Sunderland vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Næstsíðasti leikur Everton á tímabilinu — og síðasti útileikurinn — er miðvikudagsleikur gegn Sunderland, kl. 18:45. Everton fær það hlutskipti nú að hafa afgerandi áhrif á botnbaráttuna á þessu tímabili en bæði Sunderland og Norwich (sem er mótherji Everton í næsta leik) eru í bullandi fallbaráttu — ásamt Newcastle sem er á milli þeirra en hefur leikið einum leik meira en hin tvö. Sunderland liðið getur, með sigri gegn Everton, tryggt veru sína í Úrvalsdeildinni á næsta tímabili þannig að þeir koma örugglega dýrvitlausir til leiks líkt og þegar þeir unnu Chelsea í síðasta leik en þeir hafa ekki tapað leik frá því í febrúar — ef einn leikur er undanskilinn (gegn Leicester, sem öll liðin í deildinni hafa átt í erfiðleikum með).

Á móti kemur reyndar að sigurleikurinn gegn Chelsea var aðeins þeirra annar sigur í tíu tilraunum og Everton bar sigurorð af þeim í fyrri leik þessara liða en lokatölur urðu 6-2, Everton í vil. Árangur Everton er reyndar ekki mikið betri í undanförnum leikjum: Einn sigur í níu tilraunum en útivallarformið hefur þó verið ljósi punkturinn í tilverunni á tímabilinu (ásamt bikarleikjunum). 

Af leikmannamálum er það að frétta að Funes Mori hefur tekið út leikbann sitt og Barry ætti að vera orðinn góður en Jagielka, Coleman, Deulofeu og Hibbert eru frá. Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Funes Mori/Pennington, Stones, Oviedo, Barry, McCarthy, Mirallas, Barkley, Lennon, Lukaku. Hjá Sunderland er varnarmaðurinn Billy Jones sá eini sem er frá.

Í öðrum fréttum er það helst að 50 ár eru liðin frá afar skemmtilegum bikarsigri Everton í úrslitum FA bikarsins, eins og sjá má hér:

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 sigraði Mön 0-3 með tveimur mörkum frá Calum Dyson og einu frá Antony Evans.

En, Sunderland næstir, kl. 18:45 annað kvöld! Leikurinn er í beinni á Ölveri.

Comments are closed.

%d bloggers like this: