Everton vs. Leicester (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Á morgun hefst FA bikarinn, allavega hvað Úrvalsdeildarliðin varðar, en þá verður þriðja umferðin leikin. Everton fékk sterka mótherja — en þó heimaleik — en þeir taka á móti Englandsmeisturum Leicester á morgun, laugardag, kl. 15:00. Þetta er ein af fjórum viðureignum Úrvalsdeildarliða en hinar þrjár eru: Hull vs Swansea, West Ham vs Man City og Sunderland vs Burnley.

Af síðustu 11 FA bikarleikjum Everton á Goodison Park hefur Everton 6 sinnum mætt Úrvalsdeildarliði og aðeins einu sinni tapað en unnið 8 og gert 2 jafntefli. Leicester hafa jafnframt tapað á síðustu tveimur tímabilum í 3. umferð FA bikarsins og í báðum FA bikar leikjum sínum gegn Everton frá upphafi en þess má geta að næstum 50 ár eru síðan seinni leikurinn var spilaður.

Gera má ráð fyrir að Everton leggi mikla áherslu á þessa keppni og stilli upp sterku liði enda ágætis tækifæri á bikar. Leicester menn koma hins vegar örugglega til með að líta á keppnina sem ákveðna distraction þar sem þeir eru í bullandi formi í Meistaradeildinni og í fallbaráttu í deildinni. Maður sér ekki sérstaka ástæðu til að hvíla menn úr aðalliði Everton þar sem leikjaálagið í kjölfarið er ekki að sliga menn (vika eða meira milli næstu leikja). Meiðsli og fjarvera leikmanna koma þó til með að setja eitthvert strik í reikninginn.

Til dæmis er Idrissa Gana Gueye farinn í Afríkubikarinn og McCarthy og Stekelenburg eru frá, líkt og ungliðinn Dominic Calvert-Lewin sem meiddist í leik með aðalliðinu á dögunum og gæti tekið um 7-8 vikur að jafna sig. Besic og Bolasie eru svo frá til lengri tíma. Nýi leikmaðurinn, Ademola Lookman, má ekki spila í bikarkeppninni fyrir Everton og Aaron Lennon er metinn tæpur.

Líkleg uppstilling því: Robles, Baines, Funes Mori, Williams, Coleman, Barry, Davies, Mirallas, Barkley, Valencia, Lukaku.

Hjá Leicester er Vardy kominn aftur úr banni en Mahrez, Slimani og Daniel Amartey verða frá vegna þátttöku í Afríkukeppninni.

Í öðrum fréttum er það helst að aðalfundur Everton klúbbsins ytra var haldin og margt athyglisvert sem fram kom þar. Til dæmis var staðfest að Bramley-Moore Docks hafnarsvæðið væri efst á óskalista fyrir nýjan völl og að Everton væri búið að gera nýjan samning við USM Holding um nafnarétt á Finch Farm svæðinu sem héðan í frá mun vera kalla USM Finch Farm. Einnig að nýr auglýsingasamningur væri á leiðinni fyrir treyjurnar en þessir samningar ku vera 75M punda virði.

En, Leicester menn næstir á morgun kl. 15:00. Leikurinn verður ekki sýndur í beinni á Ölveri.

7 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég ætla rétt að vona að menn mæti klárir í slaginn.
    Ég held að okkar eina von um Evrópusæti sé að vinna þennan bikar því það eru ekki miklar líkur á því að liðin fyrir ofan okkur séu að fara að tapa það mörgum stigum að við komumst ofar en í sjöunda sæti.

    • Gestur skrifar:

      Ég er sammála að menn verða að mæta tilbúnir ef þeir ætla að gera eitthvað á þessu tímabili

  2. Ari S skrifar:

    Hvers vegna ekki að taka bara einn leik í einu Ingvar minn? Þetta er einn bikarleikur gegn Englandsmeisturum Leicester City.

    Við sigruðum þá í síðasta deildarleik á þeirra eigin velli og við getum að sjálfsögðu unnið þá aftur. Prufaðu að pæla í þessum eina leik án þess að hugsa um bikara… 😉

    En ég er samt alveg sammála því að það er góður möguleiki hjá okkur að vinna í bikarkeppninni og komast í evrópukeppni en alls ekki eini möguleikinn.

    Kær kveðja, Ari.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Everton er talið líklegasta liðið til að klófesta Gylfa Sig, áhugavert:
    http://www.mbl.is/sport/enski/2017/01/05/fleiri_lid_i_barattuna_um_gylfa/

    En varðandi leikinn á morgun, er hann sýndur á einhverri sjónvarpsrás í heiminum? Verð að horfa á þennan leik sko.
    Og já, ef hann er sýndur einhvers staðar þá er hægt að ná honum á netinu.

  4. Orri skrifar:

    Vid eigum ad vinna leikinn eg spai 4-1 fyrir okkur.

  5. Diddi skrifar:

    sýnist okkar fara í 3-5-2 með Holgate-Mori-Williams í vörn, Baines og Coleman á köntum og Valencia í holu eða við hlið Lukaku