Real Betis – Everton 1-1 (Dresden Cup)

Mynd: Everton FC.

Everton mætti spænska liðinu Real Betis frá Sevilla í dag í sínum síðasta leik í Dresden Cup 2016.

Nokkuð hefðbundin uppstilling: Robles í marki, Oviedo í vinstri bakverði, Pennington og Galloway miðverðir, Holgate í hægri bakverði. Besic djúpur á miðjunni, Cleverley, McCarthy og Barry (fyrirliði) á miðjunni. Kone í holunni og Lukaku frammi.

Gott að sjá Barry, McCarthy og Lukaku spila sinn fyrsta leik á undirbúningstímabilinu eftir meiðsli/frí vegna EM.

Everton liðið meira með boltann í byrjun og stjórnaði tempóinu til að byrja með. Mjög lítið að gera hjá Robles í markinu og mæddi ekki mikið á varnarlínu Everton almennt séð í leiknum.

Það kom í hlut Everton að skora fyrsta markið eftir horn frá Cleverley. Markvörður Real Betis, sem hafði þegar opinberað fákunnáttu sína í að slá bolta út úr teig reyndi það aftur en missti algjörlega af honum og varnarmaður Betis (Mandy heitir hann) fékk boltann óundirbúinn í fæturnar og þaðan í netið. Sjálfsmark og staðan orðin 1-0 fyrir Everton.

Oviedo átti langskot stuttu síðar sem markvörður Betis þurfti að hafa svolítið fyrir til að slá til hliðar með Kone og Lukaku tilbúna að ná frákastinu. Fín byrjun á leiknum hjá Everton.

En það voru Real Betis sem skoruðu næsta mark — eftir aukaspyrnu af vinstri kanti. Varnarmenn Everton voru illa staðsettir og leikmaður Real Betis var óvaldaður og fékk frían skalla á mark sem Robles gerði vel að verja í innanverða stöngina en tveir Real Betis menn mættir til að ná frákastinu og pota boltanum í autt markið með engan Everton mann nærri. Staðan orðin 1-1 og Betis menn búnir að skora úr eina skoti sínu á rammann allan leikinn.

Þrátt fyrir hálffæri sem Betis menn fengu eftir um 30 mínútna leik þá var 1-1 staðan í hálfleik.

Seinni hálfleikur var eiginlega geisp-veisla enda lítið að gerast. Betis byrjuðu seinni hálfleik betur en engin færi litu dagsins ljós að heita mátti.

Þrjár skiptingar hjá Everton á 60. mínútu: Lukaku, Barry og McCarthy út og inn komu ungliðarnir Tom Davis, Kieran Dowell og Conor Grant. Kone tók þar með stöðu fremsta manns.

Conor Grant átti líflega innkomu, til dæmis í hálffæri á 70. mínútu þegar hann átti frábæra sendingu fyrir mark sem fann því miður ekki Kone.

Lennon skipt inn á fyrir Kone á 74. mínútu og tveimur mínútum síðar átti Conor Grant langskot sem markvörður varði í horn. Boltinn þó líklega á leið rétt framhjá marki.

Ungliðinn Pennington meiddist á 79. mínútu (meiðsli á lærvöðva) og John Stones kom inn á fyrir hann en ekkert markvert gerðist síðustu 10 mínúturnar og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni, skv. leikreglum mótsins.

Vítaspyrnukeppnin:

Conor Grant fyrstur á punktinn fyrir Everton en skotið, lágt til vinstri, varið af markverði.
Betis menn næstir. Framhjá! Staðan ennþá 0-0.
Kieran Dowell næstur á punktinn, reyndi lágt skot í vinstra hornið en einnig varið af markverði.
Betis menn öruggir í næsta víti. Staðan 1-0 í vítum fyrir Betis.
Stones næstur og skoraði örugglega lágt í hægra hornið. Staðan 1-1.
Betis menn með öruggt mark lágt í vinstra hornið. Robles giskaði á vitlaust horn. Staðan 2-1 fyrir Betis.
Besic næstur fyrir Everton og skoraði örugglega hægra megin. Betis markvörðurinn giskaði á rétt horn en náði ekki að verja. Staðan 2-2.
Jonas Martin með öruggt mark fyrir Betis, hátt í vinstra hornið. Staðan 3-2 Betis.
Og þetta setti töluverða pressu á ungliðann Holgate, sem var næstur á punktinn og varð að skora. Sem hann og gerði — örugglega. Staðan 3-3.
Betis leikmaðurinn þurfti þar með að skora til að vinna leikinn og gerði það örugglega. Robles á leið í vitlaust horn og Betis því sigurvegarar eftir vítaspyrnukeppni 4-3 og 5-4 samtals.

Everton með fimm stig í riðlinum ef ég hef reiknað þetta rétt og Real Betis því sigurvegarar Dresden Cup 2016. Everton liðið (ásamt öllum hinum liðunum) á heimleið og næsti leikur gegn Espanyol á laugardaginn 6. ágúst. Þetta verður fyrsti heimaleikur Everton undir stjórn Ronald Koeman og það verður eitthvað. 🙂

10 Athugasemdir

  1. Gunnþór skrifar:

    Flott að spila þétt stjórinn sér hverja hann þarf að losa sig við og taka nýja leikmenn inn í að styrkja hópinn.

  2. Diddi skrifar:

    það eru aldeilis flottir hlutir að gerast hjá okkur í leikmannamálum, maður fylgist bara stoltur með hvernig klúbburinn okkar höndlar þetta allt saman……. marga mánuði að reyna að ljúka flestum kaupum og aðrir klúbbar komnir með puttana í hlutina og ræna frá okkur. Ekki beint til að gera mann bjartsýnann 🙂

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Góðir hlutir gerast hægt segir einhversstaðar en fyrr má nú rota en dauðrota.
      Þetta gengur svo fáránlega hægt að maður er farinn að halda að ekkert sé breytt og það verði enginn keyptur fyrr en einhver hefur verið seldur.
      Það skyldi þó aldrei vera að þessi 100 milljón pund sem sagt var að Koeman fengi til leikmannakaupa hafi átt að koma frá sölunni á Stones og Lukaku.

      Það er nú samt vonandi ekki þannig.

  3. Ari G skrifar:

    Vertu þolinmóður enginn farinn ennþá. Oft er betra að fara rólega í hlutina en opna budduna og kaupa fullt af leikmönnum. Sjáðu Liverpool kaupa endalaust leikmenn en standa alltaf í stað að vísu komnir með betri stjóra eins og Everton. Reikna með að Stones og Lukaku verði seldir yfir 100 millur þá er hægt að kaupa 5 góða leikmenn fyrir þann pening. Markvörð, miðherja, hægri bakvörð, miðjuskapandi leikmann með Barkley og sóknarmann þá er Everton komnir í baráttuna um 4 sætið óraunhæft að gera meiri kröfur.

  4. Finnur skrifar:

    Toffeeweb útskýrðu þetta ágætlega…

    „A combination of the delay caused by Euro2016 on the summer transfer market in general, the relatively belated introduction of a Director of Football following Steve Walsh’s switch from Leicester, the need for Koeman to fully assess the players he inherited from Roberto Martinez and the possible obstacle to attracting top-class talent by Everton’s lack of European football next season has resulted in a protracted wait for new faces.“

    • Diddi skrifar:

      og við þetta má svo bæta að veðurspáin hefur ekki verið uppá það besta uppá síðkastið, allavega fyrir norðanvert Ísland 🙂

  5. Georg skrifar:

    Idrissa Gueye kominn til Everton. Gerðir 4 ára samning.

    Held að þetta sé hörku leikmaður.

    http://www.evertonfc.com/news/2016/08/02/everton-sign-gueye

    Nú munu nokkrir aðrir fylgja í kjölfarið. Það verður nóg um að vera það sem eftir er gluggans hjá okkar mönnum