Everton vs. Tottenham

Mynd: Everton FC.

Eins og ætti að vera okkur öllum ljóst hefst tímabilið 2016/17 í alvöru í ensku deildinni á morgun (laugardag) en Everton á leik kl. 14:00 gegn Tottenham í fyrstu umferð. Það er eiginlega ágætt að fyrsta verkefnið sé stórt — mótherjinn nú lið sem var í titilbaráttu um það bil til loka tímabils og mætir á morgun okkar mönnum í leik sem kemur til með að setja tóninn fyrir tímabilið í heild sinni.

Tottenham menn hafa, þegar þetta er skrifað, keypt tvo leikmenn á undirbúningstímabilinu: Vincent Jans­sen (sóknarmann) frá AZ Alk­ma­ar og Victor Wanyama (djúpan miðjumann) frá Sout­hampt­on en losað sig við tiltölulega minna þekkt nöfn.

Það væri gott að geta sagt með vissu hvernig hópurinn lítur út fyrir tímabilið, hvað Everton varðar, en raunveruleikinn er sá að glugginn er enn opinn og því erfitt að segja til um hvort hópurinn veikist eða styrkist fyrir átökin sem framundan eru. Everton hefur enn sem komið er ekki mikið látið mjög mikið fyrir sér fara á leikmannamarkaði, þrátt fyrir miklar vonir þar um, en Koeman hefur gert nokkrar breytingar á hópnum.

Varnarmaðurinn Stones var seldur fyrir svimandi háa upphæð (til Man City) sem líklega mun reynast metupphæð fyrir varnarmann í ensku deildinni hingað til en til félagsins voru í staðinn keyptir: varnarmaðurinn Ashley Williams, miðjumaðurinn Idrissa Gueye og markvörðurinn Stekelenburg. Allt saman kaup sem virka sem styrking á hópnum: Miðvörðurinn Williams er grjótharður reynslubolti sem litið er á sem betri varnarmann en Stones (til skemmri tíma þó), Idrissa Gueye vonum við að sé næsti N’Golo Kante í ensku Úrvalsdeildinni (tölfræðin ekki langt frá því) og Stekelenburg virðist strax hafa tekið markvarðastöðuna af Joel Robles. Enn er spurningamerki við það hvort Lukaku komi til með að verða partur af hópnum eða ekki en ljóst er að Everton þarf að fá ansi gott tilboð í hann til að selja, sérstaklega í ljósi þess að Koeman hefur gefið það út að það vantar fleiri leikmenn í framlínuna.

Rennum aðeins lauslega yfir stöðuna á hópnum í dag en hér að neðan er listinn yfir þá leikmenn sem fengu úthlutað treyjunúmeri fyrir tímabilið, gróf-flokkað eftir stöðum…

Markverðir:

22. Maarten Stekelenburg
1. Joel Robles

Koeman lét hafa eftir sér að hann vildi hafa þrjá markverði til að keppa um þessa stöðu en eins og er þá er Everton bara með tvo sem koma til greina og þess má geta að ungliðinn Russell Griffiths var lánaður út á dögunum. Að öllu óbreyttu verður Stekelenburg aðalmarkvörður á næsta tímabili, allavega ef eitthvað er að marka undirbúningstímabilið því Stekelenburg hirti stöðuna af Robles og hefur eiginlega bara komið skemmtilega á óvart. Það væri samt gott að sjá meiri samkeppni í þessari stöðu.

Bakverðir:

3. Leighton Baines
23. Seamus Coleman
20. Bryan Oviedo

Ekki þarf mörg orð bakvarðarstöðurnar: Baines verður í vinstri (með Oviedo til vara), Coleman í hægri (með Holgate/Davies til vara). Einhvern veginn finnst manni þessi staða ekki veiki hlekkurinn í liðinu.

Miðverðir: 

6. Phil Jagielka (tæpur — nær kannski leiknum en almennt séð ekki í leikformi)
5. Ashley Williams (ekki í leikformi)
25. Ramiro Funes Mori
30. Mason Holgate (miðvörður/hægri bak)
32. Brendan Galloway
38. Matthew Pennington
27. Tyias Browning (miðvörður/bakvörður — en ekkert spilað á undirbúningstímabilinu)

Hér er eitt helsta elsta spurningarmerkið því erfitt er að segja hverjir byrja á móti Tottenham. Fyrstu kostir í þessa stöðu voru Jagielka og Stones en þegar sá síðarnefndi var seldur varð Funes Mori líklega fyrsti kostur við hlið Jagielka. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú þegar Ashley Williams bætist við — að ekki sé minnst á ef annar miðvörður verður keyptur.

