Everton vs MFK Ružomberok

Mynd: Everton FC.

Maður hálf vorkennir stuðningsmönnum annarra liða, sem flestir þurfa þeir að bíða fram í miðjan ágúst eftir að sjá fyrsta keppnisleik sinna liða en í kvöld hefst tímabil Everton formlega. Tímabilið byrjar kl. 19:00 í undankeppni Europa League með leik Everton við MFK Ružomberok frá Slóvakíu og nú gefst okkur færi á að sjá hvernig nýtt Everton lið nær að smella saman í alvöru leik.

Það segir ákveðna sögu um framgang Everton á leikmannamarkaði í sumar að töluverðar líkur eru á að enginn leikmaður sem Roberto Martinez keypti verði í byrjunarliðinu í leiknum. Það mun vera fráhvarf frá fyrri stjórum því David Moyes var á sínu þriðja tímabili enn að nota David Weir, Steve Watson og Duncan Ferguson (sem Walter Smith keypti) og Martinez notaði Baines, Stones og Mirallas frá tíma Moyes-ar.

Eitt ár er síðan Koeman gekk til liðs við Everton og hann hefur nú losað flesta af leikmönnum Martinez af launaskrá: Kone var leystur undan samningi en Cleverley, McGeady, Lukaku og Deulofeu seldir. Funes Mori er meiddur (og væri hvort eð er bara á bekknum) en af þeim leikmönnum sem eftir standa eru aðeins McCarthy, Lennon og Holgate líklegir og kannski Holgate líklegastur í byrjunarliðið (í fjarveru Coleman) — restin líklega á bekknum. Aðrir leikmenn, eins og Robles, Galloway, Niasse, Rodriguez og Tarashaj, verða líklega ekki einu sinni í hópnum.

Eitthvað er um meiðsli í herbúðum Everton en auk Funes Mori eru Barkley, Bolasie og Coleman frá, þar af allir nema Barkley til lengri tíma. Það verður fróðlegt að sjá hver byrjar í hægri bakverði en Jonjoe Kenny, Cuco Martina og Mason Holgate eru þar um hituna. Einnig er barátta um sæti á miðjunni við hlið Schneiderlin og Gana en þau tvö sæti vilja Mirallas, Lookman, Davies, Klaassen, Dowell og fleiri gera að sínum. Stekelenburg stóð sig mjög vel í síðasta æfingaleik en Pickford hefur bara leikið í 60 mínútur hingað til. Það verður því erfitt fyrir Koeman að velja.

Ein möguleg uppstilling: Pickford, Baines, Williams, Keane, Kenny, Schneiderlin, Gana, Mirallas, Klaassen, Sandro, Rooney.

Fastlega er búist við sigri Everton á liði MFK Ružomberok, sem eru 285 sætum neðar en Everton á UEFA styrkleikalista félagsliða. Þeir sýndu það þó á móti Brann í fyrri umferð að þeir geta bitið frá sér því þeir unnu upp eins marka tap á heimavelli með tveimur mörkum á útivelli í síðari leiknum. Búist er við að þeir spili 4-5-1 og beiti skyndisóknum með einn sterkan, líklega Nermin Haskić, á toppnum.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 unnu Generali CEE bikarkeppnina með 3-1 sigri á Burnley í úrslitunum. Mörk Everton skoruðu Tom Warren (tvö) og Ellis Simms en Simms var markahæsti maður mótsins með 6 mörk. Everton U23 unnu Hull U23 í æfingaleik á Spáni, 4-2, með mörkum frá Nathan Broadhead, Conor Grant, David Henen og Anton Donkor.

En, í kvöld leikur Everton við Ružomberok, eins og áður sagði og verður flautað til leiks um kl. 19:00. Leikurinn er í beinni bæði á Ölveri og á American Bar í Austurstræti.

4 Athugasemdir

  1. Teddi skrifar:

    Takk fyrir fína upphitun.

    Leikurinn er á dagskránni á Sportbarinn.is en hver veit hvað verður, American Bar með malandi túrhestum er ekkert síðri. 🙂

    • Finnur skrifar:

      Hann var ekki á dagskrá á Ölveri í morgun, þegar ég athugaði, en er kominn á listann núna…

  2. Elvar Örn skrifar:

    Flott intro Finnur og áhugaverð samantekt varðandi hlutfall leikmanna sem hann hefur fengið inn og þá sem fyrir voru, þ.e. hverjir taka þátt.

    Ég veit að flestir kunna að finna þennan leik á netinu en ég vil benda á eina góða leið til þess að horfa á hann í fínum gæðum.

    Leikurinn er á ITV4 sem er frí í UK (en ekki hægt að horfa beint frá Íslandi nema með smá fiffi) en hægt er að setja upp UK DNS með aðgangi hjá https://unlocator.com/ og fengið free 7 daga trial. Það eru leiðbeiningar á síðunni sem ég fór eftir, tók innan við 10 mínútur og skráði mig inn á itv.com og er kominn með aðgang að leiknum.

    Bíð spenntur eftir að sjá uppstillinguna og gaman að fá alvöru leik áður en deildin byrjar.