Everton vs Burnley

Mynd: Everton FC.

Burnley eru næstir á Goodison Park í 33. leik Úrvalsdeildarinnar en með sigri (eða jafntefli) kemst Everton upp fyrir Arsenal og mögulega United, allavega tímabundið. Burnley eru enn sigurlausir á útivelli — hafa tapað öllum útileikjum sínum nema fjórum, sem allir enduðu með jafntefli. Þeirra bíður nú risastórt verkefni — að stoppa Lukaku sem er búinn að vera eldheitur, kominn með 13 mörk í síðustu 8 heimaleikjum og hefur skorað í öllum heimaleikjum Everton á árinu. Markahæstur í deild, eins og við vitum, og nú búinn að skora fleiri mörk en allt Middlesbrough liðið á tímabilinu. Ekki furða að hann sé einn af fimm í vali fyrir bæði PFA Players’ Player of Year og Young Player of the Year (nú í þriðja skipti).

Gaman að segja frá því að Barcelona er eina liðið í topp 5 deildum Evrópu sem hefur skorað fleiri mörk á heimavelli á árinu (Barcelona 28, Everton 26).

Markmið Everton var að komast í Evrópukeppnina og það virðist vera í höfn en þeir vilja öruglega enda að minnsta kosti einu til tveimur sætum ofar til að þurfa ekki að keppa í forkeppni Europa League, sem klippir duglega af sumarfríi liðsins.

Sama lið er til reiðu og í sigurleiknum gegn Leicester en Williams er kominn aftur úr banni. Meiðslalistinn er þó nokkuð langur: Ramiro Funes Mori, Yannick Bolasie, Muhamed Besic, James McCarthy, Seamus Coleman og Aaron Lennon — allir frá. Besic er hins vegar allur að koma til eftir meiðsli og lék 45 mínútur (sjá vídeóklippu) með U23 ára liðinu á dögunum en hann er nokkrum vikum frá því að láta sjá sig í aðalliðinu, allavega. Mirallas, aftur á móti, er búinn að vera mjög heitur undanfarið og hlýtur að byrja leikinn.

Líkleg uppstilling: Joel, Baines, Jagielka, Williams, Holgate, Davies, Schneiderlin, Gana, Mirallas, Barkley, Lukaku.

Hjá Burnley er Jóhann Berg Guðmundsson metinn tæpur og fær líklega hvíld í viku í viðbót, að mati Sky Sports.

Af ungliðunum er það að frétta að Harry Charsley, tvítugur miðjumaður í U23 ára liðinu, skrifaði undir nýjan samning við Everton sem gildir til júní 2019 og Matthew Pennington, sem við höfum séð með aðalliðinu nýverið, gerði það einnig.

U19 ára lið frá Everton tók þátt í Dallas Cup og spilaði þrjá leiki, unnu einn en töpuðu tveimur og eru úr leik. Everton U23 sigraði hins vegar Tottenham U23 sannfærandi, 4-1, (mörk frá Lookman, Sambou, Dowell, Calvert-Lewin) og eru nú á jaðri þess að gulltryggja sér enska meistaratitilinn. Þeir þurfa aðeins tvö stig úr síðustu tveimur leikjum sínum — og eitt stig gæti jafnvel dugað, sökum markatölumunar á Man City. Það er ljóst að þeir koma til með að berjast til loka, eins og Unsworth hefur gefið út.

Burnley eru næstir, kl. 14:00 á laugardaginn en þetta er formleg Íslendingaferð klúbbsins hér heima og þau koma örugglega til með að láta vel í sér heyra. Koma svo! Áfram Everton!

13 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    hvað eru margir að fara í ferðina ? það hryggir mig að þurfa að tilkynna þessum ferðalöngum að þeir eru að fara á tapleik. Ástæðan: jú, Burnley hefur ekki enn unnið útileik og þá er gott að koma til Everton þar sem allt sem hefur ekki gerst áður gerist pottþétt og í öðru lagi: Everton getur bætt met með því að vinna 8 heimaleiki í röð. Þetta tvennt er öruggt til að koma í veg fyrir sigur og næstum öruggt til að vera tap 🙂 En við vonum það besta. Góða ferð og skemmtun 🙂

    • Elvar Örn skrifar:

      Herra svartsýnn, hvað er að frétta? Everton vinnur þennan leik 5-0 og þú munt biðjast formlega afsökunar hér eftir leik 🙂

      Já og góða skemmtun strákar. Var ekki svo langt frá því að skella mér með en aðeins of mikið í gangi. Haustferð í smíðum.

      • Diddi skrifar:

        ég þarf ekki að biðja neina afsökunar kæri vinur, það var þó mál til komið að þú kæmir með eina spá fyrir leik, sýnir smá hugrekki þar. Ég er búinn að fylgjast nógu lengi með okkar mönnum til að vera ekki of bjartsýnn. Enda segir einn mætur maður að bjartsýni borgi sig ekki, þá verði maður einfaldlega fyrir meiri vonbrigðum 🙂

        • Diddi skrifar:

          tala nú ekki um að við gætum hugsanlega tyllt okkur í 5. sætið með sigri, það er ástæða nr. 3

          • Elvar Örn skrifar:

            Ok þá hringirðu bara í mig persónulega eftir leik og segir.
            „Elvar minn, fyrirgefðu svartsýnina í mér ég bara réð ekkert við mig, flottur sigur hjá okkar liði í dag“

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Ég óttast að þú hafir 100% rétt fyrir þér Diddi, enda væri það alveg dæmigert fyrir Everton að gera upp á bak í þessum leik.
      Vonum samt það besta eins og alltaf.

  2. Diddi skrifar:

    það er töluvert til í þessu hjá Mackenzie 🙂 http://www.anorak.co.uk/438869/ ef maður horfir í augu Barkley er eins og enginn sé heima 🙂

    • Elvar Örn skrifar:

      Búið að reka MacKenzie frá The Sun eftir þessi skrif. Viðbjóðsleg grein sem hann skrifar og er uppfull af rasisma og mannvonsku.
      Þessi sami aðili skrifaði ógeðslega grein í The Sun 4 dögum eftir Hillsborough slysið þar sem hann sakaði Liverpool aðdáendur um slysið.
      Heilt yfir er Barkley búinn að vera ansi sterkur í vetur og ég vona svo sannarlega að hann framlengi samning sinn til nokkurra ára.

      • Diddi skrifar:

        ég veit alveg hver þessi asni er en það er samt svolítið til í þessu með augun í Barkley, heilt yfir hefur hann alls ekki verið nógu sterkur í vetur þar er ég bara alls ekki sammála þér Elvar. Og mér er alveg sama þó hann verði seldur fyrir góðan pening 🙂

  3. Georg skrifar:

    Þetta verður glæsilegur leikur. Sjáum mörg mörk frá okkar mönnum. Burtu með þessa svartsýni. Við vinnum okkar 8. heimaleik í röð.

    Hefði verið gaman að vera með ykkur á pöllunum.

  4. Ari S skrifar:

    Ég sé að Diddi hefur verið gerður stjórnarmaður í neikvæða klúbbnum. Færðu laun fyrir stjórnarsetuna Diddi?

    4-0 sigur hjá okkar mönnum í dag. Kær kveðja, Ari

    ps. og Barkley gerir 3

    • Diddi skrifar:

      djöfull ert þú neikvæður Ari minn, bara 4-0, þú skalt sko hringja í okkur Orra og biðja okkur afsökunar þegar leikurinn er búinn 🙂