Burnley vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Næsti leikur Everton er gegn nýliðum Burnley á útivelli á Turf Moor leikvanginum, örlítið fyrir norðan Liverpool borgina. Burnley menn sitja í augnablikinu í 14. sæti eftir misjafna byrjun, 7 stig í 8 leikjum. Þeir fengu tvo heimaleiki í upphafi tímabils, töpuðu þeim fyrsta gegn Swansea en unnu svo Liverpool í næsta leik, 2-0. En í kjölfarið fylgdi slæmur kafli með aðeins einum sigri í sjö leikjum, þar með talið hálf neyðarlegt tap gegn Acrington Stanley í deildarbikarnum. Og nú mæta þeir Everton.

Everton er í sjötta sæti, einu sæti ofar en United og aðeins tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti. Liðið gæti því með (mjög) hagstæðum úrslitum náð í þriðja sæti eftir umferðina.

Spurningin fyrir leikinn er helst hvort Barkley verði í byrjunarliðinu en hann missti sitt pláss þar í síðasta leik, á móti Manchester City. Vonir stóðu til að Baines gæti verið með en hann verður frá í tvær vikur í viðbót. Aaron Lennon ku þó vera búinn að jafna sig af sínum meiðslum en Muhamed Besic, Tyias Browning og Matthew Pennington eru allir frá vegna meiðsla.

Líkleg uppstilling: Stekelenburg, Oviedo, Williams, Jagielka, Coleman, Gana, Barry, Barkley, Mirallas, Bolasie, Lukaku.

Hjá Burnley er Steven Defour metinn tæpur og Ashley Barnes frá til lengri tíma.

Af ungliðunum er það að frétta að…
– Alex Denny var valinn í enska U17 ára landsliðshópinn sem mætir landsliði Rúmeníu í næstu viku.
– Everton U18 unnu Stoke U18 á útivelli, 2-5 (sjá vídeó), eftir að hafa lent 2-0 undir í fyrri hálfleik. Miðjumaðurinn Fraser Hornby skoraði fjögur mörk í þeim leik og Shayne Lavery bætti við fimmta markinu undir lokin. Liðið er nú í sjötta sæti eftir leikinn og jafnframt taplausir í síðustu fimm leikjum sínum.
– Everton U23 lentu einnig 2-0 undir í sínum leik, gegn Reading U23, en náðu að snúa við taflinu og vinna Reading U23 6-3 (sjá vídeó) með þrennu frá Oumar Niasse, einu marki frá Kieran Dowell, einu frá Dominic Calvert-Lewin og einu frá Liam Walsh. Eftir leikinn er Everton U23 í efsta sæti í Premier League 2, með fjögurra stiga forskot á næsta lið.

Flottur árangur hjá ungliðunum okkar en rétt að geta þess í lokin að leikurinn við Burnley hefst klukkan 15:00 á laugardaginn. Ekki lítur út fyrir að íslensku sjónvarpstöðvarnar komi til með að sýna hann beint.

Ykkar spá um úrslit?

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Við hljótum að vinna þennan leik fjandakornið.

  2. Diddi skrifar:

    Töpum 2-1

  3. þorri skrifar:

    eigum við ekki að vera jákvæðir og segja everton vinni leikinn

    • Diddi skrifar:

      við skulum bara vera raunsæir 🙂 Bjartsýni vinnur ekki fótboltaleiki 🙂

  4. Gunnþór skrifar:

    Diddi minn hræddur um að þú hafir rétt fyrir þér. Finnst bragurinn á liðinnu vera slíkur. En skal glaður éta gamla hattinn ef þeir sína annað.