Arsenal vs Everton

Mynd: Everton FC.

Síðasti leikur tímabilsins er gegn Arsenal á útivelli kl. 13:50 á morgun (sunnudag) en breska pressan er þessa dagana að velta fyrir sér hvort þetta muni reynast síðasti leikur Arsenal undir stjórn Arsene Wenger. Þeir voru í töluverðri lægð í febrúar og mars en náðu að vinna sig upp úr henni og gott betur; hafa unnið sjö af síðustu 8 leikjum í öllum keppnum og eiga enn séns á Meistaradeildarsæti. Þeir þurfa þó að reiða sig á að einhver Liverpool leikmaður renni á bananahýðinu í sínum lokaleik og það getur allt gerst enn, eins og við höfum séð. Everton hefur að engu að keppa, Evrópusætið er tryggt og sigur eða tap skiptir ekki öllu máli.

Eins og við þekkjum er töluvert um meiðsli í herbúðum Everton: Bolasie, Funes Mori, McCarthy, Lennon, Stekelenburg og Coleman geta ekki tekið þátt á morgun og ungliðarnir Jonjoe Kenny, Dominic Calvert-Lewin og Ademola Lookman eru þessa dagana á HM U20 ára liða í Suður-Kóreu. Besic gæti hins vegar tekið þátt en hann var á bekknum í síðasta leik.

Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Williams, Jagielka, Holgate, Gana, Schneiderlin, Davies, Barkley, Mirallas, Lukaku.

Hjá Arsenal er Laurent Koscielny metinn tæpur en Alex Oxlade-Chamberlain er frá vegna meiðsla.

Í öðrum fréttum er það helst að kvennalið Everton vann WSL2 deildina með glæsilegum 4-0 útisigri á London Bees og leika því í efstu deild á næsta tímabili. Vel gert!

Koeman sagðist einnig vera farinn að leggja línurnar varðandi leikmannakaup í sumar en staðfesti jafnframt að McCarthy verður stór partur af plönunum á næsta tímabili. Framlenging á samningi Mirallas var auk þess staðfest af klúbbnum.

Everton kynnti nýja búningahönnun sem lítur bara ansi vel út fyrir næsta tímabil, verður að segjast. Það verður nýr stuðningsaðili, Sportpesa, framan á treyjunni og Livepool Echo notuðu tækifærið og birtu grein um sögu stuðningsaðila á treyjum Everton í gegnum tíðina.

En, Arsenal á morgun og Ölver ætla að sýna þann leik og aðra fimm sem eru á sama tíma. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta endar!

4 Athugasemdir

  1. þorri skrifar:

    hlakka til að sjá þennan leik á morgun vonandi bara skemtilegur leikur. Og hlakka til að filgjast með leikmanna kaupum hjá okkur.Vonandi kemur Gylfi til okkar

  2. Diddi skrifar:

    3-0 fyrir arsenal

  3. þorri skrifar:

    eigum við ekki verða bjartsýnir og segja 1-0 fyrir okkur mér er alveg sama hver skorar bara sigur

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta verður jafntefli 1-1