Gallinn er bara sá að hvorki Jagielka né Williams eru í leikformi — Jagielka er að koma aftur úr meiðslum og Williams búinn að vera í fríi eftir frábært gengi á EM og fær örugglega smá frest til að koma sér inn í hlutina. Það kæmi því ekkert á óvart þó ungliðinn Holgate verði við hlið Funes Mori í fyrsta leik en þeir voru flottir saman til dæmis á móti United á dögunum. Þess má geta að Holgate hefur komið við sögu í öllum undirbúningsleikjunum (sem mið- eða hægri bak-vörður) þannig að hann er sá ungliði sem er líklegastur til að brjóta sér leið í aðalliðið á næstunni. Hinir ungliðarnir — Galloway, Pennington og Browning — flokkast á jaðrinum (Pennington meiddist gegn Real Betis og Browning hefur ekkert spilað á undirbúningstímabilinu).

Ef við skjótum á líklega byrjunarliðs-miðverði gegn Tottenham: Jagielka og Funes Mori. Líklega tekur Ashley Williams við af öðrum þeirra síðar á tímabilinu en hann byrjar pottþétt á bekknum gegn Tottenham.

Djúpir miðjumenn:

17. Idrissa Gana Gueye
21. Muhamed Besic (meiddur)

Þetta er engin keppni lengur þar sem Besic er meiddur fram að áramótum. Nýi leikmaðurinn, Idrissa Gueye, fer beint í byrjunarliðið og þar með beint í djúpu laugina.

Miðjumenn:

18. Gareth Barry
16. James McCarthy
4. Darron Gibson
26. Tom Davies

Koeman hefur róterað vel á miðjunni á undirbúningstímabilinu til að prófa menn saman og því erfitt að spá hvernig hjartað í miðjunni komi til með að líta út. Gueye líklega þó alltaf að fara að byrja sem djúpur miðjumaður en spurning hvort McCarthy og/eða Barry verði honum til aðstoðar. Barkley bara hlýtur að vera valinn framarlegar á velli þannig að Gibson og Davies koma inn á á 60. mínútu, ef marka má leiki á undirbúningstímabilinu, til að breyta gangi leiks ef þarf. Listinn hér að ofan er reyndar kannski ekki tæmandi, því Barkley, Cleverley, og reyndar Kieran Dowell, hafa á köflum sést í þessari stöðu á undirbúningstímabilinu.

Framsæknir miðjumenn:

7. Gerard Deulofeu (kantari/frammi)
8. Ross Barkley (miðjunni/holunni)
11. Kevin Mirallas (kantari)
12. Aaron Lennon (kantari)
15. Tom Cleverley (kantari/holunni/miðjunni)
28. Kieran Dowell (hefur leikið í hjarta miðjunnar, sbr. Barnsley leikinn og í holunni, sbr. MK Dons leikinn)

Barkley, Deulofeu og Mirallas hafa allir staðið sig vel á undirbúningstímabilinu og þar með gert tilkall til byrjunarliðsins. Hinum þremur bíður því það hlutskipti að koma inn á upp úr 60. mínútu til að breyta gangi leiksins.

Sóknarmenn:

10. Romelu Lukaku
9. Arouna Kone
24. Shani Tarashaj
39. Conor Grant (lánaður út)

Það ætti að vera augljóst af hverju Koeman lítur svo á að hér þurfi styrkingu. Einn alvöru framherji (Lukaku) og annar sem er enn að reyna að heilla stuðningsmenn (Kone). Og svo tveir ungliðar. Deulofeu hefur reyndar vissulega sýnt á undirbúningstímabilinu að hann veit hvar markið er og gæti spilað frammi á sinn sérstaka hátt en hann er einfaldlega ekki þessi hefðbundni stóri og sterki „target man“.

Hvar liggur helst á að styrkja liðið?

Sitt sýnist alltaf hverjum um það hvar þarf að styrkja liðið og hér er ein skoðun á málinu:

Það er búið að tala mikið um hvort Lukaku sé á leið frá félaginu eða ekki og þó Deulofeu geti kannski eitthvað hjálpað til í framlínunni — og jafnvel Mirallas ef svo ber undir — þá sér maður Kone, Tarashaj og Grant ekki að fara að taka við keflinu ef t.d. Lukaku meiðist. Hér þyrfti að styrkja liðið — þó vitað sé að það verði bæði erfitt og dýrt. Hver vill losa sig við markaskorara?

Stekelenburg hefur gert það að verkum að maður hefur öllu minni áhyggjur af markvarðarstöðunni — sé hana kannski ekki sem algjört forgangsverkefni nú þó Koeman hafi gefið það út að hann vilji þrjá aðalmarkverði að keppast um þá stöðu. Við kvörtum svo sem ekki yfir því ef bætist við þar.

Bakverðir og kantmenn eru líklega heldur ekki í forgangi hjá Koeman og við getum verið sammála um að það væri gott að hafa fjóra reynda miðverði en ef við gefum okkur að Idrissa Gueye komi áfram til með að lofa góðu þá er spurning hvort Koeman líti ekki svo á sem að vanti frekar einhvern fyrir framan þá — til dæmis í „holuna“.

Hér er ein tillaga að forgangsröðun:

Númer eitt: Annan sóknarmann — eða bara að klóna Lukaku. 🙂
Númer tvö: Annan miðvörð (Lamina Kone?). Væri samt eiginlega lægri forgangur ef Williams og/eða Jagielka væru í formi.
Númer þrjú: Annan playmaker á borð við Arteta. Orðið of langt síðan við höfum haft góðan playmaker.
Númer fjögur: Annan markvörð.
Númer fimm: Hmm… komin ansi langt niður listann og örugglega meira umdeilt eftir því sem neðar dregur… 🙂

Væntingar til tímabilsins

Hverjar eru svo væntingarnar til tímabilsins? Hóflegar. Það eru ákveðin teikn á lofti að vörnin eigi eftir að taka stórum framförum (enda kannski ekki erfitt) — en spurning hversu mikið sóknin þarf að líða fyrir það. Kemur í ljós. Koeman hefur sagt að 3-4 leikmenn vanti í hópinn og það á eftir að taka tíma að koma þeim inn í leikskipulagið þannig að erfitt er að segja hvenær tímabilið byrjar fyrir alvöru. En maður veit aldrei — kannski smellur þetta saman frá fyrsta degi. Hver veit?

Stjórinn Koeman er þó líklega engin skyndilausn á síðustu tveimur tímabilum en maður verður einfaldlega að gera kröfu um að liðið fari upp um allavega nokkur sæti að minnsta kosti.

Hver er annars ykkar skoðun og væntingar til tímabilsins?

Tottenham á morgun kl. 14:00. Enn óvíst með beinar útsendingar…

10 Athugasemdir

  1. Trausti skrifar:

    Lýst vel á roman en verð að fá að vita hvort leikurinn verður sýndur eða ei að minnsta kosti tv2mur tímum fyrir leik! Er spenntur fyrir þessu!

  2. þorri skrifar:

    er leikurinn ekki síndur á ölveri strákar

  3. Finnur skrifar:

    Mér sýnist ekki…
    http://sportbarinn.is/beinar-utsendingar

    • Elvar Örn skrifar:

      Hringja á Ölver strákar og kanna hvort hann sé sýndur. Ölver hefur verið helsti samkomustaður Everton manna og því synd ef þeir geta ekki sýnt þessa leiki. Svo bara hringja í alla hina barina til að kanna hvort þeir sýni leikinn.
      Ég mun kanna þetta hér á Akureyri.

  4. þorri skrifar:

    jaja kæru vinnir og félagar nú nálgast þetta óðum.Fyrsti leikurinn hjá okkar mönnum.Er ekki bara fyrsti sigurinn í dag á heimavelli.eru ekki allir kátir fyrir leikinn.

  5. Diddi skrifar:

    jafntefli gegn Tottenham er klassískt 🙂

  6. Ari G skrifar:

    Leikurinn sýndur seinna 18.10 sport2 en þá veit maður úrslitin. Síminn er að bjóða einhverja áskriftaleiki í vetur þar sem maður þarf að borga fyrir hvern leik en ég veit ekki hvaða leikir stendur ekkert um það á heimasíðu símans núna. Spái 2:2 Lukaku og Barkley með mörkin.

  7. þorri skrifar:

    Leikurinn er síndur kl 18.10 á stöð 2 sport

  8. þorri skrifar:

    var að tala við þá hjá ölveri.Vegna tæknilegra bilunar eins og hann sagði þá verður leikurinn ekki síndur hjá þeim

  9. Dyncla skrifar:

    Leikurinn verdur víst sýndur á Spot. Allir á Spot. COYB!!!!!!