Burnley – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton á leik við Burnley kl. 12:30 í dag og komum við til með að birta uppstillinguna hér í aðdragandanum.

Uppstillingin: Pickford, Martina, Williams, Keane  Coleman, Gylfi, Davies, Gana, Walcott, Tosun, Calvert-Lewin.

Varamenn: Robles, Baines, Schneiderlin, Rooney, Bolasie, Niasse, Holgate.

Lítið að gerast fyrsta korterið en Everton átti að komast yfir á 14. mínútu þegar Gylfi sýndi hvers hann er megnugur. Var umkringdur varnarmönnum Burnley inni í teig en náði að komast framhjá þeim upp að endalínu og senda lágan bolta fyrir mark. Setti þar með Walcott í dauðafæri nálægt marki en skot hans hátt yfir. Líklega hefði reynst betra að leyfa Davies að skjóta sem var skammt undan og kom aðvífandi, því hann hafði meiri tíma til að athafna sig.

Tvö ákjósanleg færi frá Burnley komu í kjölfarið og í báðum tilfellum kross fyrir markið — fyrst frá Lennon hægra megin, svo frá Jóhanni Berg vinstra megin en varnarmenn Everton náðu að bægja hættunni frá í bæði skiptin.

Gylfi gerði aftur vel þegar hann náði að stela boltanum af miðjumanni Burnley og eftir nettan tvöfaldan þríhyrning við Walcott á hægri kanti kom há sending frá þeim síðarnefnda fyrir mark. Coleman framlengdi sendinguna með skalla yfir á Cenk Tosun sem var óvaldaður og skoraði flott mark með skalla. Fyrsta mark hans fyrir Everton í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu! Mikilvægt að fá hann í gang.

Cenk Tosun var svo næstum búinn að bæta við marki stuttu síðar eftir hraða skyndisókn. Fékk sendingu frá Walcott en skotið á fjærstöng vel varið af markverði Burnley.

Burnley fengu svo frábært skallafæri á 29. mínútu þegar Lennon sendi háan bolta inn í teig frá hægri og Barnes upp við mark náði að stýra honum á markið en Pickford átti heimsklassa vörslu og náði að slá boltann í horn. Viðbragðs-varsla eins og það er kallað á Englandi (reactionary save).

Everton fékk skyndisókn á 34. mínútu þar sem Tosun reyndi sendingu alveg utan af vinstri kanti fram á Gylfa sem var fremstur en aðeins of langt fyrir hann. Reyndist þó fullkomið fyrir Walcott sem kom á sprettinum inn í teig en missti jafnvægið við að sóla varnarmann Burnley og skotið laust, fór í jörðina og markvörður varði auðveldlega.

Burnley ekki langt frá því að jafna á 40. mínútu eftir aukaspyrnu og smá darraðadans inni í teig Everton sem endaði með því að Pickford kastaði sér á boltann og stöðvaði sóknina.

1-0 því staðan eftir fínan fyrri hálfleik. Everton með flott mark og voru öflugir í skyndisóknum, Burnley hættulegir í krossunum en línurnar verða örugglega lagðar í hálfleik með að stoppa þá krossa. Walcott örugglega ósáttur við að ná ekki að setja boltann í netið í þremur ákjósanlegum tilraunum.

Burnley byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og náðu að jafna á 55. mínútu. Löng stungusending fram, inn í teig þar sem Barnes var mættur á undan Keane og þrumaði framhjá Pickford. 1-1.

Tom Davies var svo skipt út af á 59. mínútu fyrir Wayne Rooney og Cenk Tosun sömuleiðis á 68. mínútu fyrir Niasse.

Gylfi hefði átt að klára leikinn fyrir Everton á 77. mínútu þegar boltinn barst til hans inni í teig eftir hreinsun frá varnarmanni Burnley. Gylfi lék fyrst á varnarmann, sem kom á fleygiferð að reyna að stoppa skotið, en skot Gylfa á fjærstöng fór hárfínt framhjá stögninni. Óheppinn að skora ekki þar.

Og það átti eftir að reynast dýrkeypt því Burnley komust 2-1 yfir örfáum mínútum síðar. Markið kom eftir hornspyrnu þar sem Ashley Williams dekkaði ekki manninn sinn og leyfði honum að skalla inn nánast óáreittur. Keane reyndi að koma Williams til bjargar en tókst ekki að skalla boltann frá.

Allardyce brást við með því að skipta út Gylfa fyrir Bolasie á 82. mínútu en Ashley WIllimans kláraði einfaldlega leikinn fyrir Burnley með því að slá til varnarmanns Burnley þar sem hann barðist um háa fyrirgjöf frá Rooney eftir aukaspyrnu Everton utan af kanti. Beint rautt spjald og ekkert hægt að segja við því. Afleitur leikur hjá Everton liðinu í seinni hálfleik og Williams þeirra lélegastur.

Lokastaðan 2-1 Burnley.

18 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Gaman aðs já Coleman í liðinu í dag… 4-4-2 Tosun og DCL báðir með í byrjun. Vonandi tekst að ná í þrjú stig…

  ÁframEverton!

 2. Ari S skrifar:

  TOSUN!!!!

  Burnley 0 Everton 1 20. mín.

 3. Ari S skrifar:

  Burnley búnir að eiga nokkur færi, Everton líka… Burnley munu án efa sækja mikið í síðari hálfleik. Nú reynir á vörnina.

  Einhver var að segja (ég las það á enskri síðu) að Williams og Keane væru ekki góðir saman – frekar að hafa Williams og Holgate saman.

  Núna verður Michael Keane að standa sig vel það sem eftir er af þessum leik.

 4. Gestur skrifar:

  Þessi leikur tapast eins og flestir útileikir hjá Everton

 5. Hörður skrifar:

  Vá þetta hefur sjaldan verið svona léglegt

 6. Eirikur skrifar:

  Asley Williams fæst gefins á næstu tombólu

 7. Elvar Örn skrifar:

  Eina jákvæða er að Williams fær ekki að spila næstu tvo leiki fyrir Everton. Ég myndi losa liðið við Allardyce strax, getur varla versnað.
  Tosun og Gylfi líklegastir til að bæta við mörkum og þeir voru teknir útaf, jeminn.

  • Ari S skrifar:

   Eru það ekki þrír leikir?

   • Elvar Örn skrifar:

    Jú rétt, og ekkert verra að hafa Williams fjarri í þrjá leiki. Vil Funes Mori inná. Klaassen líka. Og ef Jagielka er bara 4 Val þá á hann ekki að vera captain né Williams. Coleman sem captain bara strax.

 8. Gunnþór skrifar:

  Sopinn ekki alveg með þetta ég bara spyr hvað gerðist eiginlega hjá klúbbnum?

 9. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta hlýtur að vera síðasti naglinn í kistuna hjá Allardyce.

 10. Ari G skrifar:

  Núna þarf Everton að vanda valið á næsta stjóra. Ekki spurning að Sam verði rekinn kannski tórir hann fram á sumar ef hann er heppinn. Það verður erfitt að finna rétta stjórann. Nenni ég að spá meira í þessu eina sem ég hef áhyggjur af að Everton falli ekkert öruggt lengur. Skil ekki hver datt þessi vitleysa að ráða Sam hefði skilið ef hann hefði verið ráðinn fram á sumar lengur var greinilega peningasóun.

 11. Gestur skrifar:

  Ég er hættur að nenna að horfa á leiki með Everton.

 12. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Jæja það er leikdagur og eins og venjulega sest maður við skjáinn og vonar það besta en er viðbúinn því versta.
  Ég held að við munum hrifsa jafntefli úr klóm sigurs, þá á ég við það að við gloprum niður forystu í jafntefli.

%d bloggers like this: