lincoln. Eitthvað samskiptaleysi hjá þeim þar sem að Zouma virtis jafnvel halda í Mina og hvorugur þeirra hoppaði nógu hátt itl að ná til boltans sem að endaði í markinu. Bara smá pælling hjámér.

  • Elvar Örn skrifar:

   Ég tók einmitt eftir þessu og sendi á Georg hvort hann hefði séð það, klaufalegt hjá Zouma.

 3. Eirikur skrifar:

  Þetta er hrein hörmung það sem af er síðari hálfleik.
  Áhugaleysið er algjört.

 4. Elvar Örn skrifar:

  Everton að fá helling af færum en bara alls ekki að nýta þau nægilega vel. Ekki samt besti leikur liðsins í dag.
  Davies ekki nógu góður fyrir Everton er mín skoðun.
  Baines bestur hjá Everton í dag, verst að Digne er svona góður líka í sömu stöðu.
  Held að Tosun sé skárri en DCL en Everton vantar klárlega framherja.

 5. Ari S skrifar:

  Ég er sáttur við sigur í dag. Gaman að sjá Baines spila vel og reyndar kom hann mér smá á óvart en hann er með „touch“ ið ennþá. Fínn leikur hjá honum. Ég sá ekki atvikið þar sem að vörin á Richarlison sprakk? Var það eitthvað? Átti að „taka hann niður“ ?

  • Elvar Örn Birgisson skrifar:

   Nei varnarmaður Lincoln var bara að spila boltanum til baka til markvarðar þegar Richarlison brunar við hlið hans og er að reyna að ná boltanum þegar varnarmaðururinn slengir hendi í andlit Richarlison, óvart að mínu mati og ekkert meira um það að segja.

 6. RobertE skrifar:

  Fínn sigur í dag, en þrátt fyrir sigurinn þá fannst mér liðið spila undir getu. Mjög gaman að sjá Baines spila aftur og að sjá Lookman fá 90mín. Vona að Everton fái Gillingham í næstu umferð.

  • Ari S skrifar:

   Ég vona að Everton fái Newport sem að slógu Leicester út í dag.

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég veit að það skiptir ekki máli hvort liðið vinnur með einu eða tíu mörkum í svona útsláttarkeppni en agalega var þetta slappt hjá okkar mönnum í dag.

  • Orri skrifar:

   Sæll Ingvar.Það var ekki hátt risið á okkar mönnum í þessum leik en sigur er sigur.

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Nei, þetta var bara ömurlegt að horfa á. Menn virtust verða ferlega taugaveiklaðir eftir að Lincoln skoraði og maður hafði alltaf á tilfinningunni að þeir myndu jafna eftir einhvern klaufaskap. Hefði það gerst þá held ég að Everton hefði hrunið og leikurinn tapast.
    Vonandi verður nú viðsnúningur á gengi liðsins og við förum aftur að vinna leiki.

 8. Diddi skrifar:

  maður ætti auðvitað ekkert að vera að lesa svona enda lokið þið bara augunum þeir sem vilja 🙂 https://www.hitc.com/en-gb/2019/01/06/everton-fans-react-to-gylfi-sigurdssons-latest-performance/

  • Elvar Örn Birgisson skrifar:

   Las þetta og auðvitað er þarna verið að vitna í twitter færslur aðdáenda en þar er auðvitað alltaf hægt að finna bæði jákvætt og neikvætt um alla leikmenn. Fannst sjálfur Gylfi vera í miðlungs-góður miðað við aðra í þessum leik en jákvætt að hann amk átti nokkur ágætis skot sem hefðu getað skilað marki.
   Davies, Gana, Gomez, DCL og Tosun fannst mér t.d. vera verri en Gylfi og Gylfi verið í top 3 af Everton leikmönnum í vetur (ásamt Digne og Richarlison). Samt alveg sammála að þetta var ekki hans besti leikur í gær. En náðum sigri í 3 umferð FA sem er betra en seinustu 2 ár svona til að taka jákvæða gæjann á þetta 🙂

 9. Diddi skrifar:

  ha, ha, átti ekki von á öðru. Ég sá þennan leik ekki, sem betur fer. En það sem ég hef lesið er að okkar menn hafi verið vægast sagt ömurlegir. Og ég held að þeir séu bara ekkert að fara að lagast undir þessum manni sem er við stjórnvölinn. Það sem maður hefur lesið um hann er að hann sé frekar einstrengingslegur og fari sínu fram þangað til í óefni er komið.

  • Elvar Örn Birgisson skrifar:

   Diddi, ég var í raun viss um að þú hefðir ekki séð leikinn og var að hugsa um að spyrja þig að því, hehe. Leikurinn var frekar kaflaskiptur þá af okkar hálfu og eftir ca 25 mín leik þá hefði ég spáð þessum leik 5-0 en menn fóru bara í Panic mode eftir þetta mark þeirra á 28 mínútu.

 10. Ari G skrifar:

  Skrítið eftir að Liverpool skoraði sigurmarkið á móti Everton er eins og allir vilji og geta hafi horfið og leikmennirnir virðast ekki hafa nægan áhuga að vinna leiki. Veit ekki hverjum er um að kenna stjóranum eða leikmönnunum. Af hverju þarf stjórinn alltaf að taka alla sök á sig en leikmenn enga hef aldrei getað skilið þetta. Everton vann leikinn það er það sem skiptir máli. Núna þurfa leikmenn að rísa upp aftur og vinna bikarkeppnina fyrir okkur stuðningsmenn alla og sýna úr hverju Everton eru gerðir úr til að fara að spila alvöru fótbolta aftur á miklum hraða.

  • Orri skrifar:

   Sæll Ari G.Ég held að það sé bara allt liðið bæði leikmenn og stjóri sem verða taka sig saman í adlitinu og fara gera eitthvað að viti og það strax í næsta leik.

 11. Finnur skrifar:

  Þessi er að fara á völlinn í fyrsta skipti… 🙂
  https://twitter.com/Evertonthat_/status/1082017110216400902

 12. Ari S skrifar:

  Það verður Millwall gegn Everton í 4. umferð.

  • Finnur skrifar:

   Hmm… Ég sem var að vonast eftir að sjá Everton – Liverpool í fjórðu umferð. Oh well. Millwall it is. Hefði viljað fá leikinn á heimavelli samt.

 13. Finnur skrifar:

  Sýnist drátturinn annars vera svona í heild sinni:

  Arsenal vs Manchester United
  Crystal Palace vs Tottenham
  Barnet vs Brentford
  Portsmouth vs QPR
  Middlesbrough vs Newport
  Manchester City vs Burnley
  Chelsea vs Sheffield Wednesday/Luton
  Newcastle/Blackburn vs Watford
  Accrington Stanley vs Derby or Southampton
  Doncaster vs Oldham
  Brighton vs West Brom
  Bristol City vs Bolton
  Shrewsbury/Stoke vs Wolves
  Millwall vs Everton
  Swansea vs Gillingham
  AFC Wimbledon vs West Ham

 14. Diddi skrifar:

  nú er Silva búinn að hesthúsa færri stigum heldur en „stóri sam“ í jafnmörgum leikjum. Hvað finnst mönnum um það og hvað fannst mönnum um ráðninguna á Silva? Ég skildi aldrei hvaða voðalega áherslu Moshiri lagði á að fá hann. Hann hefur aldrei verið lengi í starfi og við erum sjötta liðið sem hann þjálfar á stuttum ferli sem spannar átta ár. Hann er álíka brandari og steve bruce sem er að þjálfa sitt tíunda lið á tuttugu árum. Vona samt að Silva reynist betri en ruslahaugurinn sá. Leikmannaferill Silva virðist líka hafa verið frekar skrautlegur. Ég held að hann sé ekki maðurinn til að leiða okkur til gullára því miður.

  • Orri skrifar:

   Sæll félagi.Mér finnst gengið í vetur vera algjörlega afleitt hverju sem um er að kenna.Silva var ekki á mínum óskalista þegar að hann var ráðinn en gott fyrir okkur að pæla svilítið í þessu sem þú ert að benda á.

 15. Teddi skrifar:

  Mikið til í þessum pælingum.
  Næstu þrír leikir eru gegn Bou-So’ton-Huddersf.

  Vonandi sjáum við 7 eða 9 stig úr þessum leikjum, annars má skoða stjóraskipti alvarlega.

  #takkGylfi

 16. Diddi skrifar:

  ég vona heitt og innilega að Everton verði komið niður í 12. sæti eftir leiki dagsins 🙂

  • Orri skrifar:

   Hvað er í gangi hjá þér félagi.

   • Diddi skrifar:

    hefðum verið í 12. sæti ef liverpool hefði tapað, svo einfalt er það nú, var ekkert að óska okkur norður og niður, vona bara að við hífum okkur upp á morgun en óttast að við gerum það ekki 🙂

  • Orri skrifar:

   Alveg öruglega og háir verðmiðar á þeim.Nei alveg öruglega ekki þeir fara á brunaútsölu.

 17. Diddi skrifar:

  leikurinn í dag er allt í einu orðinn leikur um fallbaráttu, það mætast liðin í 18 og 19 sæti í deildinni ef við tökum síðustu 6 leiki sem viðmið. Mikið hefur verið skorað af mörkum í viðureignum þessara liða eða 29 mörk í 7 leikjum og meðaltalið er það hæsta í viðureignum liða sem hafa spilað fleiri en 6 deildarleiki uppá 4,14 mörk í leik. Ég held að þetta verði strögl en vona að við vinnum en er skíthræddur við þetta Bournemouth lið. Mín spá er tap 2-3 🙁

%d bloggers like this: