Everton – Newcastle 1-0

Mynd: Everton FC.

Everton vann góðan sigur á Newcastle í kvöld, með um 10 gallharða íslenska Everton menn á pöllunum, sem fengu fjörugan og skemmtilegan sigurleik í kaupbæti við bráðskemmtilega Íslendingaferð til Liverpool.

Uppstillingin: Pickford, Baines, Jagielka, Keane, Coleman, Gana, Schneiderlin, Rooney, Bolasie, Walcott, Tosun.

Varamenn: Robles, Martina, Niasse, Funes Mori, Davies, Calvert-Lewin, Baningime.

Everton byrjaði leikinn af mikilli ákefð og krafti og hefðu getað fengið víti á fyrstu sekúndunum þegar Walcott var sparkaður niður í teig en dómarinn viss í sinni sök og dæmdi ekkert. Skot í kjölfarið sigldi framhjá vinstri stönginni — Everton liðið óheppið að komast ekki yfir á fyrstu mínútunni.

Leikjaplan Newcastle var augljóst — þeir sátu nokkuð djúpt og leyfðu Everton að sækja, en beittu hröðum skyndisóknum um leið og þeir náðu boltanum — vitandi það að Everton leyfir bakvörðunum að sækja fram völlinn (sem skilja pláss eftir fyrir aftan sig) og Newcastle með menn sem geta sótt hratt.

Fyrir vikið var Everton mikið með boltann (68%) og virkuðu alltaf líklegri til að skora. Besta færi seinni hálfleiks kom þegar Jagielka komst í dauðafæri upp við mark eftir hornspyrnu á 34. mínútu. Það kom þegar Jagielka brunaði inn í teig vinstra megin og fékk skalla frá Keane en Jagielka reyndi skot með hægri (þegar hann hefði átt að reyna vinstri fótinn) og boltinn fór yfir þverslá.

Newcastle minntu þó reglulega á sig án þess að ná að ógna marki. Hvorugt liðið náði skoti að marki í fyrri hálfleik en Newcastle menn samt heppnir að vera ekki 2-0 undir.

Staðan 0-0 í hálfleik.

Everton komst yfir stuttu eftir að flautað var til seinni hálfleiks þegar Bolasie fékk boltann á hægri kanti. Coleman kom eins og raketta upp hægri kantinn á „overlappið“ (eins og enskurinn kallar það), en Bolasie ákvað að nýta hann ekki, heldur senda háa sendingu fyrir í staðinn. Sendingin endaði hjá Walcott sem missti hann of langt frá sér, boltinn endaði í Newcastle leikmanni og fór þaðan aftur til Walcott sem tók eina snertingu til hliðar og þrumaði honum í þaknetið. 1-0 fyrir Everton eftir 51. mínútur.

Stuttu síðar var Schneiderlin skipt út af fyrir Davies — Schneiderlin leit út fyrir að hafa meiðst og Calvert-Lewin einnig skipt inn á, fyrir Bolasie á 59. mínútu.

Besta færi Newcastle í leiknum kom á 64. mínútu eftir hornspyrnu þegar Gale, nýkominn inn á sem varamaður, átti skot upp við mark… en boltinn yfir mark. Þeir áttu sitt fyrsta skot á mark um svipað leyti, sem segir reyndar minna um gang leiksins en maður myndi ætla. Skotið hins vegar hættulaust og Pickford greip boltann auðveldlega.

Niasse kom inn á fyrir Tosun á 85. mínútu og síðustu mínúturnar voru pínulítið taugatrekkjandi, ekki síst þegar 5 mínútum var bætt við og Baines fékk skurð í andlitið og Everton því manni færri í nokkrar mínútur en þeir sigldu þessu í höfn.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (7), Jagielka (7), Keane (7), Baines (7), Gueye (6), Schneiderlin (6), Walcott (7), Rooney (6), Bolasie (6), Tosun (6). Varamenn: Davies (6), Calvert-Lewin (6). Maður leiksins: Theo Walcott.

5 Athugasemdir

  1. Eiki Einars skrifar:

    Everton, þeir geta ekki rassgat, þetta fór í fyrst huga mér þegar ég hugsaði um veturinn og leikinn í kvöld á móti Newcastle. En ég ætla að vera hughraustur, hef haldið með þeim alveg síðan árið 1972. Við hljótum að vinna þetta í kvöld!

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Fyrri hálfleikur var allt í lagi, vonandi verður seinni hálfleikur betri. En ég efast um það.

  3. Ari S skrifar:

    Mér finnst eins og það séu alltaf sömu póstarnir aftur og aftur við hvern einasta leik.

    Everton 1-0 Theo Walcott 51.

    Brosa svo 🙂

  4. Ari S skrifar:

    Gaman að sjá baráttuna í liðinu á köflum í kvöld. Keane var fínn og sömuleiðis var Theo Walcott flottur en umfram allt þrjú stig í hús og við getum verið glaðir stuðningsmenn Everton.

    Til hamingju með stigin þrjú Everton stuðningsmenn 🙂

  5. Jon ingi skrifar:

    Thad var flott ad vera a Goodison I kvold, dalitid taugatrekkjandi samt. En god 3 stig i hofn.