Sunderland vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Landsleikjahléið er loks að baki og næsti leikur Everton er annað kvöld, mánudagskvöld kl. 19:00, gegn Sunderland á heimavelli þeirra. Þar mætir Everton sínum fyrri stjóra, David Moyes, og aldrei að vita nema einhverjir af fyrrum leikmönnum Everton láti sjá sig líka fyrir þá því Rodwell, Pienaar og Anichebe eru allir á launaskrá hjá þeim í augnablikinu.

Staða í deild hefur ekki mikið að segja svona snemma á tímabilinu en Sunderland eru sigurlausir og sem stendur í fallsæti með aðeins eitt stig eftir þrjá leiki (aðeins hagstæðari markatala sem skilur þá frá botnliði Stoke). Ef þeir tapa annað kvöld verður það sjötta skiptið í röð sem þeir eru án sigurs í fyrstu fjórum deildarleikjum tímabilsins. Everton hefur þó átt í nokkrum erfiðleikum með Sunderland undanfarið þannig að það er ekkert gefið í þeim efnum.

Everton liðið hefur aftur á móti byrjað tímabilið vel, liðið er ósigrað með 7 stig af 9 mögulegum og sigurleik í deildarbikarnum að auki. Nokkuð gott þegar litið er til þess að Lukaku hefur ekki fundið sitt form ennþá. Koeman benti einnig á að gott væri fyrir leikmenn að fá auka dag til að jafna sig á landsleikjum og meiðslum.

Og talandi um meiðsli, þá ættu Darron Gibson og Tom Cleverley að vera heilir fyrir leikinn á morgun, að sögn Koeman, en McCarthy fór í aðgerð og þarf þrjár vikur til að jafna sig. Coleman, sem Moyes sagðist hafa litið á sem Forrest Gump á sínum tíma, er aftur á móti orðinn heill og nýi láns-sóknarmaðurinn, Enner Valencia, gæti látið sjá sig í leiknum.

Líkleg uppstilling: Stekelenburg, Baines, Williams, Jagielka, Holgate/Coleman, Barry, Gueye, Mirallas, Barkley, Bolasie, Lukaku.

Hjá Sunderland eru Fabio Borini, Sebastian Larsson, Lee Cattermole, Vito Mannone og Billy Jones meiddir. Nýju leikmenn Sunderland, þeir Mika Domingues og Jason Denayer, gætu látið sjá sig, ásamt okkar fyrrverandi leikmanni, Steven Pienaar, en hvorki Didier Ndong né Victor Anichebe eru sagðir í leikformi.

Af öðru er það helst að frétta að Koeman gaf það út að markmiðið væri Evrópubolti fyrir næsta tímabil og Liverpool Echo birtu skemmtilega grein um hvernig taktíkin hefur breyst til batnaðar hjá Everton undir stjórn hans. Einnig rifjaði klúbburinn upp skemmtilegar myndir og umsögn um fyrsta leikinn sem spilaður var á Goodison Park þann 2. september 1892.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 töpuðu fyrir Manchester United U18 1-5 (Manasse Mampala markaskorarinn) en gerðu svo 3-3 jafntefli við Wolves U18 á útivelli þar sem Shayne Lavery skoraði tvö og Liam Morris eitt.

Everton U23 sigruðu Bolton U23 í Checkatrade bikarnum en Callum Dyson og Conor McAleny skoruðu mörkin. Þess má líka geta að Everton U23 liðið er enn á toppi ensku Úrvalsdeildar U23 ára liða með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og bæði leik og stig til góða á næsta lið (Chelsea U23).

Ungliðinn Liam Walsh skrifaði jafnframt undir samning við Everton fram til júní 2019 og nýjasta viðbótin við U23 ára lið Everton, sóknarmaðurinn Dominic Calvert-Lewin, skoraði í sínum fyrsta leik með enska U20 ára liðinu gegn Brasilíu U20. Tom Davies skoraði einnig með enska U20 ára liðinu gegn Hollandi U20.

Í lokin er svo rétt að minna á aðalfund Everton á Íslandi, sem nálgast óðfluga (þann 17. sept), sem og árshátíðina sem haldin verður á sama degi. Á aðalfundi munum við kjósa nýja stjórn, fara yfir skýrslu stjórnar, reikninga og lagabreytingar (ef einhverjar verða) og ákveða árgjald fyrir félagsmenn, þannig að við viljum endilega sjá ykkar stuðning í verki með góðri mætingu frá félagsmönnum.

Á árshátíðinni um kvöldið munum við snæða veislumat, skála saman í hátíðardrykk og skemmta okkur fram á nótt. Við þökkum öll svör sem þegar hafa borist og hvetjum ykkur öll til að eyða einni mínútu í að svara spurningalistanum hér að neðan — hvort sem ætlunin er að mæta eður ei.

7 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég þoli ekki þessi landsleikjahlé og er búinn að bíða eftir þessum leik eins og krakki eftir jólunum.
    Ég ætla að leyfa mér að spá sigri en það verður erfitt, þó Sunderland sé ekkert sérstakt þá er Moyes enginn bjáni og er örugglega búinn að undirbúa lið sitt vel fyrir þennann leik.

  2. Albert Gunnlaugsson skrifar:

    Ætla að kaupa leikinn í sjónvarpinu í kvöld. Sjáumst svo um næstu helgi á aðalfundinum og árshátíðinni um næstu helgi 🙂

  3. Gunnþór skrifar:

    Þetta verður erfiður leikur vonandi náum við 3 pungum út úr þessum leik. Svo held ég að það sé gott að fara selja lukaku meðan það fæst eitthvað fyrir hann er ekki að fíla hugarfarið hjá honum gagnvart klúbbnum.

  4. Diddi skrifar:

    Við náum stigi í kvöld!!! Ekki léttu samt. Gunnþór ég þarf ekki að minna þig á símtal okkar í fyrra um winnnerinn sem er núna í hvað? 17. Sæti??? ?

  5. Orri skrifar:

    Ég held að við tillum okkur í 3 sætið í kvöld með góðum sigri á okkar gamla stjóra og hans mönnum.

  6. Gunnþór skrifar:

    Já Diddi ég þarf kannski éta það ofan í mig en þetta var meira sagt í svekkelsi yfir hvað okkar menn voru arfa slakir heldur en hitt. ☺☺