Liverpool vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að derby leiknum við Liverpool á Anfield, sem í raun átti að fara fram fyrir löngu en var frestað þegar Liverpool gerðu misheppnaða tilraun til að sigra Man City í úrslitum deildarbikarsins. Hvorugt liðið hefði líklega kosið akkúrat þennan leikdag, morgundaginn, fyrir deildarleik enda álagið nokkuð á þeim báðum undanfarið og deildin pínulítið verið í aukahlutverki þar sem liðin eru bæði komin langt í bikar — Everton í FA bikarnum og Liverpool í Europa League.

Nokkuð er um meiðsli í herbúðum beggja liða, en á móti kemur að bæði lið hvíldu þó nokkuð marga lykilmenn í síðasta leik. Í augnablikinu hefur þó maður mestar áhyggjur af bakvörðum Everton þar sem bæði Coleman og Oviedo meiddust í síðasta leik. Coleman meiddist nægilega mikið til að fara út af og ljóst er að hann verður ekki með en „náttúrulegar“ varaskeifur fyrir þá stöðu eru ekki margar. Hibbert er til dæmis ekki í leikformi, en hann fékk 45 mínútur með U21 árs liðinu á dögunum. Eitthvað er líka um meiðsli/lán hjá ungviðinu. Oviedo hefði verið ágætur neyðarkostur í hægri bakvörð en það leit ekki vel út hjá honum þegar hann virtist togna illa á ökkla snemma í síðasta leik en á einhvern undraverðan hátt virðist hann þó hafa sloppið með ótrúlegum hætti við meiðsli og kláraði leikinn, allavega var hann ekki einu sinni metinn tæpur í dag. Það eru nokkrir kostir sem maður sér í stöðunni: Bakvarðaparið gæti verið Baines og Oviedo, ef Baines er þá heill. Oviedo og Connolly er annars möguleiki sem og Oviedo og Lennon, ef Lennon er þá heill. Þetta kemur betur í ljós annað kvöld. Barry, Barkley og Lukaku koma allir úthvíldir í þennan leik, sem og McCarthy sem tók út eins leiks bann.

Ljóst er jafnframt að Jagielka verður ekki með en Cleverley er einnig metinn tæpur. Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Funes Mori, Stones, Oviedo, Barry, McCarthy, Mirallas/Pienaar, Lennon/Deulofeu, Barkley, Lukaku. Hjá Liverpool er Origi tæpur og Toure, Can, Benteke, Henderson, Rossiter, Gomez og Ings sagðir frá. Fyrstu nöfnin sem við leitum þó að í uppröðun Liverpool hljóta þó að vera nöfn Sahko og Mignolet, sem hafa glatt okkur mikið með sirkusatriðum á tímabilinu. Vonandi sjáum við þá í byrjunarliðinu.

Síðustu þrír innbyrðis leikir þessara liða hafa endað með jafntefli og komum við til með að horfa til Lukaku og Barkley að setja í leikinn mörk á morgun en þeir tveir hafa verið mjög duglegir við að skora. Lukaku er einn heitasti framherjinn í ensku núna, kominn með 25 mörk í öllum keppnum, þar af 18 í deild. Barkley er búinn að eiga flott tímabil líka með 8 mörk í deild (12 samtals). Enginn leikmaður Liverpool hefur svo mikið sem náð tveggja stafa tölu í markaskorun í deild á tímabilinu og tveir þeirra rétt slefa upp í 10 og 11 — þegar búið er að telja mörk í öllum keppnum með. Það segir ákveðna sögu að meira að segja Kone hjá okkur vantar ekki nema eitt mark í deild til að jafna Benteke í markaskorun og aðeins tvö í bæði Origi og Sturrige.

Pressan í leiknum er Liverpool megin annað kvöld því tapi þeir eða geri jafntefli hefur Everton eiginlega gert út um veika von þeirra til Meistaradeildarsætis því þá væru þeir 10 stigum (11 með tapi) á eftir fjórða sætinu með engan leik til góða og aðeins 6 leiki eftir af tímabilinu. Tapi Everton leiknum hins vegar koma leikmenn okkar til með að mæta dýrvitlausir til leiks í FA bikarnum á Wembley.

En þá að öðru því af ungliðunum er það helst að frétta að…

 • Everton U18 eiga enn séns á að endurheimta Englandsmeistaratitil U18 en þeir unnu Fulham U18 2-3 á útivelli á dögunum (sjá vídeó). Shayne Lavery skoraði tvö fyrir Everton í leiknum en sigurmarkið skoraði James Yates. Staða þeirra í deild er hér.
 • Everton U21 unnu Man City U21 1-0 (sjá vídeó) með marki frá Kieran Dowell og má sjá stöðuna í U21 árs deildinni hér.
 • Sóknarmaðurinn Courtney Duffus var valinn leikmaður marsmánaðar í ensku U21 deildinni.

En, Liverpool næstir, annað kvöld kl. 19:00. Sjáumst á Ölveri!

14 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Þeir hjá Sky Sports tóku saman styrk- og veikleika hvers liðs í Úrvalsdeildinni.
  http://www.skysports.com/football/news/11671/10249808/premier-league-strengths-and-weaknesses-a-club-by-club-guide

  Styrkur Everton leynist felst helst í því hversu oft þeir brjóta niður vörn andstæðingana og skora úr „opnu spili“ (e. open play). Samtals 39 mörk þar og aðeins City, Arsenal og Leicester sterkari á þessu tímabili. Veikleiki Everton er varnarleikurinn á *heimavelli* en í kvöld reynir augljóslega á útivallarformið sem hefur verið afar gott undanfarið: í síðustu sjö leikjum hefur Everton skorað 12 mörk og fengið á sig þrjú en það hefur skilað liðinu fjórum sigrum, tveimur jafnteflum og aðeins einu tapi.

  Hvað styrkleika Liverpool varðar tína þeir til mestan fjölda tæklinga (23 per leik) og veikleikinn er fjöldi einstaklingsmistaka sem leiða til skots frá andstæðingum (29 á tímabilinu).

  Ég spái 1-1 jafntefli í fjörugum leik þar sem Liverpool skorar fyrst eftir horn og Lukaku jafnar með glæsibrag. Spái jafnframt því að við sjáum mjög umdeilt atvik.

  • Diddi skrifar:

   „Styrkur Everton leynist“ er ágætlega orðað hjá þér Finnur en hann mætti vera minna í leyni 🙂

 2. matti skrifar:

  Ég æli ef lukaku barkley barry verða i liðinu þessi leikur skiptir engu mali og vona að hibbert gibson osman niasse og þeir spili og svo vona bara það besta, fa cup a laugardag og að missa mikilvægan mann i meiðsl utaf derby grobbi er ekki cool eg mun ekki reiðast martinez ef hann tapar með varaliðið enn verð brjalaður ef hann tapar með aðall og fornar þeim i þetta helvitis liverpool lið

 3. Steini skrifar:

  Easy LFC sigur framundan. Það er engin spenna lengur í þessum derby slag. Þetta er alltaf Liverpool sigur eða í versta falli jafntefli. Unnuð þið ekki síðast á Anfield á síðustu öld?

  Sóknarleikur Liverpool á eftir að jarða þessa vörn ykkar, 3-5 mörk en ætli Sakho eða Mignolet eigi ekki eftir að gefa ykkur eitt mark.
  Það væri alveg eftir þeim.

  En gott að sjá að þið eruð komnir með 41 stig. Dugar til að halda ykkur uppi í ár. Væri synd að sjá ykkur falla svona upp á ríginn.
  En þið eruð ótrúlega nálægt falli samt svona miðað við hve gott lið þið haldið að þið séuð með. Það er nú varla bara hægt að skrifa það á þjálfarann?

  • Orri skrifar:

   Takk fyrir góðann pistil Steini,og til hamingju með Evrópudeildar titilinn.

   • Steini skrifar:

    já takk fyrir það, ég man enn hve vel ég fagnaði þegar að Geli skoraði sjálfsmarkið og tryggði okkur titilinn!

    • Diddi skrifar:

     styttra síðan að þið voruð í neðri deild ef út í það er farið Steini minn 🙂

  • matti skrifar:

   þið takið þetta a næsta ári

 4. halli skrifar:

  Ég er til í að sjá okkar menn taka þennan leik alla leið nýta vel það góða útivallarform sem er á liðinu 1-3 sigur á litla bróður er eitthvað svo sætt.
  Eru ekki allir sunnanmenn klárir í stemmara á Ölver

 5. Diddi skrifar:

  við töpum 3-1 🙁

 6. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin: http://everton.is/2016/04/20/liverpool-everton/

  Sterkt lið sem mætir til leiks. Enginn, sem fyrir leik var metinn tæpur, er frá. Það er gott að sjá.

 7. þorri skrifar:

  sammála ömurlegur leikur hjá okkar mönnum. ég spyr hvað er í gangi hjá okkar mönnum

%d bloggers like this: