Everton vs Leicester

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Englandsmeisturum Leicester á Goodison Park í sunnudagsleik kl. 15:00 en þetta er í þriðja sinn sem liðin mætast á tímabilinu. Everton hafði betur gegn þeim á útivelli 0-2 í deild þar sem Mirallas og Lukaku skoruðu mörkin. Leicester svöruðu svo á Goodison Park um tveimur vikum síðar með því að slá Everton út úr FA bikarnum 1-2 eftir að Lukaku hafði komið Everton yfir.

Þessi viðureign á sunnudaginn verður þó allt önnur Ella þar sem Leicester eru gjörbreytt lið eftir að stjóri þeirra, Claudio Ranieri, var rekinn en þeir hafa unnið alla 6 leiki sína síðan þá og Jamie Vardy búinn að vera sjóðandi heitur (5 mörk í þessum 6 sigrum). Síðan þá hafa þeir skorað að minnsta kosti tvö mörk í hverjum leik.

Fjarverulistinn hjá Everton lengist stöðugt en Williams verður í banni vegna rauðs spjalds sem hann fékk gegn United. Og þar sem Funes Mori er meiddur er Jagielka eini miðvörðurinn með reynslu sem Koeman hefur úr að velja og því kannski ekki ólíklegt að Koeman stilli upp 3-5-2 á móti þeim (með Jagielka, Holgate og Barry sem miðverði). Að auki eru McCarthy, Coleman, Bolasie og Lennon frá.

Það vinnur hins vegar með okkar mönnum að Leicester eru ekki lengur að glíma við falldrauginn og eiga erfiðan leik í Meistaradeildinni örfáum dögum eftir þennan leik við Everton þannig að ekki er ólíklegt að einhverjir hjá þeim verði hvíldir. Annars eru Wes Morgan og Papy Mendy meiddir hjá þeim.

Líkleg uppstilling Everton: Robles, Jagielka, Barry, Holgate, Baines, Mirallas, Gana, Schneiderlin, Davies, Barkley, Lukaku. Stóra spurningarmerkið er náttúrulega þáttur Schneiderlin í leiknum, en ef hann er ekki heill verður Barry líklega á miðjunni og Pennington í vörninni.

Þess má geta að Lukaku er búinn að skora 8 mörk í síðustu fjórum heimaleikjum (og 11 mörk í síðustu 7 heimaleikjum).

Hér í lokin eru svo tvær skemmtilegar greinar, annars vegar um Steve Walsh, sem sér um leikmannakaup Everton, og svo önnur grein frá Sky Sports um mikilvægi Idrissa Gana Gueye fyrir Everton. Gana er, eins og við vitum, einn af þeim sem Steve Walsh fékk til liðs við Everton og er að mörgum talinn kaup tímabilsins í ensku Úrvalsdeildinni.

En, Leicester næstir á sunnudaginn kl. 15:00 og verður leikurinn sýndur í beinni á Ölveri.

8 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    1-3 fyrir Leicester

  2. Diddi skrifar:

    1-3 fyrir Leicester

  3. Diddi skrifar:

    fann í skáp hjá mér gula markmannstreyju merkta Howard 24, stærð XL boys, ca 10-12 ára giska ég á. Ef þið eigið einhvern sem langar í svona þá sendi ég hana ykkur að kostnaðarlausu. Fyrstur kemur, fyrstur fær. Treyjan er eins og ný.

  4. þorri skrifar:

    sælir félagar er leikurinn á morgunn eða á eftir

  5. þorri skrifar:

    eru menn klárir fyrir leikinn í dag.Bara kana hvort menn séu kláriri í slaginn. Ég er klár eigum við ekki að segja að þetta verði sigur hjá okkur mér er alveg sama hver skorar bara sigur

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ef ekki væri fyrir meiðsli og leikbann þá væri ég nokkuð viss um sigur en ég óttast illilega að nú sé komið að tapi á heimavelli.
    Ég spái 1-2 fyrir Leicester.

    • Orri skrifar:

      Sæll Ingvar.Sem betur fer reyndist þú ekki sannspár fyrir þennan leik.