Newcastle – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Newcastle á útivelli í kvöld, aðeins þremur dögum eftir jafnteflið á Anfield og gerði Allardyce tvær breytingar á byrjunarliðinu: Niasse og Davies út af fyrir Lennon og Schneiderlin. Og hvort sem það gerði gæfumuninn eða eitthvað annað þá var allt annað að sjá til liðsins í kvöld sem náði sér í 13. stigið af 15 mögulegum (í öllum keppnum).

Uppstillingin: Pickford, Martina, Williams, Holgate, Kenny, Gana, Schneiderlin, Gylfi, Rooney, Lennon, Calvert-Lewin. Varamenn: Robles, Keane, Jagielka, Niase, Davies, Vlasic, Lookman.

Newcastle liðið byrjaði af krafti, eins og þeir gerðu gegn Leicester í síðasta leik sínum og voru ekki langt frá því að fá víti á fyrstu mínútunni þegar Martina steig á fótinn á sóknarmanni Newcastle, rétt utan teigs, sem var að komast inn fyrir. Ekkert kom þó úr aukaspyrnunni hjá Newcastle.

Það er orka í Newcastle liðinu og þulirnir höfðu á orði að útilið hér þurfa að standa af sér storminn fyrsta korterið eða svo. Everton gerði það með prýði — aðeins eitt skot á mark Everton, á 20. mínútu, sem Pickford varði auðveldlega.

Hvorugt liðið gaf nokkuð eftir þangað til allt í einu á 25. mínútu að mark hefði getað komið hvoru megin vallar sem var. Í sókn Everton átti Martina flotta sendingu á Calvert-Lewin sem rétt missti af skalla upp við markið. Hinum megin átti Matt Richie flott skot sem fór í stöngina og út. En Everton liðið brunaði bara í sókn og náði frábæru samspili milli Rooney og Calvert-Lewin sem endaði með fyrirgjöf frá þeim síðarnefnda og skalla frá Lennon á mark. Markvörður Newcastle varði en Rooney fyrstur í frákastið og potaði inn. Staðan orðin 0-1 fyrir Everton.

Akkúrat það sem Everton þurfti, þar sem kvíði stuðningsmanna byrjaði strax að smita út frá sér inn á völlinn til leikmanna Newcastle.

En Newcastle var hársbreidd frá því að jafna á 38. mínútu með algjöru undramarki eftir frábært einstaklingsframtak frá miðjumanni Newcastle sem tók skotið af mjög löngu færi. Leit ekki út fyrir að vera hættulegt en boltinn í innanverða stöngina hægra megin og út af vinstra megin. Spurning um einhverja sentimetra.

Gylfi svaraði með fínum skalla á mark eftir fyrirgjöf frá Kenny en markvörður varði.

Og þannig stóðu leikar í hálfleik — Newcastle áttu sín færi en fínn fyrri hálfleikur hjá Everton liðinu sem var mun jákvæðara í sínu spili en í síðasta leik, hélt boltanum og létu hann ganga vel.

Sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik; sterk byrjun frá Newcastle og Everton þurfti að standa af sér storminn í upphafi hálfleiks. Diame fékk frábært færi til að jafna þegar Newcastle náði í fyrirgjöf að koma boltanum aftur fyrir Pickford og Diame þurfti bara að pota inn í autt mark… en hitti ekki boltann. En svo róaðist þetta og mun minni ógn frá Newcastle í öllum seinni hálfleik en þeim fyrri.

Ekki mikið að gerast eftir þetta og það helsta markverða var að Vlasic var skipt inn á fyrir Lennon á 61. mínútu og var Vlasic sprækur. Gylfi átti svo aukaspyrnu á 70. mínútu sem Williams náði fríum skalla á mark en glæsilega varið hjá markverði Newcastle.

Tom Davies kom inn á fyrir Rooney á 76. mínútu — „and the goals keep on coming for Wayne Rooney“ sögðu þulirnir þegar þeir fóru yfir frammistöðu hans í undanförnum leikjum. Fimm mörk í jafn mörgum leikjum og stoðsending að auki.

Síðasta skipting Everton kom á 84. mínútu þegar Gylfa var skipt út af fyrir Jagielka og Allardyce skipti þar með í þriggja manna varnarlínu — en Everton sigldi þessu bara í höfn.

Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en undir lokin þurfti Jonjoe Shelvey að klippa niður Gana Gueye, sem brunaði fram í skyndisókn — og fékk Shelvey þar með seinna gula spjaldið sitt og rautt. Þar með slökknaði síðasti vonarneisti Newcastle.

Fjórði sigur Everton í 5 leikjum — 13 stig af 15 mögulegum.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Martina (7), Kenny (7), Holgate (8), Williams (8), Schneiderlin (7), Gueye (8), Rooney (7), Sigurdsson (7), Lennon (6), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Davies (6), Vlasic (7). Newcastle með 6 á línuna, fyrir utan nokkra með 5.

16 Athugasemdir

  1. Elvar Örn Birgisson skrifar:

    Hann er amk sýndur á nokkrum stöðvum í heiminum (ekki í beinni á Íslandi).

    Hægt er að sjá stöðvar t.d. hér:
    http://bestforkodi.com/upcoming-televised-football-where-to-watch-the-games/

    Einnig oft hægt að sjá hér (já og kaupa þar áskrift ef vill):
    http://ntv.mx/?c=2&a=0&p=109

  2. Marino skrifar:

    Þiðir eitthvað fyrir mig að seigja her athugasemd biður sammþykkis verður orugglega i viku nett einelti 😊

    • Finnur skrifar:

      Var að sjá þetta og er búinn að redda því. Ég veit ekki hvað það er en allar athugasemdir frá þér fara í bið — skil ekki af hverju. Það er ekki af því að okkur er illa við þig. 🙂

  3. marino skrifar:

    ekki var þetta fallegur fótbolti enn fyrsti sigur a utivelli i laaaaaaangan tima staðreynd fognum þvi 🙂

  4. Elvar Örn skrifar:

    Flottur sigur strákar. Missti af fyrstu 30 mín vegna mistaka hjá mér. En leikurinn var jú live á netinu og venjulegast er best að Google reddit soccerstreams og þá koma þeir linkar sem eru í boði frítt.

    Newcastle áttu tvö skot í stöng í fyrri en Rooney setti mark sitt nr 9 í deildinni og kom Everton yfir. Í seinni hálfleik var vörn Everton frábær og þar bestur var líklega Martina, nei er ekki að grínast en Williams einnig ansi sterkur.

    Útisigur gegn Newcastle ansi verðmætur og með sigri þeirra hefðu liðin verið á svipuðu róli en þess í stað höfum við tryggt stöðu okkar í efri hluta deildarinnar. Heimaleikur gegn Swansea næsta mánudag og möguleiki að hoppa upp í 9 sæti og innan við 10 stig í 4 sæti, áhugavert.

    Sam Allardyce. Well ég var 99% andvígur þeirri ráðningu en mögulega er þetta master move ráðning. 8 sæti um áramót sagði ég, sjáum til.

  5. Elvar Örn skrifar:

    Þetta var okkar fyrsti Útisigur í ár, vel gert Everton.
    Rooney efasemdarmenn beðnir um að rétta upp hendi,,, nefni engin nöfn,,, strax.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var nú gott. Engin snilldar spilamennska en góður varnarleikur skilaði þremur stigum. Mér fannst Gana, Kenny, Williams og Holgate okkar bestu menn í kvöld.

    • Elvar Örn skrifar:

      En Martina? Vörnin flott en hann bestur myndi ég segja. Kenny flottur sem og Williams, reyndi kannski minna á Holgate.

      Þetta er að koma strákar.

  7. Elvar Örn skrifar:

    Lennon líklega slakastur Everton manna í dag, byrja með Lookman í næsta leik.

  8. Ari S skrifar:

    http://www.goalsarena.org/en/video/england-barclays-premier-league/13-12-2017-newcastle-united-everton.html

    Sá ekki fyrri hálfleik og því ekki markið en fann það þarna. Markið kom eftir afar fallegan og góðan undirbúning.

  9. marino skrifar:

    fynnst leiðinlegast að sandro ramirez er hvergi að sja fannst hann sprækur siðast þegar hann fekk sens og hann skoraði lika þa
    han gerði 14 i la liga i fyrra það hlitur að vera hægt að notan

    man einhver eftir klassen

    • Ari S skrifar:

      Hvers vegna ættum við ekki að muna eftir honum? Hann lék 126 leiki með Ajax og skoraði í þeim 44 mörk. Hann endaði feril sinn hjá þeim sem fyrirliði. Sko, það sem mig langar að segja er að hann er ennþá mjög ungur og á án efa eftir að spjara sig hjá Everton fái hann séns eða það held ég allavega. Það eru allir búnir að viðurkenna að Ronald Koeman floppaði algerelga hjá Everton og hafði að mínu mati ekki góð áhrif á leikmennina sem hann stjórnaði hjá Everton. Bara alls ekki! Ég vil meina að skýrasta dæmi þess sé einmitt umræddur Davy Klaassen. Plíst ekki hæðast að honum marino, gefum honum séns undir stjórn Allardyce ef vilji hann (Davy Klaassen) vera áfram hjá okkur. Hann hefur ekki spilað marga leiki með okkur gefum honum meiri tíma og þá sérstaklega vegna þess að nýr stjóri er kominn. Það getur vel verið að Big Sam komi Klaassen í gang. sjáum til 🙂

  10. Eirikur skrifar:

    Hef ekki haft tök á þvi að fylgjast með seinustu leikjum hjá okkar mönnum enn er ánægður með stigasöfnun og fá mörk fengin á okkur 🙂
    Þessi spilamenska er svoldið svona „less is more“ 🙂
    Áfram Everton.

  11. Elvar Örn skrifar:

    Hafði ekkert að gera og horfði á leikinn aftur.
    Martina var klárlega bestur, Gylfi frábær líka og Jonjoe Kenny einnig. Holgate, Williams líka góðir sem og Gana var flottur. Rooney skilar alltaf sínu og DCL er nú orðið með mark eða stoðsendingu í hverjum leik eða second assist.
    Vildi fylgjast vel með Gylfa og hann átti tvö flott færi og líklega um 4 magnaðar sendingar sem hefðu auðveldlega gefið mark en var ekki fylgt nægilega vel eftir.
    Everton verður að vinna Swansea sem eru neðstir í dag og ég las einhversstaðar að þeir hafi skorað 9 mörk sem eru jafn mörg mörk og Rooney hefur skorað í vetur. Ekkert annað en sigur kemur til greina.