Íslendingaferð – tryggðu sæti fyrir 23. mars

Mynd: Everton FC.

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að klúbburinn stefnir á hópferð á Goodison Park til að sjá Everton mæta Bournemouth í lok apríl. Enn eru örfáir miðar lausir og þú hefur nú frest til dagsloka miðvikudags í þessari viku (23. mars) til að tryggja þér sæti á því verði sem auglýst var en eftir þann dag gæti verið dýrara (eða jafnvel ekki hægt) að tryggja flugmiða fyrir þá ferðalanga sem eiga eftir að bóka.

Rétt er að geta þess að ef eitthvert ykkar er búsett erlendis og vill fara með erum við til í að redda miðum á Goodison svo þið getið skipulagt ykkar flug og gistingu sjálf en verið með hópnum í fjörinu. Látið bara vita fyrir næstu helgi, sem er þegar við pöntum miða á leikinn. Þið hin (á Íslandi) skulið endilega hafa samband beint við Vita Sport (í síma 570-4444 eða á tonsport@vita.is) fyrir lok miðvikudags og tryggja ykkur miða. Verð í tvíbýli er 99.500 kr. en þess má geta sambærilegur pakki frá íslenska stuðningsmannaklúbbi Liverpool er jafnan í litlum 150.000 krónum.

Þegar er kominn mjög skemmtilegur kjarni í þessa ferð þannig að endilega ekki missa af henni! Öll nánari smáatriði um ferðina er að finna hér.

5 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Ég er búinn að greiða þessa ferð að fullu og hlakka mjög mikið til að komast á alvöru brasilískt steikhús, í Everton búðina, á pöbbarölt og á veitingastaði í frábærum félagsskap. Jafnvel í skoðunarferð um leikvanginn, ef einhver hefur áhuga — þó að ég hafi farið áður. 🙂 Ef fólk vill er spurning líka með að skoða aukaleik á sunnudeginum: United – Leicester og Bolton – Hull, til dæmis, sem eru báðir í nágrenninu.

  Síðast þegar ég frétti voru Elvar, Georg, Einar, Haraldur (formaður), Eyþór og Róbert skráðir (og ég náttúrulega). Gæti verið að fleiri séu skráðir sem ég hef ekki heyrt frá.

  Koma svo, það eru örfáir dagar til stefnu! Hversu oft hefur þú tækifæri til að fara á Goodison Park í góðum félagsskap með fararstjórum sem planleggja skemmtidagskrá og taka ekkert fyrir? Ég hef reyndar sjálfur gerst svo lánssamur að ná að fara í nokkrar og þetta hefur alltaf verið hrikalega skemmtilegt.

  Komdu með!
  http://everton.is/2016/02/21/komdu-med-a-goodison-park/

 2. Ari S skrifar:

  Eigandi Brasilíska steikhússins er góðvinur Bryan Oviedo, þú ættir að hafa samband fyrirfram og bjóða Oviedo í mat með ykkur…. 🙂

 3. Robert E skrifar:

  Ef hægt er, þá klárlega til í United-Leicester.

 4. Elvar Örn skrifar:

  Stórfréttir, Tim Howard er á leið í MLS í sumar svo Everton er að leita að nýjum markmanni. STAÐFEST

%d bloggers like this: