full screen background image

Burnley – Everton 1-5

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik á útivelli við Burnley í dag, en flautað var til leiks kl. 15:00.

Uppstillingin: Pickford, Mina, Zouma, Keane, Digne, Gylfi, Gomes, Coleman (fyrirliði), Bernard, Calvert-Lewin, Walcott.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Jagielka, Gueye, Davies, Richarlison, Niasse.

Everton liðið var greinilega staðráðið í að bæta upp fyrir síðasta leik, enda mættu þeir til leiks af miklum krafti og skoruðu mark strax á þriðju mínútu eftir góða pressu á mark Burnley. Há fyrirgjöf frá hægri var skölluð út úr teig en þá kom bara há fyrirgjöf hinum megin frá, sem Yerry Mina skallaði inn. Fyrsta mark hans fyrir félagið. Frábær byrjun á leiknum — og þetta átti bara eftir að batna eftir því sem leið á hálfleikinn.

Luca Digne bætti við öðru marki beint úr aukaspyrnu á 12. mínútu. Glæsilegt skot í sveig yfir vegginn og vinstra megin við Joe Hart, sem náði að koma hendi á boltann en skotið of fast og fór inn. 2-0 Everton!

Bernard komst svo í flott færi á 20. mínútu þegar hann stal boltanum af einum aftasta varnarmanni Burnley en varnarmaðurinn náði að hlaupa hann uppi og rétt tókst að stinga tánni fyrir skotið frá Bernard og boltinn í horn. Hornið varð hins vegar að vítaspyrnu þegar Gylfi sendi fyrir og Ben Mee snerti boltann með hendi. Gylfi brást ekki á punktinum. 3-0 Everton.

Ekkert hafði verið að gerast hinum meginn vallar alveg fyrsta hálftímann en pressan jókst í kjölfarið á þriðja markinu. Burnley náðu svo loks að komast í færi á 35. mínútu þegar þeir fengu aukaspyrnu sem Gibson skallaði að marki en Pickford varði frábærlega í horn. En í kjölfarið minnkuðu þeir muninn hornspyrnu á 37. mínútu. Pickford blokkeraður (líklega ólöglega) inni í teig áður en skalli á mark kom, en Pickford varði skallan í stöng og út, og þar lúrði sóknarmaður Burnley og potaði inn.

Í kjölfarið leit um tíma út fyrir að Burnley væru að komast aftur í leikinn en Everton náði að kæfa það í fæðingu. 3-1 í hálfleik.

Minna um færi í seinni hálfleik, allavega framan af, en þegar leið á opnuðu Walcott og Calvert-Lewin vörn Burnley upp á gátt með flottu þríhyrningaspili í gegn sem endaði á því að Walcott komst upp að marki hægra megin og með markvörð hlaupandi á móti sér reyndi hann sendingu til vinstri á Calvert-Lewin. En því miður var Calvert-Lewin mættur örlítið of seinn og náði ekki að pota inn þannig að upplagt færi fór forgörðum.

Everton komst í fína skyndisókn á 64. mínútu þar sem Gylfi komst að marki innan teigs hægra megin og reyndi skot nálægt marki en varnarmaður Burnley kastaði sér fyrir skotið. Frákastið til Coleman, sem var fyrir aftan hann, og hann þrumaði að marki en aftur blokkerað, í þetta skiptið í hliðarnetið og í horn. Upp úr horninu fékk Keane upplagt skallafæri upp við mark en varnarmaður Burnley ýtti í bakið á honum. Ekkert dæmt — samt klárlega miklu meiri snerting en í löglega markinu sem var dæmt af í síðasta leik… Nei, ég er ekkert bitur. 🙂

Calvert-Lewin var skipt út af fyrir Richarlison á 67. mínútu og pressan frá Everton jókst eftir því sem leið á. Í einni þungri sókn, barst boltinn út úr teig til Everton leikmanns sem sendi hann til vinstri á Luca Digne sem lagði hann fyrir sig með vinstri fæti og þrumaði inn af löngu færi. Það löngu að manni brá að sjá boltann í netinu. Glæsimark og staðan orðin 1-4!

Gomes var skipt út af fyrir Gana stuttu síðar og Bernard svo út af fyrir Davies undir lok leiks.

Burnley fengu eitt færi í lokin þar sem lág fyrirgjöf kom fyrir markið en þeir náðu ekki að pota boltanum í netið og hann sigldi því framhjá markinu. Það kom hins vegar í hlut Everton að skora, hinum megin vallar, rétt fyrir lok leiks. Gylfi var arkitektinn að því marki, sendi frábæra stungusendingu inn fyrir vörn Burnley, þar sem Richarlison kom á hlaupinu inn í teig, lagði boltann fyrir sig með einni snertingu og sendi hann framhjá Joe Hart sem kom hlaupandi út úr marki Burnley. Lokastaðan 1-5 fyrir Everton.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Digne (9), Coleman (7), Zouma (7), Keane (8), Mina (8), Gomes (6), Gylfi (8), Bernard (8), Walcott (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Richarlison (7). Maður leiksins: Lucas Digne.

51 Athugasemdir

 1. Eirikur skrifar:

  0-2 eftir 15 mín ekki slæmt. Hefði átt að vera 2-0 á móti Tottenham og þá hefðum við væntanlega fengið öðruvísi leik.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Burnley vinnur 4-3

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var betra.

 4. Diddi skrifar:

  gott að skora 5 en þetta var gegn handónýtu liði sem er að ströggla og við vorum alls ekkert rosalega góðir í þessum leik. Hörmulegt að fá á sig svona mark og enn einu sinni er þessi svæðisvörn ekki að virka, menn vita ekkert hvað þeir eiga að gera. Á meðan hann þrjóskast með þessa vörn þá þurfum við að skora 2-3 mörk til að vinna leiki.

  • Elvar Örn skrifar:

   Sammála Diddi, ekki hægt að vera sáttur með 5 mörk á útivelli. #Kaldhæðni

   • Diddi skrifar:

    gott að þú ert á lífi vinur, poppar bara upp eftir sigurleiki 🙂

    • Elvar Örn skrifar:

     Er það?

     • Ari S skrifar:

      Og sumir poppa bara upp eftir tapleiki… Gleðileg jól, gleðileg jól… 🙂

      En annars eru menn ekki sáttir með markatöluna 7-7 í tveimur leikjum?

    • Orri skrifar:

     Sæll félagi.Ég sá Liverpool vinna eitt allra daprasta lið sem ég hef sé spila í deildini í vetur Newcastle að við skulu bara gera jafntefli við svo lélegt lið segir allt sem segja þarf um hvað Everton er lélegt lið.Það ríkir oft þögn á þessari síðu þegar að illa gengur hjá mínum mönnum en að vinna lið sem að öllu óbreyttu fellur í vor er nú ekkert til að státa af við þurfu stig á móti liðunum fyri ofan okkur annars eum við bara að tala um sæti 10-15 í vor.Það vantar allan metnað í allt í kringum liðið mitt.

     • Ari S skrifar:

      Hvers vegna ertu að horfa á Liverpool en ekki Everton? Var þetta dýfa hjá Salah? Annars er Liverpool í augnablikinu efsta og sennilega besta liðið. Pep Guardiola viðurkenndi það í viðtali í dag. Hann sagði líka að liðið hans væri ennþá með í keppninni og myndu ekki gefa neitt eftir.

      Mótið er hálfnað og mikið eftir. Ég vil meina ða það sé bara hollt fyrir andann að sleppa þessu tali um sæti í maí, njóta stundarinnar og hugsa bara um einn leik í einu. Það ætla ég að gera, annars hverf ég í þunglyndi. Ég er ekki þjálfari og veit ekki helminginn um fótbolta á við Marco Silva. Ég er stuðningsmaður Everton.

      Kær kveðja og gleðileg jól kæru félagar og vinir 🙂

      Sigurgeir Ari.

  • Ari S skrifar:

   Diddi stundum er gaman að lesa póstá frá þér og stundum ekki.

   En mig langar aðeins að fara inná þetta atriði sem þú minnist á hér að ofan, með svæðisvörnina. Þetta virðist vera það eina sem þú gagnrýnir eða allavega það helsta.

   Spurningin er, hvernig á varnarleikurinn að vera? Hvaða kerfi er best þegar við erum að fá á okkur hornspyrnurétt og aukaspyrnureyndar, hvernig er best að verjast slíkum aðstæðumálum að þínu mati. Þú Diddi minn liggur ekkert á skoðunum þínum og endilega láttu vaða 🙂

   Kær kveðja Ari S

 5. Elvar Örn skrifar:

  Hver er þessi félagi? Er einhver hér í þessu spjalli að missa sig yfir þessum sigri? Finnst samt ekkert að því þó svo væri. Er bara hundleiðinlegt að hafa svona leiðinda færslur endalaust. Flottur sigur í dag og mér er drullu sama þó þú eða þið eruð ekki sammála.

  • Orri skrifar:

   Sæll Elvar.Þetta átti að vera á Didda.Það sem mér leiðist svolítið að það megi ekki gagnrýna liðið á þessari síðu eiga bara allir að vera ánægðir þó að liðið spili illa leik eftir leik ég er mikil félagsvera en ég hef alltaf þorað að segja mína meiningu á hlutunum hvort sem er ánægður eða ekki.En ef þessi síða á bara vera fyrir já fólk skal ég bara láta mig hverfa að þessari síðu ef jáurunum líður betur með það.En þegar að þú talar um að mönnum leiðist að liðið sé gagnrýnt hér þá hefur manni stundum blöskrað þegar liðið er hafið upp til skýja eftir tapleiki og menn segja þetta er í góðu lagi.

   • Elvar Örn skrifar:

    Orri, nei alls ekki, auðvitað viljum við hafa hér allar skoðanir bæði góðar og slæmar en skemmtilegast þykir mér þegar þær eru í bland. Ef liðið á góðan sigur þá þykir mér ansi skrítið ef menn tína bara til það sem miður fer og er ég þá að tala um almennt en ekki þig frekar en annan.
    Eftir frekar gott run þá hafa seinustu 5 leikir liðsins (fram að leiknum gegn Burnley) ollið vonbrigðum og kannski var Liverpool þar undantekning því Everton átti ekki skilið að tapa þeim leik.
    Það eru áhugaverðar viðureignir framundan og við eigum 5 af 6 toppliðum á heimavelli í seinni hlutanum, spurning hvort liðið nær að brjóta þessa top 6 grýlu þar.

    • Orri skrifar:

     Sæll Elvar.Það er rétt hjá þér eiga öll sjónarmið að koma fram,en ég fer ekki leynt með það 27 stig í 20 leikjum finnst mér mjög dapurtsvo ekki sé meira sagt.

 6. RobertE skrifar:

  Stuðningsmenn ganga í gegnum súrt og sætt með liðinu sínu. Sumir aðilar hérna inná eru eingöngu með neikvæð orð þrátt fyrir 4 marka sigur á útivelli sem að mér finnst bætti fyrir tapið gegn Tottenham. Ég hef séð Everton spila betur en þeir gerðu í dag en sem betur fer kom það ekki að sök. 3 virkilega jákvæð stig í hús og útileikur á móti Brighton í næstu umferð, vonandi koma 3 stig þaðan.

  • Diddi skrifar:

   fyrirgefðu en var það ekki einmitt það sem ég sagði? EEEEn sumir koma ekki inná þessa síðu nema eftir sigurleiki og það kalla ég pollýönnur og ekkert annað

   • RobertE skrifar:

    Ef að þú ert að tala um hann Elvar þá er hann einn af þessum sem ganga í gegnum eld og brennistein með liðinu sínu, annars man ég ekki eftir að hafa lesið neitt jákvætt eftir þig…

    • Diddi skrifar:

     ég gleðst ekki yfir því að mínir menn tapi og get ómögulega séð neitt jákvætt við það, og ég get ómögulega séð að þessi sigur í dag hafi bætt eitthvað fyrir tapið á þorláksmessu.

    • Diddi skrifar:

     RobertE, þú mátt nú alveg lesa það jákvæða líka 🙂

   • Elvar Örn skrifar:

    Diddi, þetta er varla svaravert. Þú veist betur, eða hvað?

    • Diddi skrifar:

     Elvar, hvar er leikgreiningin frá þér í Mancity leiknum og Tottenham leiknum, ég hef ekki séð hana. Þú hefur yfirleitt gefið þér góðan tíma og komið svo með mikla greiningu en oft vantar hana þegar gengið er ekki uppá sitt besta. Enda er það kannski best að vera ekkert að skrifa inná þessa síðu nema þegar vel gengur.

     • Elvar Örn skrifar:

      Æi það er nú gott að þú saknir minna skrifa Diddi. Ég skrifa reyndar nánast alltaf um leiki hvort sem við vinnum eða töpum. Þess má geta að ég skrifaði ekkert í seinasta sigri Everton hér á síðunni svo þessi staðhæfing þín fellur um sjálfa sig. Síðan þá skrifaði ég fréttina þegar Everton gerði jafntefli við Newcastle og hef bara ekkert verið mikið online í desember, enda ekkert óeðlilegt við það. Ef menn eru að segja að ég gagnrýni hvorki lið né leikmenn þá segir það meira um þá sem það segja enda tóm tjara. Hvenær vann Everton annars útileik með 4 marka mun?

 7. Ari G skrifar:

  Flott hjá Everton að vinna 5:1 úti það er mikil framför þótt Burnley sé lélegt þá er alltaf gott að vinna 5:1 úti. Gott að koma til baka eftir hræðilegan leik á móti Tottenham en Everton á því miður langt í bestu liðin ennþá en spilamennskan og skemmtanagildið er miklu betra en þegar Þverhausinn Sam A var að stjórna liðinu á síðasta tímabili. Vonandi nær Everton allavega 60 stigum í vor þá væri kannski smá von í 6 sætið. Mér finnst allt í lagi að gagnrýna eða hrósa liðinu þegar við á og allir hér hafa rétt að segja sína skoðun hér hvort sem menn séu jákvæðir eða neikvæðir.

  • Diddi skrifar:

   takk fyrir Ari G

  • Orri skrifar:

   Takk fyrir Ari G.Ég held að allt Everton fólk hafi þurft að labba í gegnum súrt og sætt með liðinu ekkki bara Róbert og Elvar ég hef gert það í rúma hálfa öld og geri enn.

 8. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Flottur sigur í dag og gott að sjá liðið koma svo vel til baka eftir hryllinginn á Þorláksmessu. Mér fannst samt koma nokkuð óöryggi yfir okkar menn fyrstu 5 til 10 mínúturnar eftir að Burnley skoraði og eins fannst mér menn seinir í gang eftir leikhlé. Þeir komust upp með það í dag en betra lið hefði örugglega náð að refsa fyrir það.

 9. Eirikur Einarsson skrifar:

  Nú fer í hönd athyglisverð leikjaruna, næstu 7 leikir eru gegn Brighton (ú), Leicester (h), Bournmouth (h), Southampton (ú), Hudderfileld (ú), Wolves (h), Watford (ú). Er það til of mikils krafist að fá fullt hús út úr þessum viðureignum? Við erum jú, Everton! Ég ætla að leyfa mér að vona að nú fari í hönd mjög góður kafli hjá liðinu og þeir finni gírinn og við getum fagnað 9. febrúar að vera komnir með 48 stig! Alla vega ekki langt frá því.

  • Elvar Örn skrifar:

   Ég upplifi tvær grýlur hvað Everton varðar. Þeir geta bara ekki unnið topp 6 liðin allt frá því að Moyes var við stjórnvölinn og hin er sú að þegar Everton á séns að ná top 6 eða top 4 eða heilt yfir þegar sigur kemur liðinu í góða stöðu þá virðist það nánast alltaf klikka. Hvað segið þið, er eitthvað til í þessu eða eru fleiri grýlur í gangi?

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Leikmenn sem hefur gengið illa að skora, eiga eftir að skora sitt fyrsta mark fyrir félag eða geta skorað tímamótamark, gera það oftast gegn okkur.

 10. Elvar Örn skrifar:

  Áhugavert að sjá hvaða álit Marcel Brands hefur á Grétari Steins sem er nýr Scout hjá Everton í Evrópu. Hann segir Grétar vera Pitbull er kemur að leikmanna vali en hægt er að lesa frétt um það hér :
  https://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/exclusive-marcel-brands-how-new-15602706

 11. Elvar Örn skrifar:

  Ég var að leita að seinasta stóra útisigri Everton og sé bara tvo 0-3 sigra á seinustu 5 leiktíðum. Á þessum árum hefur Everton ekki skorað fleiri en 3 mörk á útivelli og væri gaman að vita hve mörg ár eru síðan Everton skoruðu 5 á útivelli.

  • Ari S skrifar:

   Uss Elvar þú mátt ekki vera svona jákvæður… er þetta virkilega stærsti sigur okkar á útivelli síðustu fimm árin?

 12. Finnur skrifar:

  Digne og Mina í liði vikunnar að mati BBC :
  https://www.bbc.com/sport/football/46696457

 13. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Það er ekki sama Jón og séra Jón
  https://www.mbl.is/sport/enski/2018/12/27/salah_fer_ekki_i_leikbann/
  Þetta enska knattspyrnusamband er náttúrulega bara djók.

 14. Georg skrifar:

  Stærsti útisigur Everton í deildinni síðan september 1985. Sem virðist ekki nóg til að kæta alla.

  Frábær sigur og vonandi að liðið komist á skrið aftur eftir lélegar síðustu vikur.

 15. Georg skrifar:

  Markið hjá Yerry Mina var númer 7000 hjá Everton í efstu deild. Fyrsta liðið til að ná þessum áfanga.

  • Ari S skrifar:

   Þetta er flott, gaman að þessu Georg 🙂

   Everton mun setja annað/nýtt met þegar þeir fara á suðurströnd Englands á laugardaginn – þeir verða þá fyrsta liðið til að leika 4500. leikinn í efstu deild í Englandi . Það er 334 leikjum meira en Liverpool og Arsenal sem bæði hafa leikið 4115 leiki.

   • Ari S skrifar:

    Þeir setja reyndar met í þessum skilningi í hverjum einasta leik ef út í það er farið en þetta eru flottar telur að ná, þykir mér.

    Kær kveðja,

    Ari

  • Orri skrifar:

   Sæll Georg.auðvita gleður það alla stuðnigsmenn Everton þegar liðið vinnur leikina sína,en það má nú lika tala um tapleikina og vera svekktur yfir sumum þeirra.En við skulum vona að það fari að birta til hjá okkur.

 16. Georg skrifar:

  Everton voru komnir í 3-0 eftir 22. mínútur sem hefur ekki gerst hraðar síðan október 1987.

 17. Diddi skrifar:

  ég hef mikla trú á DCL og hann þyrfti að skora eitt til tvö mörk á morgun til að fá aukið sjálfstraust og komast almennilega í gang, hann er fljótur og teknískur og mjög líkamlega sterkur. Hins vegar horfði ég á leik Brighton gegn Arsenal og þeir eru með massívt lið sem við erum ekkert að fara að valta yfir. Ef þeir éta það sama og þeir gerðu fyrir þann leik þá eru þeir til alls vísir. Vonum samt að það líði ekki önnur 33 ár í 5 mörk á útivelli.

  • Theo a.k.a. Teddi skrifar:

   Já vona að DCL fái að byrja gegn Brighton.
   Richarlison má koma inn í stað nafna míns Walcott.

  • Ari S skrifar:

   Leikdagur!

   BHA með massívt lið sagði einhver hér að ofan. Burnley með lélegt lið sagði einhver hér að ofan.

   Þetta eru nú bara álit manna og það er akkúrat það sem við eigum að sýna hér á síðunni, álit okkar.

   Það má líka minnast á að síðasti sigurleikur Burnley var gegn Brighton & Howe Albion. (BHA) 8. Des. Samkvæmt því er Burnley sterkara en Brighton og við ættum að sigla auðveldlega í gegnum leik okkar í dag.

   Ég spái auðveldum sigri okkar manna í dag. 0-5 eða eitthvað álíka.

   Kær kveðja,

   Ari

   • Diddi skrifar:

    í leik Burnley og BHA hafði BHA algjöra yfirburði 63% með boltann og miklu fleiri marktilraunir fáar á rammann samt þó það segi aldrei alveg allt. BHA er búið að taka 15 stig af 22 á heimavelli og ég var bara að lýsa því sem fyrir augun bar í síðasta heimaleik þeirra gegn Arsenal þar sem með smá heppni hefðu þeir tekið öll þrjú stigin. Mér fannst Arsenal aldrei sjá til sólar í þeim leik.

%d bloggers like this: